Okkur þykir það miður

Starfsfólk leikskólanna er í óbærilegum aðstæðum. Dag hvern er það að reyna að redda málum en mannekla er slík að skipuleggja þarf skerðingar þjónustu frá degi til dags. Þrátt fyrir ákall foreldra og leikskólastarfsfólks heyrist lítið frá meirihluta borgarstjórnar. Fjöldi foreldra fær reglulega bréf frá leikskólastjórum þar sem þeir lýsa ástandinu. Hér er brot úr einu slíku:

„Kæru foreldrar okkur þykir það miður en við þurfum að bregðast við og loka deildum eins og við gerðum í síðustu viku. Vonandi fer þessu að linna, við erum að reyna að gera okkar allra besta til þess að auglýsa eftir fólki og skipta fólki sem er hér við störf á milli deilda.“

Og niðurlag bréfsins er svona:

„Ég Þakka ykkur kæru foreldrar fyrir þolinmæðina. Við vitum að þetta er mjög erfitt fyrir ykkur. Því er ekki annað að gera í stöðunni en að leggja fram áætlun í hið minnsta næstu viku en hugsanlega verðum við að halda þessu eitthvað áfram. Við ætlum að halda áfram þessu plani og loka deildunum á sömu dögum og í síðustu viku en það kemur sér best fyrir okkur og við getum þá betur sinnt þörfum barnanna“

Hversu lengi á starfsfólk að halda sjó í þessu ástandi og hvernig eiga foreldrar að geta sinnt vinnu og námi? Þetta er afleitt  og ekki sést að mikið,  ef nokkuð, sé gert í málunum. Meirihlutinn hefur gefist upp en hann er samt sá eini sem getur gert eitthvað enda sá sem heldur utan um pyngju borgarsjóðs.

Það er ekki hægt að sinna öllum málum þegar fjármál borgarinnar eru á heljarþröm en það er hægt að forgangsraða í þágu daglegra þarfa borgarbúa. Flokkur fólksins hefur ítrekað kallað eftir uppstokkun í borgarkerfinu og að þjónusta við fólk verði sett í forgang.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur