Lofað og svikið


Ídag, 17. janúar, hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins óskað eftir umræðu um manneklu í leikskólum á fundi borgarstjórnar. Mannekla í leikskólum er langvarandi vandamál í Reykjavík sem meirihlutinn hefur ekki getað leyst.

Eins og vandinn blasir nú við er vissulega engin ein töfralausn. Mörg hundruð börn bíða eftir plássi. Meirihlutinn lofaði plássum í leikskólum sem ekki höfðu verið byggðir eða fullkláraðir sem var áfall fyrir foreldra.

Ekki kann góðri lukku að stýra að lofa upp í ermina á sér og þurfa síðan svíkja loforðin. Það er ekki aðeins vandamál að það vanti pláss heldur berast títt fréttir af því að leikskólar sendi börn heim vikulega eða jafnvel oft í viku vegna manneklu. Það gengur heldur ekki til lengdar að foreldrar ungra barna hafi áhyggjur og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna mikils álags í starfi.

Hættan er að það skapist svipað ástand og er á bráðamóttöku Landspítalans en þar hefur margt starfsfólk sagt upp vegna mikils álags og slæmrar vinnuaðstöðu.

Borgin, sem er í hröðum vexti, stefnir á fjölgun leikskólaplássa um allt að 500 á næsta ári. Margir leikskólakennarar hafa flutt sig yfir til grunnskólanna þar sem þeim kann að finnast störfin þar meira aðlaðandi.

Í Reykjavík þarf að laða fólk til starfa í leikskólum meðal annars með bættum kjörum og starfsaðstæðum. Það kann að vera erfitt þar sem fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm.

Flokkur fólksins hefur lagt fram nokkrar tillögur til úrbóta. Til að vinna okkur út úr stöðunni þarf hlaðborð lausna. Flokkur fólksins lagði fram tillögu um heimagreiðslur til foreldra meðan þeir bíða eftir leikskólaplássi fyrir börn sín. Sú lausn er ódýrari fyrir sveitarfélagið en dýrt leikskólapláss ef miðað er við yngstu börnin.

Flokkur fólksins hefur einnig ítrekað lagt til að bjóða fólki upp á sveigjanleg starfslok. Í hópi eldri borgara er dýrmætur mannauður, mannauður sem við viljum njóta sem lengst.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

Pistill birtur í Fréttablaðinu  17.1. 2023