Þekkir þú svona yfirmann?

Ekki er öllum gefið að vera góður stjórnandi eða yfirmaður. Því miður eru dæmi um það að fólk sem skortir flest það sem telst prýða góðan stjórnanda rati í yfirmannsstöður. Dæmi eru um vanhæfan og slakan stjórnanda á vinnustað þar sem hámenntað fólk af báðum kynjum starfar sem og á vinnustað þar sem lítillar menntunar er krafist.

Hvernig getur það gerst að „vanhæfur stjórnandi“ fær yfirmannsstöðu?

Auðvitað getur verið um að ræða eiganda fyrirtækis sem er þá jafnframt yfirmaður og stjórnandi. Ef það er ekki tilfellið má spyrja hvort þeir sem eru „valdafíknir“ leiti ekki einmitt markvisst eftir að vera ráðnir í yfirmannsstöður þar sem þeir geta beitt og misbeitt valdi?

Valdafíkn og yfirráðaþörf eru sjaldnast afmarkaðir eða einangraðir eiginleikar einstaklings sem yfir þeim búa. Ef athyglinni er beint að yfirmanni sem er valdafíkinn þá er ekki ósennilegt að hann búi einnig yfir öðrum neikvæðum skapgerðareinkennum.

Prófíllinn gæti litið svona út:

Lund hans og skap er óútreiknanlegt, sveiflukennt allt eftir því hvernig liggur á honum hverju sinni. Sé hann pirraður lætur hann það gjarnan bitna á umhverfi sínu þ.e. starfsfólkinu. Hann verður auðveldlega reiður og erfitt er að henda reiður á hvað getur mögulega valdið reiði hans. Það kitlar hann að finna að hann getur með lund sinni, líkamsmáli og samskiptaháttum valdið óöryggi á vinnustaðnum. Hann hefur gaman að því að leika með fólk, kannski leika sér að fólki og aðstæðum. Þegar manneskja sem hér er lýst er ráðin sem yfirmaður er ekki von á góðu.

Þó er ekki allt sem sýnist. Þeirri yfirmannstýpu sem hér er lýst gæti vel verið einstaklingur sem starfsfólkið sér sem sterkan, sjálfstæðan og sjálfsöruggan aðila. Það er þó frekar ósennilegt að honum líði þannig. Hvað sem einhverjum kann að finnast um styrkleika og öryggi þessa yfirmanns má vel ganga út frá því að neikvæð framkoma hans og eineltishegðun sé drifin áfram af vondri líðan: hræðslu, brotinni sjálfsmynd, minnimáttarkennd og óöryggi. Orsakir geta verið flóknar og geta átt rætur í samspili persónueinkenna, félagslegs bakgrunns og hvernig einstaklingurinn upplifir stöðu sína á staðnum. Oft kemur einmitt þessi tegund af yfirmanni vel fyrir, einkum út á við. Hann er e.t.v. vinamargur og kannski ágætur maki og foreldri? Tjái hann sig um vinnustaðinn/verkefnin utan fyrirtækis/stofnunar, birtist hann sennilega sem mjög hæfur og fær stjórnandi sem tekur frumkvæði, gerir áætlanir, skipuleggur og hrindir hlutum í framkvæmd.

Á vinnustað sem stjórnað er af vanhæfum yfirmanni getur hæglega þrifist einelti. Til eru dæmi um að yfirmaðurinn sé jafnvel sjálfur prímus mótor í því.

