Umhverfis- og skipulagsráð 16. ágúst 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda við Sundabraut – kynning.

Varla er hægt að deila um það að Sundabraut mun stórbæta samgöngur inn og út úr borginni til norðurs. Ekki enn búið að ákveða endanlega staðsetningu Sundabrautar sem hlýtur að vera erfitt þegar kemur að öðrum framkvæmdum í tengslum við hana. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að við undirbúning framkvæmdar verði borin virðing fyrir náttúru og lífríki, að sem minnst verði um landfyllingar. Brúa þarf leiðina yfir Leiruvog frekar en að landfylla. Annað er móðgun við lífríkið. Leggja á áherslu á brýr og raska eins litið og hægt er því lífríka svæði sem Leirvogur og Blikastaðakró eru. Leiruvogur er mikilvægur viðkomustaður farfugla og fóstrar ríkulegt fuglalíf árið um kring, Verndargildi svæðisins er hátt og felst ekki síst í grunnsvæði, miklum sjávarfitjum og víðáttumiklum leirum. Leirurnar eru meðal fárra óraskaðra leira á höfuðborgarsvæðinu og þær ber að friða algjörlega. Auðvitað á að taka tillit til fornminja. Það hlýtur að þurfa að hafa í huga að byggð mun rísa í Geldinganesi og gera þarf því ráð fyrir tengslum við Geldinganes. Í svo stóru máli sem þessu þarf að sýna fyrirhyggju og hugsa hlutina langt fram í tímann.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um rauða dregilinn, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 7. júní 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að það efni sem notað er nú í verkið er sagt að eigi að endast í hátt í átta ár. Hér er um að ræða skraut sem kostar á 15. milljón þegar allt er talið og því mikilvægt að valið sé efni sem endist.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stiga í Breiðholti, sbr. 29. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 31. maí 2023:

Í svari er farið yfir fyrirkomulag verkefnisins Hverfið mitt og ferli þess lýst en ekki er að finna svör við spurningunum sem spurðar voru. Spurt var m.a. um kostnað við stigann sem svo sem má eflaust finna á netinu en einnig var spurt um samráð við íbúa í grennd sem er kannski aðalmálið hér því mikil óánægja var með þennan stiga eins og sjá og heyra mátti á samfélagsmiðlum og í fréttum. Mörgum fannst hann eins og skrímsli í annars fallegu umhverfi og af honum væri sjónmengun. Þess utan var þessi stigi langt því frá að vera fyrsta val, og ekki heldur annað eða þriðja val heldur var hann í áttunda sæti. Það er því ekki hægt að segja að íbúar hafi valið þennan stiga, og „svona“ stiga með neinum afgerandi hætti.

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kvartanir vegna framkomu strætóbílstjóra, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 14. júní 2023.

Vísað til umsagnar Strætó bs. USK23060149

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vinnuskólann fyrir sumarið 2023, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 14. júní 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi á umhverfis- og skipulagssviði, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 14. júní 2023.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, mannauðsskrifstofu. USK23060151

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að láta gera umhverfismat vegna framkvæmda við Vetrargarðinn:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg láti gera umhverfismat vegna allra framkvæmda við Vetrargarðinn, allt á landi borgarinnar, og óháð gamla umhverfismatinu fyrir Arnarnesveg. Vegaframkvæmdin virðast fela í sér mikil spjöll á náttúru og umhverfi við Vatnsendahvarf. Ef áformað er að leggja alla vesturhlíð Vatnsendahvarfs neðan Arnarnesvegar undir Vetrargarðinn eru um stórfellt rask að ræða, bæði með hjólastíg og skíðabraut sem þarf að slétta vegna stórgrýtis. Óljóst er hversu slíkar brautir yrðu breiðar og hversu raskið af völdum þeirra yrði mikið. Stígarnir virðast geta orðið nálægt mörgum íbúðarhúsunum í götum sem standa næst. Víst er að mikið ónæði verður og hljóðvist mun versna.

Frestað. USK23080100

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að keyptir verða mælar til að mæla magn grenndargáma:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg/skipulagsyfirvöld kaupi þar til gerða mæla sem mæla hvort söfnunarkassar/gámar eru fullir. Ef að gámur fyllist þá gefur nemi boð um að hann sé fullur og því þurfi að sækja hann. Slíkt ætti að stjórna betur tæmingum og sjá til þess að það líði ekki dagar þangað til yfirfullur gámur er tæmdur. Fyrir þessu er fordæmi. Skátarnir eru sem dæmi með nema á sínum söfnunarkössum (sem mæla hvort að þeir séu fullir) og byrja á hverjum morgni að skoða hvaða gámar eru fullir og þarf að sækja. Reykjavíkurborg getur lært heilmikið af skátunum í þessum efnum.

Frestað. USK23080099

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna þjónustuskerðingar Strætó:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þeirri þróun hjá Strætó að skerða þjónustu og óskar upplýsinga um hvort frekari skerðingar eru fyrirhugaðar og hverjar þær kunna þá að verða? Stendur til að hækka fargjaldið meira á þessu ári? Ef svo er, verður tekið tillit til efnaminni fjölskyldna og fátæks fólks t.d. með því að gefa sérstaka afslætti? Stendur til að fara í frekari útvistun en áætlanir nú gera ráð fyrir? Sífellt er verið að skerða þjónustu Strætó og virðist sem fyrirtækið sé að lognast út af vegna mikils fjársveltis. Nýjustu dæmi eru að fjöldi fólks neyddist til að snúa sér að öðrum ferðamátum en strætó eða hreinlega hætta við bæjarferð á nýafstaðna Gleðigöngu vegna yfirfullra strætisvagna sem önnuðu ekki eftirspurn. Fólk þurfti að bíða í tvo og hálfan tíma. Yfirfullir vagnar óku fram hjá stoppistöðvum þar sem fjöldi manns beið. Fulltrúi Flokks fólksins furðar sig á að ekki voru gerðar neinar ráðstafanir, vitandi hvað veðrið væri gott og hve stór hátíðin er. Áfram halda skerðingarnar því nú verður ekki frítt í strætó á Menningarnótt eins og hefur verið undanfarin ár. Það munar um þetta hjá t.d. stórum fjölskyldum. USK23080102

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um innleiðingu nýs flokkunarkerfis og vandamál því tengdu:

Nú er innleiðing nýs flokkunarkerfis heimilisúrgangs er farið af stað og hefur gengið á ýmsu í því sambandi sérstaklega þegar kemur að tæmingu tunna. Flokki fólksins hafa borist kvartanir um að plast og pappírs tunnur hafi ekki verið tæmdar í allt að sex vikur. Spurning hvort hér sé um byrjunarörðuleika að ræða? Því vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja hver sé áætlaður tími fyrir losun á sorptunnum borgarinnar? Einnig er spurt af hverju þetta var ekki séð fyrir að það þyrfti fleiri hirðubíla? Loks er spurt hver sé raunveruleg ástæða fyrir því ófremdarástandi sem ríkt hefur í þessum málum í sumar. Er það rétt að skýringin sé sú að það sé vegna yfirvinnubanns hjá Reykjavíkurborg og þess vegna var ekki hægt að flýta viðgerðum á bílum til að koma þeim í virkni vegna þessa? Er það rétt að bílar hafi verið óþarflega lengi úr umferð þar sem að ekki mátti vinna í yfirvinnu við að laga þá? Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir heiðarleika í þessu máli og þegar spurt er út í skýringar á töfum að sagður sé sannleikurinn. USK23080098