Stórfelld skógrækt frá höfuðborginni að Hengli

Flokkur fólksins lætur sig loftlagsmálin varða og hefur beitt sér í þeim málaflokki bæði á þingi og í borg.

Ég hef notið þeirra forréttinda að fá að lifa og þrífast á skógræktarsvæði í rúmlega tuttugu ár. Þar var eitt sinn ekki stingandi strá og margir sérfróðir hvöttu til að eyða ekki púðri í ræktun á svæðinu. Það reyndist nú öðru nær og þar vaxa nú þúsundir trjáa og á um 7 hektara svæði. Það er lítið mál að rækta skóga og hér á landi eru þegar til trjátegundir sem munu lifa og dafna í nágrenni borgarinnar.

Reykjavík getur hugað að kolefnisbindingu með skógrækt og víkkað sitt sjónarhorn í því sambandi. Til að hjálpa til við það lagði ég fram í borgarstjórn 15. febrúar tillögu Flokks fólksins að hefja skógrækt frá Reykjavík að Hengli til kolefnisjöfnunar. Hugsunin er að hefja skógrækt á svæðinu frá Græna treflinum (skógræktaráætlun höfuðborgarsvæðisins) að Hengli.

Gæti orðið kolefnisjöfnun

Reykjavík er með loftlagsstefnu og þessi tillaga fellur að þeim markmiðum.
Tré draga kolefni úr lofti og binda það í trjáviði. Þar að auki binst kolefni í jarðvegi þegar skógur myndast. Hægt verður að fá það vottað að þessi aðgerð sé kolefnisjafnandi. Mjög líklega yrði með tímanum bundið mun meira kolefni en t.d. á að gera með Carbfix aðferðinni.

Svæðið sem hér um ræðir er talið vera rýrt og því er líklegt að auka þurfi framboð á plöntunæringarefnum. Verkefnið nær ekki aðeins yfir það land sem tilheyrir Reykjavík heldur einnig yfir land nágrannasveitarfélaganna svo og Ölfus. En það ætti ekki að vera vandamál þar sem meirihlutinn í Reykjavík hefur þegar greiðan aðgang að nágrönnum í gegnum samráðsferla í Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á landsvísu. Um þetta þarf ekki að stofna byggðasamlag heldur aðeins ná samkomulagi um stefnu og aðgerðir. Hér yrði um ódýra stórframkvæmd að ræða með miklum ávinningi.

Til að auka framboð plöntunæringarefna mætti dreifa moltu frá SORPU samhliða útplöntun. Sú molta er ekki söluvara en mætti nota við þessar aðstæður. Meirihlutinn hefur einnig greiðan aðgang að stjórn SORPU og gæti talað fyrir málinu þar.

Allt þetta svæði er að mestu tiltækt fyrir skógrækt. Um 12 þúsund hektarar af þessu svæði eru að vísu beitarhólf tómstundabænda höfuðborgarsvæðisins. Það beitarhólf má færa til með nýjum girðingum. og verður að lokum þar sem kindur borgarbúa bíta í „lundum nýrra skóga“.

Nokkrar flugur slegnar í einu höggi

Með þessu yrðu nokkrar flugur slegnar í einu höggi. Kolefni yrði bundið, stórskógur yrði til og Reykjavík myndi jafna kolefnisútblástur sinn.
Fram hefur komið að svifryk frá Suðurlandi veldur svifryksmengun í Reykjavík. Stórskógur austur af Reykjavík myndi draga úr því.
Þetta er ódýr leið til að kolefnisjafna. Tré gera það sem nú er reynt að gera með tæknilausnum þ.e. að draga kolefni (koltvísýring) úr andrúmsloftinu og binda það í fast efni.

Munurinn á að nýta tré til að binda kolefni eða að nota tæknilausnir tengist bæði kostnaði og náttúrulegum ferlum. Tæknilausnir eru kostnaðarsamar en ef tré er plantað mun það binda kolefni öldum saman án viðbótarkostnaðar.
Mörg slík skógræktarverkefni hafa verið sett af stað víða um heim. Ekki er annað að heyra en að þau séu talin hafa mikið gildi fyrir kolefnisbindingu.
Reykjavík getur með aðgerð þessari lagt myndarlega af mörkum til loftslagsaðgerða.