Þegar yfirmaður er gerandi eineltis

Á vinnustað sem stjórnað er af vanhæfum yfirmanni getur hæglega þrifist einelti. Til eru dæmi um að yfirmaðurinn sé jafnvel sjálfur prímus mótor í því. Hann tekur mögulega stöðu með geranda/gerendum eða kýs að snúa blindu auga að eineltisatferli sem viðgengst á staðnum. Valdafíkinn stjórnandi sem er auk þess uppfullur af minnimáttarkennd er líklegur til að níðast með einhverjum hætti á starfsmanni/starfsmönnum. Einstaklingur í valdastöðu sem líður illa með sjálfan sig er líklegur til að misbeita valdi og nota það með neikvæðum hætti. Hann veifar valdasprotanum og undirstrikar með honum hver það er sem hefur heill og hamingju starfsfólksins í hendi sér á vinnustaðnum. Einn af helstu fylgikvillum minnimáttarkenndar er afbrýðisemi og öfund. Þessi yfirmaður óttast að einhver skyggi á sig eða fái meiri athygli en hann sjálfur. Honum finnst sér jafnvel ógnað við hið minnsta og finnst hann því þurfi stöðugt að vera á vaktinni. Þegar óöryggið er sem mest geta jafnvel ranghugmyndir gert vart við sig. Hann kann jafnvel að óttast samsæri gegn sér.

Liður í að minna starfsfólkið á hver ræður er að vera gagnrýninn, dómharður og ávallt óútreiknanlegur. Að vera óútreiknanlegur er tækni sem er til þess fallin að grafa undan öryggistilfinningu starfsmanna. Skilaboðin eru að engin eigi að geta slakað á og engin skuli halda að hann geti verið öruggur með sig eða stöðu sína. Þessi yfirmaður fylgist vel með fólkinu á staðnum og notar til þess ýmsar leiðir, leyndar og ljósar. Sumum kann að finnast að þessi yfirmaður hreinlega bíði færis að geta tekið einhvern á teppið. Þegar starfsmaður er tekinn á teppið er það oft gert með hörku og óbilgirni. Sá sem einu sinni upplifir yfirmanninn í þessum aðstæðum vill fyrir alla muni ekki lenda í þeim aftur.

Svigrúm fyrir mistök eða annan sveigjanleika á vinnustað sem þessum er oft ekki mikið. Starfsmenn sem eru hæfir og heiðarlegir geta virkað ógnandi fyrir yfirmann sem þennan. Þess vegna eru þeir oft meira undir smásjánni en aðrir. Yfirmanni sem hér er lýst þolir illa ef einhver er honum áberandi fremri á staðnum eða fær mikið hrós frá öðrum utanaðkomandi. Yfirmaðurinn gæti látið sér það lynda að einhverjum starfsmanni sé hampað mikið ef sá er mjög sérhæfður í starfi sínu, t.d. sinnir verki sem er útilokað og ekki hægt að ætlast til að yfirmaðurinn geti haft djúpan skilning á. Finnist þessum yfirmanni sér vera ógnað af einhverjum ákveðnum starfsmanni gæti hann gripið til þess að lítillækka hann, gera hann ótrúverðugan eða nota vald sitt og áhrif til að koma honum illa með einhverjum hætti. Starfsmaðurinn er þá kannski fluttur til í starfi eða aðrar leiðir fundnar með það að markmiði að losna við hann.

Vanvirki og kjarklausi yfirmaðurinn

En sumir vanhæfir yfirmenn eru ekkert endilega valdasjúkir, reiðir eða hatursfullir einstaklingar sem láta sér standa á sama um starfsfólkið. Til eru dæmi um að yfirmaður hafi einfaldlega ekki þá færni, greind eða getu til að stýra stofnun/fyrirtæki þar á meðal að taka á samskiptamálum sem upp koma. Margar ástæður geta legið þar að baki. Sumum skortir kjark, réttsýni eða færni til að leggja mat á aðstæður og greina aukaatriði frá aðalatriðum. Sumir vilja ekki standa í því að ganga í mál og finnst starfsfólk vera með tómt vesen. Sé ástandið slæmt á staðnum gerir svona yfirmaður oft alls ekki neitt. Hann bara lætur sem ekkert sé. Til eru yfirmenn sem treysta sér t.d. ekki til að takast á við tilfinningaleg málefni. Þeir hreinlega kunna það ekki. Finni þeir sig í aðstæðum þar sem tilfinningar ráða ríkjum, fyllast þeir óöryggi, verða klaufalegir og vita ekki hvað á að segja eða gera. Þeim fallast stundum algerlega hendur ef einhver í návist þeirra sýnir tilfinningaleg viðbrögð, t.d. brestur í grát eða brotnar saman.

