Jólin eru hátíð barnanna og þegar ég var barn hlakkaði ég mikið til jóla. Á aldrinum 6-12 ára bjó fjölskyldan mín í 40 m2 íbúð, mamma ásamt fjórum börnum sínum. Tilhlökkun til jólanna var fölskvalaus því á þessum árum voru vissulega þrengsli og oft lítið á borðum en það ríkti öryggi á heimilinu og enginn þurfti að vera kvíðinn eða hræddur. Ég hlakkaði til að fá epli, jólamat og konfekt. En gjafir voru aðalatriðið svo það sé nú sagt. Ég fékk nýjan kjól sem mamma saumaði og þegar jólin gengu í garð var maður aldeilis hreinn og fínn.
Nú styttist í jólin. Í þakklæti mínu fyrir að hafa átt áfengis- og ofbeldislaust skjól á heimili mínu góðan hluta bernskuáranna er mér hugsað til barna sem nú kvíða jólunum vegna heimilisaðstæðna. Ástæður geta verið fjölmargar. Fátækt ber fyrst að nefna því fátækt er raunverulegt vandamál á Íslandi. Enda þótt við sjáum ekki grátandi börn á götunni að betla þá er talað um að um 5000 börn búi við fátækt, og sum hver sára fátækt, í Reykjavík. Á heimilum þar sem fátækt ríkir er oft lítið um jólaglaðninga, kannski eru kertaljós en engin klæði rauð.
Fátækt á sér margar birtingarmyndir. Hér áður fyrr voru margar fjölskyldur bláfátækar og þurftu að sníða sér stakk eftir vexti. Sá stakkur var stundum níðþröngur. Til að ná endum saman var unnið myrkranna á milli. Á þessum árum bjuggu stórar fjölskyldur í litlu rými og þótti ekki tiltökumál. Þetta hefur mikið breyst og eru mælikvarðar, viðmið, væntingar og viðhorf nú öll önnur. Rými eru stærri, meira úrval af öllu og fleiri sóknarfæri. Samt sem áður er góður hópur fólks hér á landi sem hefur það skítt því það býr við fátækt í allri merkingu þess orðs. Þetta eru einstaklingar, einstæðir foreldrar, öryrkjar á sínum lágu bótum og allt of margir eldri borgarar sem horfa þurfa í hverja krónu þegar velja á jólagjöf handa barnabörnunum.
Neysla og ofbeldi
Það er ekki eingöngu fátækt ein og sér sem er erfið börnunum og fjölskyldum þeirra. Sum börn búa stundum bæði við fátækt og neysluvanda foreldra. Á sumum heimilum er einnig heimilisofbeldi sem stundum beinist ekki aðeins að maka heldur einnig börnunum sjálfum. Á heimilum þar sem fjölþættur vandi ríkir (fátækt, neysla og ofbeldi) eru kannski hvorki kertaljós né klæðin rauð. Við getum öll sett okkur í spor barnanna og fundið hversu stór kvíðahnúturinn er í maga þeirra. Þau hugsa hvernig aðfangadagskvöld og jólin öll verði hjá þeim að þessu sinni. Verður þetta eins og venjulega, kannski betra eða verður þetta verra?
Það gæti nefnilega orðið verra núna því við lifum á ótrúlegum tímum. Í kjölfar COVID-19 hefur komið í ljós að tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað. Um er að ræða aukningu tilkynninga þar sem börn eru beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili sínu. Af þessu hljótum við öll að hafa miklar áhyggjur. Börnin sjálf eru oft ekki að ræða um þessi erfiðu mál út á við. Sum fela þjáningar sínar og halda niðri í sér óttanum. Mörg eru einnig að verja heimilisfólkið, vilja ekki koma því í vandræði og óttast einnig að ef þau segja frá, þá verði þau skömmuð.
Barn í aðstæðum sem þessum verður að vita að það er leið út. Það má aldrei missa vonina. Minning um jól þar sem neysla með tilheyrandi fylgikvillum réði ríkjum eru minningar sem seint hverfa í gleymsku. Við sem hluti af samfélagi þurfum hvert og eitt okkar að vera á vaktinni, tilbúin að stíga inn og koma til aðstoðar vitum við af barni sem er í einhverjum ofangreindum aðstæðum. Við eigum að láta okkur málefni allra barna varða sem verða á vegi okkar eða eru í umhverfi okkar. Við eigum að vera almennt forvitin um aðstæður barna, jafnvel afskiptasöm, þora að spyrja óþægilegra spurninga og ávallt að taka slaginn fyrir börn. Börn eiga alltaf að njóta vafans.
Ef við höfum minnsta grun um að barn búi við óviðunandi aðstæður s.s. sára fátækt, neysluvanda umönnunaraðila og/eða ofbeldi ber okkur samkvæmt íslenskum lögum að tilkynna málið til barnaverndarnefndar. „Tilkynning“ er ein tryggasta leiðin til að hjálpa barni við þessar aðstæður, ekki eingöngu til skemmri tíma heldur til lengri tíma. Tilkynning af þessu tagi gæti verið besta jólagjöfin sem barnið fær þetta árið. Almennur tilkynnandi getur tilkynnt undir nafnleynd.
Sum sveitarfélög eru með sérstakan tilkynningarhnapp fyrir börn á heimasíðu sinni þar sem þau geta tilkynnt sjálf ef eitthvað er ekki í lagi hvort sem þau eru vitni að ofbeldi eða það beinist að þeim sjálfum eða vinum þeirra. Reykjavík er eitt þeirra sveitarfélaga. Með þessu fyrirkomulagi er verið að gefa röddum barna meira vægi. Mikilvægt er að hnappurinn höfði til barnanna og sé á sem flestum tungumálum. Umfram allt þurfa börn að vita af tilkynningarhnappnum. Það er tillaga undirritaðrar að sveitarfélög sem ekki hafa nú þegar slíkan hnapp ætlaðan börnum, komi honum upp. Einnig er lagt til að sveitarfélög fari í sérstakt átak að auglýsa tilkynningarhnappinn og að átakið feli í sér fjölbreyttar aðferðir til að ná tilætluðum árangri.
Birt í Morgunblaðinu 22. 12. 2020