Níðst á svínum á Íslandi

Níðst á svínum á Íslandi

Í dag á þinginu er lögð fram beiðni mín og fleiri þingmanna beiðni um skýrslu frá atvinnuvegaráðherra um aðbúnað og velferð svína.

Þess er óskað að atvinnuvegaráðherra flytji Alþingi skýrslu um úttekt á reglum og eftirliti er varða aðbúnað og velferð svína. Í skýrslunni verði farið yfir m.a. hversu algengt það er að halaklippingar á svínum viðgangist hjá svínaræktendum og hversu oft Matvælastofnun hafi gert athugasemdir við framkvæmd halaklippinga hvert undanfarinna tíu ára og hvort gripið hafi verið til sekta eða annarra viðurlaga vegna brota á reglum um framkvæmd þeirra. Einnig er þess óskað að gert verði úttekt á hversu algengt sé að klippa tennur svína til að draga úr hættu á halabiti. Flokkur fólksins vill jafnframt fá skýrar upplýsingar um  hvaða aflífunaraðferðir séu notaðar í hverju svínasláturhúsi og hversu mörgum dýrum hafi verið slátrað þar hvert undanfarinna tíu ára. Við viljum einnig vita  hvernig halaklippingar, klippingar á tönnum og notkun gasklefa samræmist lögum og reglum um velferð dýra. Síðast en ekki síst er mikilvægt að það liggi fyrir  hversu margir framleiðendur hafi ræktað svín sl. tíu ár og hversu margir framleiðendur hafi sótt um frest á hverju ári, á grundvelli hvaða rökstuðnings og hversu langir frestir hafi verið veittir.

Þá er óskað eftir að upplýst verði hvaða ástæður hafi búið að baki þeirri ákvörðun ráðherra að breyta bráðabirgðaákvæði reglugerðar um velferð svína, nr. 1276/2014, sem hafði þann tilgang að tryggja velferð og heilbrigði svína með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði og þar sem fram komu lágmarkskröfur um einstök atriði, með reglugerð um breytingu á reglugerð um velferð svína, nr. 1622/2024, þannig að þriggja ára frestur var veittur til viðbótar við tæplega tíu ára frest sem þá var að renna út til að gera úrbætur í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og var háður því að framleiðandi skilaði inn tímasettri úrbótaáætlun og kostnaðarmati.   Þá er enn fremur óskað eftir rökstuðningi fyrir því að hve miklu leyti hagkvæmnissjónarmið ræktenda ráði því hvort stjórnvöld innleiði metnaðarfyllri reglur um velferð svína eða framfylgi þeim sem þegar eru fyrir hendi.

Minnt er á lög um velferð dýra

Í greinargerð með málinu segir að síðustu misseri hefur verið allnokkur umræða um aðbúnað og velferð svína og sláandi upplýsingar birst í fjölmiðlum um aðbúnað og meðferð svína á ræktunarbúum sem virðast ekki samræmast ákvæðum laga um velferð dýra, nr. 55/2013, og reglugerð um velferð svína, nr. 1276/2014, með síðari breytingum.
Í lögum um velferð dýra er í 1. gr. kveðið á um að markmið laganna sé að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Þar segir einnig: „Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“

Eftirlit með velferð dýra.
Ríkisendurskoðun ákvað í september 2022 að hefja stjórnsýsluúttekt á eftirliti Matvælastofnunar um velferð dýra á grundvelli heimildar í 6. gr. laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, nr. 46/2016. Í skýrslunni var lögð áhersla á eftirlit með hefðbundnu búfjárhaldi, þ.e. alifuglum, geitfé, hrossum, nautgripum, sauðfé og svínum. Leitast var við að kanna hvort eftirlitið væri skilvirkt og árangursríkt og hvort það væri í samræmi við lög og reglugerðir um velferð dýra. Fjölmargar ábendingar eru settar fram í skýrslunni til Alþingis frá nóvember 2023, m.a. um að Matvælastofnun þurfi að leggja meiri áherslu á að dýr njóti vafans þegar velferð þeirra er ógnað, vanda þurfi málsmeðferð en stíga þurfi fastar niður í málum þar sem brotið er á dýrum.
Þá voru settar fram ábendingar sem varða fyrirkomulag innan stjórnsýslunnar og bent á að endurskoða þyrfti þá tilhögun að ráðherra skipi yfirdýralækni sem og að ráðuneytið þyrfti með hliðsjón af hlutverki ráðuneytisins sem æðra stjórnvalds að endurskoða aðkomu sína að innri úttektum með eftirliti og starfsemi Matvælastofnunar.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði um skýrsluna og skilaði áliti um hana í febrúar 2024 (708. mál) þar sem tekið er undir ábendingar Ríkisendurskoðunar. Þar kom fram að unnið væri að endurskoðun laga um velferð dýra hjá ráðuneytinu og það hvatt til að flýta þeirri vinnu. Í greinargerð með frumvarpi til laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993 (235. mál) sem atvinnuvegaráðherra mælti fyrir á yfirstandandi þingi og er til meðferðar í atvinnuveganefnd kemur fram að unnið er að heildarendurskoðun löggjafar um heilbrigði og velferð dýra.

Eftirlit með velferð svína.
Reglugerð um velferð svína var sett árið 2014 á grundvelli laga um velferð dýra og laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir: „Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði svína með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að svín geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.“


Lokaorð

Með skýrslubeiðni þessari óska flutningsmenn eftir því að atvinnuvegaráðherra flytji Alþingi skýrslu um úttekt á reglum og eftirliti er varða aðbúnað og velferð svína og að tilteknum spurningum verði svarað varðandi framkvæmd aflífunaraðferða í svínaræktun og tiltekinna aðgerða sem gerðar eru á svínunum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að varpa ljósi á og upplýsa hvernig búið er að svínum en eins og fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru tilkynningar vegna gruns um brot á lögum sem gilda um velferð dýra fáar enda búin lokuð og sýnileiki dýranna mjög takmarkaður. Þá óska þeir eftir að fá fram hvaða rök búi að baki endurteknum framlengingum á frestum fyrir framleiðendur til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar frá því að reglugerðin var sett árið 2014 þar sem einungis er kveðið á um lágmarkskröfur um aðbúnað, meðferð og umsjá. Þá telja þeir einnig nauðsynlegt að fá fram rökstuðning fyrir því að hve miklu leyti hagkvæmnissjónarmið ræktenda ráði því hvort stjórnvöld innleiði metnaðarfyllri reglur um velferð svína eða framfylgi þeim sem þegar eru fyrir hendi.