Yfirmaður sem er bæði lítill mannþekkjari og veikgeðja lætur oft undan þrýstingi. Sé á staðnum starfsmaður sem býr yfir óheilindum, hatri í garð annars (annarra) og illsku þá getur hann jafnvel náð að stjórna yfirmanni sem hér er lýst. Yfirmaðurinn verður þá eins konar leppur þessa starfsmanns og finnst stundum auðveldara að leyfa slíkum starfsmanni að segja sér hvað hann á að gera eða ekki gera frekar en að ákveða það sjálfur. Sé viðkomandi starfsmaður gerandi eineltis á vinnustaðnum þá lætur yfirmaðurinn sem hann sjái ekki hvað sé í gangi jafnvel þótt verið sé að níðast á öðrum starfsmanni beint fyrir framan augun á honum. Yfirmaðurinn neitar að hlusta á umkvartanir þolandans og hafnar jafnvel upplýsingum frá öðru starfsfólki. Sé hann tilneyddur til að skoða málið er oft gripið til þess að skilgreina vandann sem samskiptavanda. Með því að loka eyrunum er hann óbeint að styðja gerandann og veita honum leyfi til að halda áfram háttsemi sinni. Þannig verður yfirmaðurinn óbeinn þátttakandi í eineltinu. Einelti í sinni víðustu mynd þrífst vel undir stjórn yfirmanns sem er vanvirkur og veikgeðja.

Það er í raun afar íþyngjandi og hreinlega sorglegt þegar vanhæfur stjórnandi vermir yfirmannsstól stofnunar eða fyrirtækis árum saman. Jafnvel þótt stjórnandinn sjálfur hefur ekki gerst sekur um einelti er líklegt að á vinnustaðnum þrífist alls kyns óværa þar sem yfirmanninum skortir burði til að taka á málum með viðeigandi hætti. Nái neikvæð menning að festa sig i sessi (vondur mórall) verður vinnustaðurinn smám sama eitraður. Mannaskipti verða tíð því að þolendur staldra væntanlega stutt við. Nýir starfsmenn, bjartsýnir og ferskir, eru kannski ráðnir til starfa. Þegar þeir finna að staðurinn er sýktur hverfa þeir á braut. Sumir neyðast e.t.v. til að vera um kyrrt þar sem ekki er endilega hlaupið að því að fá aðra vinnu. Aðrir reyna að þrauka því að þeim hugnast ekki að láta vanhæfan stjórnanda og vondan móral hrekja sig á brott.

Yfirmaður, hversu vanhæfur og slæmur sem hann er, veit auðvitað að hann þarf að eiga einhverja stuðningsmenn sem sumir myndu kannski kalla „já menn“. Hann þarf einnig að hafa einhvern dyggan aðstoðarmann sem leysir hann af í fríum. Yfirmaðurinn velur sér það fólk sem hann finnur og veit að hann getur stjórnað. Hann velur sér fólk sem ber helst óttablandna virðingu fyrir honum og þá sem honum finnst ekki ógna sér eða stöðu sinni á neinn hátt. Fylgismenn yfirmannsins kjósa e.t.v. að sjá hann í öðru og jákvæðara ljósi en hinir sem eru ekki „útvaldir“. Þeim finnst yfirmaðurinn ef til vill mjög fínn og hæfur á meðan hinir sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum hans eru fullir kvíða og streitu í vinnunni. Einhverjir sem eru í innsta hring gætu einnig verið búnir að meta stöðuna þannig að betra sé að vera þarna megin borðs og tryggja þannig að þeir verði ekki sjálfir skotmarkið. Með því að ganga í „rétta“ liðið verður lífið í vinnunni þolanlegt og óöryggið minna?

Vanhæfur stjórnandi:

 • Skortir leiðtogahæfileika
 • Er óheiðarlegur og undirförull
 • Baktalar starfsfólk
 • Heldur upplýsingum frá starfsfólki
 • Leggur á ráðin baksviðs
 • Stendur á sama um líðan og aðstæður starfsfólks
 • Viðhefur sveiflukenndan stjórnunarstíl og er óútreiknanlegur í skapi
 • Hefur þrúgandi nærveru, skapar ógn og veldur kvíða
 • Er vanvirkur og kjarklítill þegar kemur að mannlegum samskiptum
 • Er latur og sérhlífinn.

