Ræða við frumvarp um sorgarleyfi

Á dag­skrá þing­fund­ar í dag er mik­il­vægt frum­varp sem snýr að breyt­ing­um á lög­um um sorg­ar­leyfi. Fé­lags- og hús­næðismálaráðherra hef­ur lagt fram frum­varpið í þeim til­gangi að bæta aðstæður fjöl­skyldna sem lenda í þeim erfiðu aðstæðum að missa ást­vin. Við gerð frum­varps­ins var m.a. byggt á til­lög­um frá Gleym mér ei – styrkt­ar­fé­lagi og Sorg­armiðstöðinni.

Mark­mið frum­varps­ins er að veita fjöl­skyld­um sem glíma við missi ást­vin­ar nauðsyn­leg­an stuðning og svig­rúm til að vinna úr sorg­inni.

Sam­kvæmt frum­varp­inu á for­eldri sem miss­ir maka sinn rétt á allt að sex mánaða sorg­ar­leyfi eða sorg­ar­styrk, en hingað til hef­ur það aðeins átt við um missi barns, and­vana­fæðingu eða fóst­ur­lát.

Þessi breyt­ing er tal­in sér­stak­lega mik­il­væg þar sem hún viður­kenn­ir að miss­ir maka get­ur haft veru­leg áhrif á fjöl­skyldu­líf og getu for­eldr­is til að sinna börn­um sín­um og vinnu.

Sorg og sorgarferli

Sorg er ekki eitthvað sem hægt er að reka á eftir, drífa af. Fólk fer í gegnum þetta ferli á eigin forsendum. Fyrstu daga og vikur eftir missir er algengt að sorgin taki alfarið yfir, svo mikið að sá eða sú sem syrgir er ófær um að taka ákvarðanir og gera áætlanir.  Í sorgarferli getur verið ótrúlega erfitt að gera einföldustu hluti.

Tíminn er sagður lækna öll sár, hann gerir það ekki en sannarlega mildar tíminn sársaukann. Þess vegna skiptir svo miklu máli að fyrst eftir missi að fólk sem syrgir fái næði og tíma til að vera í sorginni á sínum forsendum.

Samfélagið þarf að standa að baki ein­stak­ling­um sem glíma við sorg og missi. Það er sýnt með því að leggja fram þetta frumvarp. Nú erum við, samfélagið eins og vinurinn góði sem sýnir skilning, þolinmæði og vitum að það er engin ein rétt leið við að syrgja. Það getur tekið fólk mislangan tíma og hver gerir það á sinn hátt. Samfélaginu stendur ekki á sama um þegna samfélagsins þegar á reynir

Makamissir

Með því að veita for­eldri sem miss­ir maka rétt til töku sorg­ar­leyf­is er verið að gefa því tæki­færi til að vinna úr sorg­inni og aðlag­ast breytt­um aðstæðum.

Þessi rétt­ur er ekki síður mik­il­væg­ur fyr­ir barn sem miss­ir for­eldri sitt. Barnið geng­ur í gegn­um sorg og þarf tíma til að vinna úr þeirri sorg, þá er sam­vera með for­eldri mjög mik­il­væg á þess­um erfiðu tím­um.

Auk þess að setja í lög ákvæði um sorg­ar­leyfi vegna makam­issis eru einnig í frum­varp­inu til­lög­ur um leng­ingu sorg­ar­leyf­is vegna fóst­ur­láts og and­vana­fæðing­ar.

Þess­ar breyt­ing­ar snerta aðallega for­eldra og börn þeirra og ættu að stuðla að meira jafn­rétti á vinnu­markaði óháð efna­hag og kyni. Það er mik­il­vægt að vinnu­markaður­inn sé sveigj­an­leg­ur og taki til­lit til fjöl­skylduaðstæðna, sér­stak­lega þegar fjöl­skyld­ur ganga í gegn­um erfiða tíma eins og missi ást­vin­ar. Sumir vinnustaðir eru einstakir hvað þetta varðar en aðrir sýna minni skilning.

Þetta frum­varp er afar mik­il­vægt skref til. Með þessu frumvarpi er samkennd og manneskjulegheit í fyrirrúmi. Allir geta lent í þessum sporum, andlát gera oft ekki nein boð á undna sér.