You are currently viewing Og svarðu nú!

Og svarðu nú!

Þann 1. desember var fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og fimm ára áætlun. Á þeim fundi voru einnig oddvitaumræður og fékk hver oddviti að halda ræðu í allt að klukkutíma. Ég nýtti hverja sekúndu. Í ræðu minni var ég með nokkrar spurningar til borgarstjóra sem ég á eftir að fá svör við. Mig langar að deila þessum spurningum með ykkur hér ásamt stuttum skýringum með hverjum spurningaflokki.

Búið er að reka nokkra tæknimenn og útvista verkefnum. Verkið þarf að vinna. Fram kom í fréttum að af sviði þjónustu- og nýsköpunar hafa 23 einstaklingar verið ýmist reknir eða flæmst úr starfi, oft fólk með langan starfsaldur. Alls sjö manns var sagt upp á árinu. Þetta hefur gerst þrátt fyrir hina samfélagslegu vídd Græna plansins sem borgarstjóri hefur kynnt? Varla er þetta í anda græna plansins? Hver er hagræðingin af þessu?

Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir að sjá þær tölur? Formaður velferðaráðs sagði að standa ætti vörð um störf í COVID-aðstæðunum. Þetta getur varla flokkast undir að standa vörð um störf?

Fulltrúar borgarmeirihlutans segjast vera náttúruunnendur en hafa engu að síður samþykkt að leggja þriðja áfanga Arnarnesvegar þannig að vegurinn mun kljúfa Vatnsendahvarfið eftir endilöngu og takmarka mjög framtíðarmöguleika svæðisins. Sagt er að þetta sé í góðri sátt við Kópavog og Vegagerðina. Það eru aðrar leiðir færar í þessu máli sem Vinir Vatnsendahvarfs hafa kynnt sem ekki munu koma sér eins illa. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik- og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum? Framkvæmdin byggir á 18 ára gömlu umhverfismati. Vatnsendahvarfið, sem þessi þriðji áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum þegar umhverfismatið var gert. Virði svæðisins er meira nú. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla svo sem lóur, hrossagaukar og spóar sem verpa þar á hverju ári.

Nýlega féll úrskurður í Úrskurðarnefnd Velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Búið er að þvæla með þetta einstaka mál og mörg önnur fram og aftur frá því að einstaklingurinn var 15 ára. Upplýsingum frá borginni ber ekki alltaf saman og stundum er sagt að umsóknin hafi ekki tekið gildi fyrr en drengurinn varð 18 ára. Fjöldi funda hafa verið haldnir auk símtala og póstsamskipta. En síðan ekki söguna meir. Móðir sem var virk á vinnumarkaði er orðinn öryrki. Einstaklingurinn er sagður efstur á lista en þó ekki víst að hann sé næstur. Hér er um misvísandi skilaboð að ræða og óskað er útskýringa og hvort bæta eigi þessum einstaklingi og fjölskyldu hans upp skaðann vegna biðarinnar og þeirrar óreiðu sem málið hefur allt verið í?

Fólkleitar sér skjóls í óskráðum íbúðum/húsum með tilheyrandi hættu ef það er í neyð. Ef því er fleygt út, hvert fer það þá? Tekur velferðarsvið við þessu fólki opnum örmum og býður því húsnæði? Eða fer þetta fólk á vergang í annað óskráð húsnæði?

Hefur börnum sem tilheyra þessum fjölskyldum verið hjálpað? Ætlar borgin að taka frumkvæði í að kalla eftir lagabreytingum og samræðum við ríkið í þessum efnum ?

Hvar er borgin stödd í sérskólaúrræðum? Börn sem þurfa sérnámsúrræði eru oft í ólíðandi aðstæðum því þau komast ekki í úrræði eins og Klettaskóla, sem er yfirfullur. Enn er staðan sú að foreldrar sem hafa óskað eftir vist fyrir barn sitt í sérskóla hafa orðið frá að hverfa ef fyrirsjáanlegt er að barnið nær ekki inntökuviðmiðunum. Á sama tíma er barnið þeirra að berjast í bökkum inn í almennum bekk, líður illa, er jafnvel einangrað, enda ekki á meðal jafningja. Spurt er: Stendur til að setja á laggirnar fleiri sérskólaúrræði eða sérúrræði í skólum?

Stendur til að auka fjármagn til skóla eins og kallað var eftir í skýrslu innri endurskoðunar í fyrra? Ekki er að sjá það í þessari fjárhagsáætlun eða fimm ára áætlun.

Hvað varðar biðlista í námskeið þá bíður t.d. 41 barn eftir að komast í námskeiðið Klókir litlir krakkar. Biðlistar eru einnig í sérdeildir, eftir stuðningsfjölskyldu, eftir stuðningi og liðveislu. Eftir talmeinafræðingi bíða yfir 212 börn og milli 700 og 800 bíða eftir þjónustu fagfólks skóla, helst sálfræðinga. Af hverju eru þessi biðlistar eftir þjónustu til í borginni?

Ætlar borgarmeirihlutinn að fara að taka á þessu máli og ef svo er þá hvernig?

Nú á að leggja hundaeftirlitið niður halda áfram með sama fyrirkomulag á nýjum vettvangi dýraþjónustu. Þessu er mótmælt enda eiga skráningar sem þessar ekkert skylt við eftirlit. Þykir það eðlilegt að þeir sem borga skráningargjöld af hundum sínum standi undir kostnaði við eftirlit á því hvort aðrir skrái hunda sína?

Er eðlilegt og sanngjarnt að hundaeigendur einir, þeir sem skrá hunda sína, haldi uppi kostnaði við gæludýraþjónustu borgarinnar?

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.
Birt á visi.is 12. desember 2020