Hvað einkennir góðan yfirmann?

Farsæll yfirmaður er heiðarlegur og lætur nærumhverfið sig varða. Hann heldur starfsfólkinu upplýstu um nauðsynleg vinnutengd atriði og gefur skýr skilaboð um samskiptareglur. Stjórnunarstíll hans er gegnsær og fyrirsjáanlegur. Góður yfirmaður er oftast einnig góður leiðtogi. Hann hefur færni í samskiptum, er næmur á líðan fólks og hugmyndaríkur þegar kemur að lausn ágreiningsmála. Góður yfirmaður veit að öll vandamál leysast ekki af sjálfu sér. Hann hefur tiltæka viðbragðsáætlun og skapar lausnarfarveg fyrir vandamál. Góður yfirmaður hvetur starfsfólkið til að gera skaðvalda óvirka séu þeir á staðnum og upplýsa um neikvæða hegðun verði hennar vart. Hann ber heilsu og hag allra á staðnum fyrir brjósti sér. Yfirmaður sem hefur þessa þætti í heiðri er líklegur til að vera í heilbrigðu og jákvæðu sambandi við starfsfólkið.

Jákvæðum staðarbrag er viðhaldið með því að skapa tíðan vettvang fyrir umræðu og hvatningu. Ræða þarf um hvernig almenn starfsánægja sé í þágu allra. Umræðan ætti ekki að vera á neinn hátt háð því að kvörtun eða eineltismál sé í ferli. Stjórnendur vinnustaða hafa margar leiðir til að mynda og viðhalda góðum tengslum. Nefna má:

 • Starfsmannaviðtöl
 • Skýrar starfslýsingar
 • Starfsánægjukannanir
 • Tíða starfsmannafundi

Það þarf ekki að kosta mikið fé að kanna líðan starfsfólks. Fáeinar spurningar geta gefið upplýsingar um staðarmenninguna og ríkjandi andrúmsloft. Helst er að marka svörin séu þau nafnlaus:

 • Hvernig líður þér með yfirmanninn?
 • Kostir og gallar yfirmannsins?
 • Hvernig líður þér í vinnunni?
 • Hvaða þætti ertu ánægð(ur) með á vinnustaðnum?
 • Hvað er það helst sem þú myndir vilja að breyttist á vinnustaðnum?

Öll erum við breysk og áður en ævinni lýkur má næstum fullyrða að einhvern tímann á lífsleiðinni sýnum við neikvæða hegðun og framkomu. Margir geta vafalaust rifjað upp tilvik þar sem þeir komu illa fram við ákveðna manneskju, jafnvel ítrekað. Eins gera allir mistök sem oftar en ekki má setja á reikning þroska- eða reynsluleysis, og/eða hugsunarleysis og hvatvísis.

Það er mikilvægt þegar talað er um manneskjuna og eiginleika hennar að gera alltaf ráð fyrir að fólk geti breytt sér og bætt framkomu sína. Allir geta bætt sig eitthvað svo framarlega sem þeir hafa örlítið innsæi í eigin líðan og hugsanir. Það hjálpar að geta sett sig í spor, prófað að finna hvernig er að vera í mismunandi aðstæðum. Einnig er gott viðmið að spyrja sig hvernig maður vill að aðrir komi fram við sig. Hafi maður fengið vísbendingar eða kvartanir vegna hegðunar og framkomu er þess virði að spyrja sig hvort neikvæðar tilfinningar hafi hugsanlega tekið stjórn yfir hugsun og hegðun manns? Sá sem á mestu möguleikana á að breytast er sá sem getur horft á sig með gagnrýnum hætti og axlar ábyrgð á sjálfum sér. Sá sem það gerir getur tekið meðvitaða ákvörðun um að breyta framkomu sinni, taka upp nýjan lífsstíl og þ.á.m. nýjan og bættan stjórnunarstíl.