Stafræn endaleysa á kostnað Reykvíkinga

Núverandi borgarstjórnarmeirihluti unir sér vel í bergmálshelli og á þar innihaldsríkt samtal við sjálfan sig. Allir virðast sammála og í slíku hóplyndi er auðvitað engin þörf á jarðsambandi við borgarbúa varðandi meðferð á fjármunum þeirra.

Leikur með fjármuni almennings

Til dæmis er óásættanlegt að horfa upp á hvernig þjónustu- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar (ÞON) hefur farið með peninga borgarbúa í þeim stafrænu verkefnum sem borgin vill koma á laggirnar. Mörg þessara stafrænu lausna sem flestar eru enn í vinnslu eru auk þess ekki bráðnauðsynlegar og hefðu getað beðið betri tíma. Dæmi um slík verkefni eru Rauntímatölur sundlaugagesta og Ferlateikningakerfi.

Þessi stafræna umbreytingarvinna hefur staðið yfir í mörg ár en er illa skilgreind og ómarkviss. Ævintýralega háar upphæðir hafa farið í verkefnið án þess að unnt sé að réttlæta eyðslu þeirra sem ávinning. Tugir eða hundruð milljóna eru flognir út um gluggann, m.a. í óskilgreinda ráðgjöf frá erlendum og innlendum fyrirtækjum. Og enn stefnir í gríðarlega eyðslu. Á árinu 2022 eru útgjöld ÞON ætluð 4.5 ma.kr. en tekjur 1.5 ma.kr.

Stafræn umbreyting er nauðsynleg en það gildir ekki einu hvaða leiðir eru farnar. ÞON virðist hafa leiðst út í stefnulausa þenslu. Ráðnir hafa verið sérfræðingar í óskilgreinda tilraunastarfsemi í stað þess að nýta þær lausnir sem fyrir hendi eru. Til dæmis hefði verið eðlilegt að leita strax í upphafi til Stafræna Íslands eftir samvinnu. Flestar þessar stafrænu snjalllausnir eru þegar komnar í virkni annars staðar og því óþarfi að finna hjólið upp á nýtt!

Vafasamar sérleiðir

Ýmsu háfleygu er fleygt fram svo sem að „verkefnið leiði borgina inn í stafræna framtíð og sé af þeirri stærðargráðu sem eigi sér fáar hliðstæður hér á landi.“ En raunveruleikinn beinir sjónum okkar annað. Fleiri en ég hafa stigið fram og gert athugasemdir við aðferðarfræði ÞON, þ.á.m. Samtök iðnaðarins og Stafræna Ísland sem býður upp á samvinnu og samstarf um fjölmargar rafrænar lausnir eins og Mínar síður sem og boð um að Reykjavíkurborg komi inn í tilboð vegna hugbúnaðarleyfa Microsoft á vegum Ríkiskaupa.

Á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í október kom fram að við undirbúning stafrænnar umbreytingar væri eðlilegt vinnulag að kostnaðarmeta verkefnin og leggja mat á ávinninginn við hvert þeirra. Síðan væri þeim forgangsraðað til að tryggja að skattpeningar almennings nýttust sem best.

Í þessu sambandi hef ég lagt fram fyrirspurn hvort mat á fjárhagslegum ávinningi hvers og eins verkefnis liggi fyrir hjá Reykjavíkurborg og hvort verkefnum hafi verið forgangsraðað í framhaldi af því.

Í lok september var haldinn fundur á vegum sambandsins. Meðal þess sem fram kom var að sveitarfélög vinna undir sama lagagrunni, víða eru notuð áþekk forrit og stöðlun á söfnun upplýsinga og miðlun þeirra er lykilatriði. Einnig kom fram að allar breytingar snúast um fólk en ekki tækni; Að sveitarfélög geta sameinast um sérfræðiþekkingu eða keypt utan frá hvar sem hún er staðsett; Að sveitarfélögin geta komið sér saman um grunnkerfin sem þau nota. Einnig koma fram að stóru kerfin, sem sveitarfélögin vinna með, s.s. skjalavistun, leyfismál og rafræn skil kosta mikið ef hvert og eitt sveitarfélög fer í slíkt verkefni á eigin spýtur. Samstaða í samningum og hagkvæmni stærðarinnar skiptir því miklu og hér er að sjálfsögðu unnt að deila kostnaði!

Að lokum vil ég vekja athygli á því að 10 milljarða kostnaður við stafræna umbreytingu á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar er eignfærður í stað þess að færast beint á rekstrarreikning. Margt af hinni stafrænu umbreytingu snýst ósköp einfaldlega um að innleiða ný vinnubrögð. Benda má á að almennt er farið mjög varlega í að eignfæra tölvubúnað vegna þess hve hratt þarf að endurnýja búnaðinn. Hann er víðast hvar metinn sem rekstrarkostnaður og færður til gjalda á viðkomandi ári. Ég hef því óskað eftir því að Reikningsskila- og upplýsinganefnd Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins skoði þetta mál.

Þriðjudaginn 16. nóvember legg ég fram fram tillögu um að borgarstjórn samþykki að gera breytingar á skipuriti og innra skipulagi þjónustu og nýsköpunarsviðs Reykjavíkur. Tillöguna ásamt greinargerð má sjá á www.kolbrunbaldurs .is