Komið er að kosningum. Flokkur fólksins hefur vandað sig, gætt þess að heyja heiðarlega og jákvæða kosningabaráttu og hefur það gengið vel. Nú er komið að ykkur kæru landsmenn að velja þann flokk sem þið treystið best til að taka utan um ykkar mál og fylgja þeim eftir.
Flokkur fólksins er einstakur flokkur fyrir margar sakir, segi ég, sem skipa 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi suður. Ég er vissulega ekki hlutlaus en er þó þannig gerð að ég þoli ekki þegar ekkert er meint með orðunum. Við í Flokki fólksins meinum það sem við segjum og segjum það sem við meinum. Þetta bera verk okkar vott um bæði á Alþingi og í borgarstjórn.
Stefnumál okkar ættu að vera flestum skýr sem fylgst hafa með stjórnmálum að einhverju marki. Við erum flokkurinn sem setur fólk, þarfir þess og þjónustu við fólk í forgang.
Erum hokin af reynslu
Frambjóðendur Flokks fólksins eru hoknir af reynslu á mörgum sviðum. Það gerir okkur sterk, opin og sveigjanleg. Við eigum það sameiginlegt að eiga auðvelt með að hlusta, meðtaka, framkvæma og fylgja eftir. Hafandi verið í stjórnarandstöðu höfum við engu að síður haft áhrif á þróun mála til jákvæðari vegar. Það er vegna þess að við gefumst aldrei upp. Við erum þrautseig, þaulsetin, þrjósk á jákvæðan hátt og fylgin okkur. Við þolum ekki óréttlæti og líðum ekki að sparkað sé í okkar verst settu bræður og systur sem eru að kikna undan álagi, líða fátækt og eiga hvergi skjól sem það getur kallað heimili sitt. Flokkur fólksins vill endurvekja drauminn um öruggt heimili fyrir alla til að geta lifað öruggu lífi. Heimilið er aðalgrunnstoðin og án heimilis þrífst enginn sama á hvaða aldri einstaklingurinn er.
Sú staðreynd að margt fólk á hvorki í sig né á og þeir erfiðleikar sem það hefur í för með sér er svartur blettur á annars ríku og góðu samfélagi. Fáum við tækifæri til að komast til alvöru áhrifa munum við beita okkur af krafti við að uppræta fátækt. Við látum til skara skríða til að stöðva og sporna við slæmri stöðu margra eldri borgara, öryrkja og láglaunafólks.
Erum ekki hægfara blaðurflokkur
Flokkur fólksins var stofnaður til að taka utan um börn og barnafjölskyldur. Flokkurinn hefur aldrei vikið frá þessu markmiði sínu. Enginn flokkur hefur beitt sér af meiri krafti í þágu barna og ungs fólks en Flokkur fólksins. Flokkur fólksins er ekki blaðurflokkur, sem fer um á hraða snigils heldur vinnur hratt, af skilvirkni, talar tæpitungulaust og hlustar á raddir fólksins en umfram allt framkvæmir. Við erum þorin, hugrökk og tilbúin að taka áhættu ef það er í þágu fólksins. Í okkur er óbilandi þrek og við látum einskis ófreistað til að hrekja á brott vágesti eins og fátækt, ójöfnuð og óréttlæti. Við munum ekki linna látum fyrr en farið er að gera nauðsynlegar breytingar fyrir börn til að tryggja að öll börn fái tækifæri til að láta drauma sína rætast. Ekkert barn skal skilið útundan og öll börn eiga rétt á að stunda nám og tómstundir meðal jafningja. Við getum ekki liðið að því allra dýrmætasta sem við eigum, börnin, líði illa. Málefni barna og fjölskyldna þeirra skulu í forgang á vakt Flokks fólksins.
Kæru landsmenn
Við eigum þá ósk heitasta að fá að þjóna ykkur öllum, vera staðsett þar sem við getum unnið fyrir marga í einu og barist fyrir fjöldann í þeim málum sem þarfnast verulegrar tiltektar í.
Í okkur brennur bál óréttlætis og sorgar þegar við hugsum um og erum vitni að hvernig farið hefur verið með fólk sem búið hefur við skerta örorku, er haldið fast á lúsarlaunum, svo ekki sé minnst á þá tugi eldri borgara sem bíða nú ýmist eftir hjúkrunar- og dvalarheimili eða þjónustu til að geta verið sem lengst heima hjá sér.
Við í Flokki fólksins höfum lagt okkur í líma við að kynna okkar baráttumál í þessari stuttu og snörpu kosningarbaráttu. Við hvetjum ykkur til að skoða stefnuskrána, skoða verkin okkar til þess að þið getið tekið upplýsta, persónulega ákvörðun um hverjum þið treystið til að vinna fyrir ykkur af heiðarleika, einlægni, kappi og elju.
Setjum X-ið við bókstafinn F.
Fólkið fyrst – og svo allt hitt.