Umhverfis- og skipulagsráð 5. október 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Borgartún 34-36, breyting á deiliskipulagi:

Í nýjustu breytingunni felst að fækka eigi íbúðum um tvær þ.e úr 102 í 100. Húsið er lækkað um eina hæð, skuggavarp er minnkað og fjölgun er á íbúum hússins. Þetta eru litlar breytingar í heildarsamhengi þessa húss. Var ekki vilji til að lækka húsið um fleiri hæðir? Er almennt ráðlagt að setja svo margar íbúðir í eitt hús? Fordæmi er varla fyrir þessu í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins finnst þéttingarstefna meirihlutans ganga ansi langt hér og óttast að of mikil þrengsl verði og umferðavandamál. Svo mikil þétting hefur neikvæð áhrif á sálræna líðan margra. Flokkur fólksins styður þéttingu ef hún er gerð skynsamlega og án öfga. Vissulega þarf að nota landið vel en ekki á kostnað grænna svæða og heilsufars fólks. Fjölmargar athugasemdir hafa borist og eru flestar af sama meiði, of mikið byggingarmagn og áhyggjur af umferð. Taka hefði mátt meira tillit til skoðana fólks í þessu máli.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Öskjuhlíð, breyting á deiliskipulagi:

Flugbjörgunarsveitin mótmælir skerðingu á bílastæðum og að önnur bílastæði sem fyrir eru verði óaðgengileg með þessari breytingu. Félagar í FBSR sinna mikilvægu sjálfboðastarfi við að aðstoða Reykvíkinga og gesti þeirra þegar neyð steðjar að. Skerðing á bílastæðum um 2/3 hluta mun hefta útköll, fjáraflanir og félagsstarf FBSR verulega. Bílastæði hafa þegar verið skorin mikið niður. Varast ber að ganga of langt í þessu sem öðru. Gæta þarf meðalhófs. Er hægt að finna lausn sem allir geta sætt sig við? Þetta er vissulega gömul ákvörðun en þeim má breyta eins og nýjum. Best væri að fresta þess og eiga „samtal“. Vika eða vikur til eða frá skipta ekki sköpum í þessu máli.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Auglýsingaskilti við Lönguhlíð, Standur fyrir auglýsingaskilti:

Það er mat meirihlutans í borginni að það séu hverfandi líkur á ónæði frá auglýsingaskiltinu til íbúa og annarra vegfarenda við Lönguhlíð. Spurning hvort það megi draga í efa. Kannski væri gott að hafa einhvern reynslutíma og endurskoða svo þetta skiltamál að honum liðnum. Það er þannig að ef skilti er einu sinni komið upp þá er hætta á að það verði þar að eilífu þótt mikil óánægja sé með það. Fram hefur komið hjá íbúum að ekki hafi verið haft samráð við nema örfáa og að áform um skiltauppsetningu stríði gegn samþykktum. Í markmiðum Samþykktar um skilti í Reykjavík segir beinlínis að „skilti séu íbúum borgarinnar ekki til ama eða óþæginda og að þau skerði ekki hönnun mannvirkja, hafi neikvæð áhrif á umhverfi eða skerði ásýnd borgarinnar.“ Einnig segir að halda eigi fjölda skilta í lágmarki og að leggja eigi áherslu á að fjöldi skilta valdi ekki óreglu og ringulreið í sjónlínu gatna.“ Það hlýtur að eiga að horfa á þessi mál í heild sinni og um þennan málaflokk þarf eins og aðra að ríkja sátt og skipulag. Ljósaskilti og auglýsingaskilti almennt hafa mikil áhrif á útlit hverfa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Leirtjörn vestur, nýtt deiliskipulag – skipulagslýsing:

Leirtjörn vestur, nýtt deiliskipulag. Ef litið er yfir athugasemdir sem berast umhverfis og skipulagsráði eru þær afar keimlíkar. Þær snúast að mestu um öfgar í þéttingu byggðar og óánægju með fækkun bílastæða. Þetta eru raddir borgarbúa og í öllu þessu samráðstali meirihlutans þá finnst Flokki fólksins að hlusta ætti meira á fólkið sem leggur það á sig að senda inn athugasemdir. Fólki líður kannski eins og það sé að kafna? Allt of víða í þéttingarferlinu er gengið á græn svæði og útsýni er skert. Hér er einnig talað um samspil byggðar og náttúru. Finna þarf leið til að náttúra og byggð spili saman í sátt við borgarbúa. Flokki fólksins finnst að meirihlutinn hafi haft takmarkaðan skilning á.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, um ástand á friðlýstum húsum við Ingólfstorg, svar:

