Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram verklýsing aðalskipulagsbreytingar og umhverfismats Keldna, lögð fram sbr. 1. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana:
Gert er ráð fyrir að í Keldnalandinu verði heilmikil atvinnustarfsemi umfram þá starfsemi sem nú þegar er þar. Það er afráð því landið er of dýrmætt til að setja það í svo miklum mæli undir atvinnustarfsemi þegar stefnt er að því að hafa góðar almenningssamgöngur í gegnum hverfið. Skoða þarf einnig að hafa bílastæðakjallara undir húsum þar sem hentar auk þeirra sex bílastæðahúsa sem gert er ráð fyrir í hverfinu. Ef vel tekst til með aðgengi í og úr hverfinu og fólk hafi val um samgöngumáta þá ætti að vera auðvelt að sækja vinnu utan hverfis t.d. í austurhluta Höfðahverfis og Hólmsheiði og bein leið verður til miðsvæðis m.a. með væntanlegri borgarlínu. Í Keldnalandinu eiga að vera íbúðir og hús fyrst og síðast að mati fulltrúa Flokks fólksins enda íbúðaskortur mikill. Hér eru grundvallar þjónustustörf svo sem verslun undanskilin að sjálfsögðu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur tjáð sig um þetta atriði bæði við vinningshafa tillögunnar og á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í tvígang. Einnig er brýnt að þetta hverfi verði ekki aðeins eyrnamerkt efnameira fólki heldur gert ráð fyrir hagkvæmu húsnæði til kaups og leigu.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, dags. í apríl 2024, vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi sem nær yfir afmarkað svæði í Elliðaárdal og athugasemdir við hana kynntar. Deiliskipulagstillagan nær yfir svæði frá Árbæjarstíflu.
Í þessum breytingum er á ferðinni mál sem hefur verið töluvert í umræðunni. Hvort Árbæjarstíflan verður eða fer er mál sem fólk hefur skoðun á. Stíflan er barn síns tíma. Þær raddir eru uppi að stíflan hafi ekki mikið fegurðargildi, jafnvel ekki neitt. Einnig rífur hún sjónlínur upp og niður dalinn. Mörgum finnst að dalurinn yrði mun fallegri ef stíflan færi og hann yrði þá nærri því að komast í upprunalegt form ef engin er stíflan. Það væri t.d. hægt að byggja létta og fallega brú sem aðgengilega tengingu yfir dalinn. Stíflan er heldur ekki góð sem hjólaleið. Erfitt að hjóla upp á hana, það þarf að leiða hjólið og svo er hún mjög þröng þannig að hjólandi getur illa mætt gangandi vegfaranda og öfugt.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram umsókn Simon Joscha Flender, dags. 12. júlí 2024, um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, vegna lóðarinnar nr. 15 við Tryggvagötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að gera innri og ytri breytingar á Grófarhúsi samkvæmt vinningstillögu:
Grófarhúsverkefnið er gríðarlega fjárfrekt verkefni og hefur Flokkur fólksins gagnrýnt að það hafi verið sett í forgang þegar borgin var í djúpum fjárhagslegum kröggum. Eins gaman og það er að setja hugmynd í hönnunarsamkeppni þá vilja þau verkefni verða allt of kostnaðarsöm og fara jafnvel mikið fram úr áætlunum. Hér eru lagðir til margir fjárfrekir breytingarþættir. Gera á innri og ytri breytingar á Grófarhúsi, breyta útliti á veggflötum hússins til að líkjast upprunalegu útliti. Rífa á niður hæðir innanhúss til að opna milli hæða, breyta þakformi með tveimur glerjuðum þakhæðum í stað núverandi þakhæðar og hækka á hæðarkóta þaks sem nemur um hálfum metra. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja ræða um kostnaðartölur á þessu stigi. Vinningstillagan er metnaðarfull en sýnilega mjög kostnaðarsöm. Til dæmis eru framkvæmdir á borð við að gera framtíðartengingu við starfsemi Listasafns Reykjavíkur við Tryggvagötu 17 með að hámarki tveimur göngubrúm. Á jákvæðu hliðinni má segja að þakgarður getur sannarlega orðið jákvæð viðbót, þar sem hann á að vera opinn almenningi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju umsókn Bjargs Íbúðafélags, dags. 17. janúar 2023 ásamt bréfi, dags. 16. janúar 2023, um breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reits I við Haukahlíð, lóð nr. 6 við Haukahlíð.:
Málið snýst um fjölgun íbúða frá fyrri áætlun úr 70 í 86. Þessu er mótmælt af mörgum sem þegar eru fyrir á svæðinu. Uppbyggingin með 85 íbúðum og 54 bílastæðum innan lóða mætir tæplega kröfum um fjölda bílastæða fyrir íbúa en kannski svo lengi sem gert er ráð fyrir að gestastæði séu leyst í borgarlandi. Er ætlast til að gengið sé á önnur stæði í borgarlandinu? Hér er óneitanlega þrengt að þeim sem fyrir eru. Í þessu tilfelli virðist skorta á að samráð sé nægilegt. Einnig er sagt að væntanlegir íbúar geti notast við deilibílakerfi. Það er hins vegar óþekkt hvernig það muni reynast. Um deilibílakerfi má segja að það sé enn á tilraunastigi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um snjallljós við gönguþverun á Miklabraut, sbr. 18. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. september 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 18. júní 2024:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að sett verði upp snjallljós við gönguþverun á Miklabraut. Tillagan er felld. Gönguljósin sem þar eru, eru nú löngu úrelt enda ekki snjallljós sem lesa umferðina og meta aðstæður. Gönguljósin loga allt of lengi eftir að viðkomandi er komin yfir. Á meðan lengist biðröð bíla. Snjallljósabúnaðurinn gæti stytt ferðatímann um 15% og enn meira í tilfelli Strætó. Í umsögn er mest rætt um biðtíma eftir grænu ljósi fyrir vegfaranda sem ætlar að þvera. Á morgnana þegar umferðin er þyngst er biðtími fyrir þann sem ætlar yfir Miklubrautina afar stuttur sem er auðvitað frábært. Stuttur biðtími eftir grænu ljósi fyrir vegfaranda sem síðan logar óþarflega lengi skapar samt miklar og langvinnar tafir á bílaumferðinni með tilheyrandi mengun. Þessu ætti að vera hægt að breyta strax. Best væri ef drifið væri í að setja þarna snjallljósakerfið sem getur stýrt ljósatíma í samræmi við aðstæður. Í Samgöngusáttmálanum er talað um að fjárfesta eigi í slíku kerfi enda löngu tímabært. Reykjavíkurborg er aftarlega á merinni þegar kemur að umferðarstýringarmálum. Setja þarf umferðarljósastýringu i borginni í forgang.