Þegar börn níðast á barni

Við urðum flest máttlaus af sorg og skelfingu þegar myndskeið af líkamlegu ofbeldi og einelti í garð 12 ára stúlku fór í dreifingu fyrir skemmstu.Töluvert hefur verið fjallað um einelti frá því málið kom upp og hvernig bregðast eigi við málum af þessu tagi. Það er vont ef eineltismál þurfa að komast í fjölmiðla til að vera tekin nógu alvarlega til að gengið verði í að leysa það af fullum þunga.
Í starfi mínu sem sálfræðingur hef ég komið að mörgum eineltismálum. Með hverju máli lærði ég eitthvað nýtt enda engin tvö mál eins.
Eineltismál hafa orðið snúnari með tilkomu netsins. Ýmist verða börn fyrir einelti á samfélagsmiðlum og þar eru þau jafnvel hvött til að „leggja í einelti“. Myndefni um einelti rata ítrekað inn á samfélagsmiðlana og breiðast þar út eins og eldur í sinu.

Lykilaðilar

Algengast er að börn séu lögð í einelti í skólanum eða þar sem þau koma saman til að stunda áhugamál sín. En þá kemur upp sú spurning, hvar skólar og íþróttafélög eru stödd með eineltisstefnu, viðbragðsáætlun/verkferla og hvort upplýsingar séu aðgengilegar á heimasíðu?

Skólar og íþrótta- og tómstundafélög sem leggja áherslu á forvarnir og hafa vel útfærða verkáætlun, auk eineltisteymis ná iðulega árangri við lausn eineltismála. Skólar sem eru vanbúnir skorta oft heildarsýn, samfellu og hreinlega úthald í vinnslu eineltismála. Mikilvægt er að fylgja málum eftir til þess að tryggja að eineltinu ljúki endanlega.

Tillaga um mælaborð

Í borgarstjórn 15. nóvember n.k. mun borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram tillögu um að borgarstjórn samþykki að sett verði upp mælaborð þar sem hægt sé að sjá hvaða tól og tæki skólar og félög Reykjavíkurborgar hafa tiltæk þegar upp koma eineltismál. Í sérhverri verkfærakistu skóla og félaga þurfa að vera til eftirfarandi gögn og þau aðgengileg á heimasíðu:

– Stefna í eineltis- og ofbeldismálum
– Viðbragðsáætlun þar sem raktir eru verkferlar ef tilkynning berst um einelti

– Tilkynningareyðublað
– Upplýsingar um hverjir sitja í eineltisteyminu

Gagnsemi mælaborðsins er a.m.k. tvíþætt:

Foreldrar geta kynnt sér viðbragðsferilinn áður en barn byrjar í skólanum eða í íþróttafélagi. Þau fá jafnframt upplýsingar um hvert þau eiga að leita ef barn segir frá einelti. Mælaborðið er jafnframt hvatning til skóla- og félaga að vera undirbúin fyrir að slík mál komi upp.

Í sporum foreldra

Það er sársaukafullt þegar barn manns er lagt í einelti. Foreldrar finna til vanmáttar, reiði og sorgar. Flækjustigið verður enn meira þegar gerendur eru margir og ekki eingöngu úr nærumhverfinu (skóla eða íþróttafélagi) heldur einnig krakkar úr öðrum hverfum.

Það er ekki síður áfall fyrir foreldra að fá upplýsingar um að barnið þeirra leggi önnur börn í einelti. Þá hefst glíma við alls konar tilfinningar. Foreldrar vilja vernda barnið fyrir ásökunum en jafnframt vita þau að horfast verði í augu við vandann reynist ásakanir réttar. Einstaka foreldrar bregðast illa við og festast í varnarstöðu. Flestir foreldrar vilja að gengið sé strax í málið og eru tilbúnir að taka fullan þátt í úrvinnslunni. Börn sýna oft ólíka framkomu og hegðun í skólanum en heima. Foreldrar eru færastir í að grafast fyrir um orsakir þess að barnið finni hjá sér hvata til að meiða önnur börn. Án þátttöku foreldra í úrvinnslunni er ekki hægt að bæta aðstæður barnsins.

Þolendur og gerendur

Barn sem er gerandi eineltis og sýnir viðvarandi ofbeldishegðun gagnvart öðrum þarf aðstoð með sína vanlíðan til að hægt sé að lágmarka hvöt þess til að leggja í einelti. Vanlíðan og vandamál má stundum rekja til skólatengdra þátta eða annarra orsaka. Hafa skal í huga að börn geta einn daginn verið í hlutverki geranda og þann næsta í hlutverki þolanda.

Skaðsemi eineltis getur lifað með þolandanum ævilangt. Ekki er hægt að vita með vissu hversu mörg börn hafa svipt sig lífi vegna óbærilegs lífs sem einkennst hefur af einelti og ofbeldi. Það er í mörgum tilfellum ævilangt verkefni að vinna úr einelti og sumir þolendur ná sér einfaldlega aldrei.

Samvinnuverkefni okkar allra

Ekkert foreldri á að þurfa að standa í þeim sporum að geta ekki verndað barnið sitt. Sem samfélag eigum við að gera kröfu um að allir staðir þar sem börn koma saman hafi tiltæk verkfæri til að grípa málið strax og vinna úr því. Reglubundnar forvarnir fremur en átaksbundnar, lágmarka að mál af þessu tagi komi upp.

Grundvallaratriði er að trúa ávallt barni sem segir frá ofbeldi. Ef ábyrgur aðili segir foreldri að barn þess sé að leggja annað barn í einelti verður líka að trúa því. Þegar staðreyndir málsins liggja fyrir er hægt að gera áætlun um úrlausn. Öll börn eiga rétt á því að líða vel.

Birt í Morgunblaðinu á Degi gegn einelti 8. nóvember 2022