Hér er spurt um hvort krefjast eigi viðhalds á friðlýstu húsunum Vallarstræti 4 og Aðalstræti 7. Flokkur fólksins veit að byggingarfulltrúi hefur þegar mikil völd og getur sektað ef svo vill eða beitt sér með ýmsum hætti til að sjá til þess að viðhald á friðlýstum húsum sé innt innan borgarinn. Byggingarfulltrúi gerði athugasemdir t.d. vegna þessara húsa eins og fram kemur í svari og er því til svarað af eigenda að þegar yrði farið í að bæta umhverfið. En þá má spyrja, fylgir byggingarfulltrúi því eftir eða lætur þar við sitja nema komi ný athugasemd? Þetta eru svona vangaveltur fulltrúa Flokks fólksins en ekki formleg fyrirspurn, ekki að þessu sinni allavega.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðgengi að Hlemmi (USK22090115)

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um aðgengi að Hlemmi, sbr. 61. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. ágúst 2022. Fyrirspurnin hefur verið uppfærð.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um geymslu hjóla- og fellihýsa:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði nýlega hvort skipulagsyfirvöld hefðu áhuga á að koma til móts við eigendur hjól- og fellihýsa með því að bjóða þeim að geyma þau yfir sumarið á svæðum sem eru til þess fallin og sé þar með dregið úr líkum þess að hjól- og fellihýsi séu geymd á götum eða í bílastæðum fyrir utan íbúahús. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík svöruðu því til að það væri ekki hlutverk borgarinnar að sjá íbúum fyrir bílastæðum í borgarlandi undir farartæki sem fyrst og fremst eru ætluð til tómstundaiðkunar. Nítjánda grein í Lögreglusamþykkt Reykjavíkur veitir lögreglustjóra heimild til að setja svona bann. Umferðarlög veita veghaldara eða landeiganda heimild til að setja svona bann en þar fyrir utan hljóðar ákvæðið eins. Flokkur fólksins óskar eftir að fá svar við hversu víðtæk þessi heimild er? Telja skipulagsyfirvöld í Reykjavík að lögreglustjóri geti bannað þetta um alla Reykjavík eða bara í ákveðnum hlutum borgarinnar, þar sem teljist meiri ástæða til? Er það rétt að ekkert slíkt allsherjar bann sé í gildi í Reykjavík í dag?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um stæði fyrir rafskútur:

Flokkur fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld fylgjast með hvernig rafskútum er lagt og skilið við þær út í hverfum. Nokkuð hefur borið á að þær eru skildar eftir á miðjum göngustígum og hefur legið við slysum vegna þess. Stendur til að koma upp föstum stæðum / hleðslustöð fyrir rafskútur og önnur rafhjól sem leigð eru út í hverfum? Því miður er það algengt að rafskútur liggja eins og hráviður út um alla borg. Gangandi fólk og hjólandi eru oft í stórhættu þegar komið er fyrir blind horn. Komið hefur í ljós að engar tryggingar eru á rafskútunum gagnvart öðrum vegfarendum þannig fólk sem fyrir þeim verður ber allan kostnað af þeim líkamsskaða og skemmdum á faratækjum sem rafskútur valda.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um framgang hreinsunar- og öryggismála í Úlfarsárdal:

Flokkur fólksins hefur verið að fá ýmsar ábendingar frá íbúum í Úlfarsárdal vegna drasls/úrgangs á óbyggðum lóðum, byggingarefni sem liggur eins og hráviði víða og fýkur um í vályndum veðrum og einnig vegna öryggismála.

Flokkur fólksins hefur áður verið með fyrirspurnir um þessi mál og tillögur sem lúta að hreinsun og/eða öryggismálum og einnig bókað um umferðaröryggi sem og verið með fjölda fyrirspurna um merkingar gangbrauta og lýsingu sem og umhirðu á byggingarlóðum. Flokkur fólksins óskar að spyrja núna um hver staða þessara umbóta er t.d. sem snúa að gangbrautum, merkingum og götulýsingu? Hafa verið málaðar sebrabrautir eins og óskað hefur verið eftir að verði gert? Hefur verið lokið við að gera gangstíga að leikskóla og Dalskóla manngenga? Hafa ruslagámar verið fjarlægðir af göngustígum? Hver er staða þessara mála almennt séð?