Skjótt skipast veður í lofti í húsnæðismálum eldri fólks

Það var í desember 2021 sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn um skipulagða byggð fyrir eldra fólk sem koma mætti fyrir víðs vegar í Reykjavík. Segja má að sjaldan hafi meirihlutinn gert eins mikið grín að nokkurri tillögu frá minnihlutanum, „að nú vildi Flokkur fólksins fara að búa til gettó fyrir eldra fólk“. Fleira í þessum dúr var varpað fram í sal borgarstjórnar frá meirihlutafulltrúum. En það var aldeilis ekki hugsun borgarfulltrúa Flokks fólksins. Eftir samráð og samtal við fjölmarga eldri borgara og hagsmunasamtök var tillaga Flokks fólksins á þann veg að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og að íbúasvæðið væri hannað með tilliti til þeirra þarfa.

Meirihlutinn felldi tillöguna en aðrir minnihlutaflokkar utan Flokks fólksins sátu hjá. Rök meirihlutans voru þau að þetta væri ekki það sem þessi hópur þarf né vill. Nú hefur annað komið á daginn. Og fljótt skipast veður í lofti því meirihlutinn leggur nú sjálfur til sambærilega tillögu sem kallast Lífsgæðakjarnar, uppbygging svæðis í þágu eldra fólks og hefur hugmyndafræði og fyrirmyndir af slíku fyrirkomulagi þegar verið kynnt.

Við lifum nú lengur

Fjölgun eldri íbúa er eitt af þeim verkefnum sem Reykjavíkurborg þarf að takast á við. Hugmyndir nútímans ganga út á að eldra fólk geti búið sem lengst í eigin húsnæði og það er hlutverk okkar í Reykjavíkurborg að aðstoða og skipuleggja slíka byggð og hentugt nærumhverfi fyrir þennan aldurshóp.

Töluverður hluti húsnæðis í Reykjavíkurborg hentar ekki eldra fólki. Stoð- og stuðningsþjónusta sem og afþreying er einfaldlega ekki til staðar í mörgum hverfum. Horfa þarf til útivistar, áhugamála, félagslegrar þjónustu, heilsugæslu og fleira. Á svæði sem þessu er í raun ekki þörf fyrir uppbyggingu leik- og grunnskóla eða aðra þjónustu sem hugsuð er fyrir börn og barnafjölskyldur. Einblína ætti frekar á úti- og innisvæði þar sem hægt yrði að koma fyrir verkefnastofu, sameiginlegu svæði, aðstöðu fyrir starfsfólk heimaaðstoðar af öllu tagi o.s.frv. Svæðið verður að höfða til eldra fólks og vera hvetjandi til útivistar og tómstunda. Aðkoma félags eldri borgara yrði hér afar mikilvæg. Hugsa mætti sér ólík íbúðaform, t.d.minni sérbýli sérhönnuð fyrir þarfir eldri borgara með miðlægum þjónustukjarna. Gönguleiðir og strætisvagnaleiðir yrðu vel hugsaðar með upphituðum skýlum. Gæta yrði að öryggismálum í hvívetna.

Sjálfstæði sem lengst

Tillaga Flokks fólksins gekk út á að farið yrði í samkeppni um sérstaka uppbyggingu svæða víðs vegar um borgina eftir atvikum sem yrði sérsniðin fyrir eldra fólk. Markmiðið er að gefa sem flestum tækifæri til að vera sem lengst í sjálfstæðri búsetu og halda sjálfstæði sínu við eins góðar og öruggar aðstæður og hugsast getur. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að aðstoða og skipuleggja slíka byggð. Borgarskipulag á að taka tilliti til allra hópa.

Birt í Morgunblaðinu 3. október 2023