Mannréttina- og ofbeldisvarnaráð 12. september 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Ofbeldistilvik á Menningarnótt, öryggismál og fyrirbyggjandi aðgerðir. MSS24050148 – umræða

Alvarleg ofbeldistilvik áttu sér stað í miðborginni á Menningarnótt þar sem eggvopnum var beitt með hræðilegum afleiðingum. Merki hafa verið síðustu ár um að ákveðin hnífa- og ofbeldismenning hafi þróast meðal ungmenna. Ekki er hægt að segja að við þessu hafi verið brugðist að heitið geti þótt þróunin hafi blasað við. Í upphafi kjörtímabilsins 2022 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík og lagði til aukið samráð þriggja sviða sem koma mest að þjónustu við börn. Þá þegar voru ýmis teikn á lofti um aukið ofbeldi meðal barna og ungmenna. Tillagan fékk ekki brautargengi. Sem mótsvar við tillögu Flokks fólksins lagði mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð fram tillögu um samráðsvettvang allt of stórs hóps að mati Flokks fólksins. Tillagan þvældist lengi um í kerfinu en var loks samþykkt. Æskilegt væri að fá upplýsingar um hvernig vinnu hjá hópnum miðar áfram.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um átak til að minnka ofbeldi gegn eldra fólki. MSS24050120 – afgreiðsla:

Samþykkt að vísa tillögunni frá með sex atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins.

Mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Bæklingurinn Heimilisofbeldi og eldri borgarar er nú þegar til og var unninn í samstarfi við félags- og dómsmálaráðuneyti og er þýddur á fleiri tungumál. Tillögunni er þess vegna vísað frá en ráðið mun leggja áherslu á áframhaldandi umræðu um þetta mikilvæga málefni.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lagði til mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð fari í átak til að minnka ofbeldi gegn eldra fólki sem því miður er staðreynd í samfélaginu. Lagt er jafnframt til að mannréttindaskrifstofan útbúi bækling með fræðslu um ofbeldi og með upplýsingum um hvert fólk gæti leitað til að fá hjálp og stuðning. Bæklingnum væri síðan dreift til eldri borgara í Reykjavík. Tillagan er felld þar sem þegar er til bæklingur Það er staðreynd er að ofbeldi gagnvart eldra fólki hefur aukist. Ofbeldisvarnaráð á að láta sig þetta mál varða og beita sér bæði til að vekja athygli á málinu og leggja grunn að fræðslu. Senda frá sér hvatningu til starfsmanna borgarinnar sem annast eldra fólk um að vera vakandi og tilkynna mál ef grunur leikur á að eldri borgari sé að verða fyrir ofbeldi.