Loks er meirihlutinn í borgarstjórn að taka við sér þegar kemur að því að ráðast til atlögu gegn löngum biðlistum. Meirihlutinn lagði fram á dögunum pakka af tillögum um að taka á biðlistum barna til fagfólks skólaþjónustu og færa jafnframt fagfólk nær börnunum í skólunum. Sálfræðingar eiga þó ekki að hafa fullt aðsetur innan skólanna eins og fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá og hefur ítrekað lagt til. Það er auk þess vilji margra skólastjórnenda enda þjónar slíkt fyrirkomulag best börnum og starfsfólki. Hér talar fulltrúi Flokks fólksins af 10 ára reynslu sinni sem skólasálfræðingur.
Nú bíða 1056 börn eftir þjónustu fagfólks skóla. Biðlistinn hefur verið að lengjast jafnt og þétt síðustu árin. COVID-ástandið bætti ekki úr en nú bíða sem dæmi 434 börn eftir þjónustu talmeinafræðings. Fulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi kjörtímabils barist fyrir því að fagfólki verði fjölgað og að farið verði markvisst og kerfisbundið í að stytta biðlista barnanna. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum allt kjörtímabilið. Segir í nýlegum pistli formanna skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs „að sérstakt átak verður gert í að styðja við börn sem leitað hafa eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga skólaþjónustunnar í vetur en umsóknum um skólaþjónustu hefur fjölgað hratt undanfarið í tengslum við Covid-faraldurinn“.
Hugsanlega má reikna með að eitthvað af umbótatillögum meirihlutans á skóla- og velferðarsviði verði orðnar að veruleika rétt fyrir borgarstjórnarkosningar sem verða í maí á næsta ári. Er það ekki dæmigert að efna eigi loforð rétt fyrir kosningar sem gefin voru fyrir síðustu kosningar? Nái þessi meirihluti aftur kjöri má ætla að sama gerist og síðast, hin fögru loforð fara í skúffu og þegar líður aftur að kosningum verði aftur dustað af þeim rykið?
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega að stíga eigi þetta skref og samþykkti allar þessar tillögur. Segja má „betra seint en aldrei“. Allt sem er gott fyrir börnin þótt skrefin séu lítil styður fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn. Hins vegar hefur dýrmætur tími tapast. Fyrir tugi barna sem hafa verið á biðlistum er ansi seint í rassinn gripið. Þau hafa mátt bíða mánuðum saman og jafnvel árum með vandamál sín óleyst í þeirri von að brátt komi nú röðin að þeim og þau fái fullnægjandi þjónustu í formi einstaklingsmiðaðrar faglegrar aðstoðar. Mörg hafa útskrifast úr grunnskóla án þess að hafa fengið aðstoð ýmist að hluta til eða öllu leyti.
Stafræn umbreyting sett ofar en aðstoð við börn í vanda
Á meðan börnin hafa beðið hefur hins vegar ekki flækst fyrir meirihluta borgarstjórnar að ákveða að ráðstafa 10 ma.kr. í stafræna umbreytingu eða öllu heldur stafræna umbyltingu. Fyrir brot af þessum tíu milljörðum mætti gera mikið fyrir börnin í borginni og aðra viðkvæma hópa. Ekki er um það deilt að stafrænar lausnir eru af hinu góða. Nauðsynlegt er að einfalda ákveðna ferla til að flýta afgreiðslu sem dæmi. En meðhöndla þarf fjármuni borgarinnar af skynsemi og ábyrgð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að það hafi ekki verið gert þegar kemur að innleiðingarferli stafrænnar umbreytingar í borginni. Um þau mál hafa verið lagðar fram fjöldi bókanna og fyrirspurna. Eitt er víst að engin stafræn umbreyting mun verða til þess að grynnka á biðlistum á meðan ekki er nægt fagfólk ráðið til verksins, hvorki talmeinafræðingar né sálfræðingar. Þess utan þarf enga 10 ma.kr. til að taka nauðsynleg skref í einföldun rafrænna ferla. Hluti þessa fjármagns hefði átt að ráðstafa til að styrkja skólaþjónustu grunnskólanna og ráða fleira fagfólk, sálfræðinga og talmeinafræðinga.
Þær eru ófáar tillögurnar sem fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram á kjörtímabilinu sem lúta að lausnum á biðlistavanda borgarinnar. Biðlistar í borginni eru eins og illkynja mein sem vaxið hefur hratt síðustu árin. Allar tillögur Flokks fólksins hafa verið felldar eða þeim vísað frá meira og minna. Vaxandi vanlíðan barna hefur verið staðfest af Landlæknisembættinu, í könnunum Velferðarvaktarinnar og nú síðast í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Niðurstöður bera að sama brunni þ.e. að börn og ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri en áður. Áhrif og afleiðingar COVID hefur bæst ofan á þá slæmu stöðu sem fyrir var.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Grein birt í Fréttablaðinu 29. júní 2021