Ráð á ráð ofan

Byggðasamlög eru fjarlæg almennum borgurum. Þau eru stofnun sem setur sér eigin starfsreglur og eigin stefnu. Þar fer ekki saman fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka. Í núverandi kerfi munu byggðasamlögum fjölga frekar en fækka. Ef þörf er á fjölda byggðasamlaga er ástæða til að huga að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem þau mynda.

Reykjavík getur ekki í byggðasamlögum tekið ákvarðanir um mikilvæg atriði án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga og það þótt Reykjavík beri langmestu fjárhagslegu ábyrgðina. Nýverið barst Reykjavíkurborg þungur bakreikningur vegna mistaka í fjárhagsáætlanagerð byggðasamlagsins Sorpu. Ef fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga á að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð.

Við stjórnsýsluúttekt árið 2011 á byggðasamlögum borgarinnar, Strætó, Sorpu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, kom í ljós tengslaleysi milli eigenda byggðasamlaganna og stjórna þeirra. Stjórnir félaganna fóru stundum út fyrir verksvið sitt og tóku veigamiklar ákvarðanir sem féllu ekki að væntingum eigendanna. Reykjavíkurborg hefur jafnvel gert málamiðlanir á kostnað eigin hagsmuna.

Stjórn Sorpu er skipuð einum stjórnarmanni frá hverju sveitarfélagi höfuðborgarsvæðisins. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis eða a.m.k. þriggja sveitarfélaga þarf fyrir ákvörðunum um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og meiri háttar skuldbindingar. Reykjavík getur því ekki í krafti atkvæða sinna tekið ákvarðanir um framangreinda hluti. Hjá Strætó þarf atkvæði þriggja aðildarsveitarfélaga til að taka ákvarðanir um meiriháttar fjárfestingar, stofnun dótturfélaga, breytingar á gjaldskrá eða breytingar á þjónustustigi og upptöku nýs leiðakerfis, að hluta eða í heild.

Nú stendur til að nýtt byggðasamlag verði stofnað í kringum Borgarlínu og því er eðlilegt að borgarbúar spyrji sig hvort Reykjavík muni þar einnig bera skarðan hlut frá borði. Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu Reykvíkinga að þeim. Hún var ekki samþykkt.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Birt á visi.is 20. september 2019