Eftir síðustu kosningar var nýtt ráð stofnað í borginni sem fékk heitið „stafrænt ráð“. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fékk ekki upplýsingar um stofnun stafræna ráðsins fyrr en eftir að búið var að skipa í önnur ráð og nefndir og missti þar að leiðandi tækifærið að reyna að fá sæti í ráðinu.
Þeir sem hafa fylgst með borgarmálunum vita að Flokkur fólksins hefur harðlega gagnrýnt fjáraustur á annan tug milljarða í stafræna vegferð án þess að fullkláraðar lausnir / afurðir hafi orðið til í hlutfalli við það mikla fjármagn.
Sóun og bruðl þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem ber ábyrgð á stafrænni vegferð borgarinnar, var með eindæmum á síðasta kjörtímabili. Tugum milljóna var eytt í tilraunir, þróun og uppgötvanir á jafnvel lausnum sem margar hverjar voru þá þegar til og komnar í virkni hjá Stafrænu Íslandi, öðrum sveitafélögum sem og fyrirtækjum á einkamarkaði.
Hvert er hlutverk stafræna ráðsins?
Auk þess að ráðinu sé ætlað að móta stefnu í gegnsæis-, lýðræðis-, stafrænum- og þjónustumálum, ásamt innri og samfélagslegri nýsköpun, á ráðið að einnig að bera ábyrgð á eftirliti með rekstri þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Rekstrarhluti sviðsins hlýtur að vera eitthvað sem sérhæfðir eftirlitsaðilar innan borgarinnar ættu frekar að sinna.
Þrátt fyrir háfleygar lýsingar á hlutverki stafræns ráðs, sá formaður ráðsins sem kemur úr röðum Pírata engu að síður þann kost vænstan að setja á laggirnar sérstakan þverpólitískan rýnihóp sem á að hafa það hlutverk að koma með tillögur um stafræna stefnu Reykjavíkurborgar, verkefni sem kannski hefði einmitt átt að vera hlutverk stafræna ráðsins sjálfs?
Kallað var eftir að flokkarnir skipuðu í rýnihópinn og áttu þeir sem urðu fyrir valinu að hafa yfirburða þekkingu á þáttum sem snúa að stafrænni umbreytingu. Þeir áttu að hafa þekkingu á gervigreind, gagnastrúktúr, netöryggi, skýjaþjónustu, vefmálum, rafrænni skjalavörslu, persónuverndarmálum, upplýsingatækni, hugbúnaðargerð, notendamiðaðri hönnun, lausnamiðuðum innkaupum, upplýsingaöryggi, tæknilæsi, stafrænum réttindum, gagnaöryggi – og siðferði, svo fátt eitthvað sé nefnt af löngum lista „þekkingar krafna“ væntanlegs rýnihóps ráðsins.
Fljótlega var þó vikið frá þessum kröfum og flokkunum boðið að senda hvern þann sem þeir vildu í rýnihópinn enda annað með öllu óraunhæft. Það gæti verið erfitt að kalla til fulltrúa með annan eins þekkingargrunn og reynslu úr jafn víðtækum málaflokkum svo ekki sé minnst á hvað það hefði kostað flokkanna.
Ef stafrænt ráð telur að sú kostulega upptalning þekkingar og reynslu hér að ofan, þurfi til þess að hægt sé að setja niður á blað í nokkrum setningum stafræna stefnu Reykjavíkurborgar, væri fróðlegt að sjá hvaða þekkingarkröfur stafræna ráðið geri til þeirra fulltrúa sem í því sitja hverju sinni?
Einnig má spyrja hvert hlutverk sviðsstjóra þjónustu- og nýsköpunarsviðs sé orðið þegar stafrænt ráð á að bera ábyrgð á öllu því sem sviðið er að gera ásamt því að sinna eftirliti með rekstri þess?
Stafrænt ráð er með öllu óþarft
Með ofangreindum rökum lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu á fundi borgarstjórnar 18. apríl að leggja skuli niður stafrænt ráð og þau verkefni ráðsins sem hafa ekki beint með stafræn mál að gera, verði flutt í viðeigandi ráð og nefndir.
Meðferð og ábyrgð allra stafrænna mála Reykjavíkurborgar verði því alfarið á ábyrgð þjónustu- og nýsköpunarsviðs. Mikilvægt er að hafa virkt eftirlit með sviðinu til að tryggja að ekki sé verið að bruðla með fjármuni í t.d. uppgötvanir og þróun á lausnum sem þegar eru til og í notkun annarstaðar.
Sviðsstjóri ásamt öðrum stjórnendum þjónustu og nýsköpunarsviðs eiga að hafa þá sérfræðiþekkingu sem til þarf að sinna meðferð stafrænna mála – sérstaklega þegar litið er til þess hversu miklum fjármunum stjórnendur sviðsins eru nú þegar búnir að eyða í kaup á erlendri ráðgjöf í heilan áratug.
Birt í Morgunblaðinu 22.4. 2023
Höfundar: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Einar Sveinbjörn Guðmundsson