Uppbygging skóla í Laugardal – tvö ár farin til spillis

Á fundi borgarstjórnar í dag 11. júní verður umræða um framtíðarskipulag skóla í Laugardal. Í október 2022 samþykkti skóla- og frístundaráð Reykjavíkur að ganga í takt með íbúum hverfisins að fylgja svokallaðri sviðsmynd 1 úr skýrslu starfshóps um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í Laugarnesi og Langholtshverfi. Sú sviðsmynd felur í sér að skólarnir þrír haldi sér í núverandi mynd og byggt verði við þá alla til að mæta fyrirsjáanlegri fjölgun nemenda í skólahverfunum. Tillagan var samþykkt í borgarráði.

Nú tveimur árum síðar er kynnt kúvending í málinu. Hafna á sviðsmynd 1 og samþykkja frekar sviðsmynd 4 sem er að byggja nýjan skóla í Laugardal, safnskóla. Laugarnesskóli og Laugalækjarskóli verði þá fyrir yngri deildir grunnskóla. Íbúar telja að með þessu sé yngri deildum skipt upp á milli tveggja skóla og hverfið slitið í tvennt. Foreldrar telja jafnframt að það sé slæm hugmynd að skilja á milli Laugarness- og Laugalækjarskóla og setja alla unglinga hverfisins í einn skóla. Um verði að ræða tvö skólahverfi.

Tvö ár farin til spillis

Eftir að sviðsmynd 1 „að byggja við eldri skólana“ var ákveðin  og samþykkt í borgarráði, fékk starfshópur það hlutverk að útfæra sviðsmyndina og kostnaðarmeta. Svo virðist sem starfshópurinn hafi misst sjónar af hlutverki sínu og í staðin fyrir að útfæra sviðsmynd 1 samkv. erindisbréfi, er niðurstaða hópvinnunnar að henda skuli sviðsmynd 1 út og fylgja þess í stað sviðsmynd 4, að byggja nýjan skóla.  Þarna hefur tapast 20 mánuðir sem nýta átti til að undirbúa framkvæmdir á grundvelli sviðsmyndar 1.  Ítrekað reyndi Flokkur fólksins að kalla eftir skýrslu starfshóps sem útfæra átti sviðsmynd 1 en mætti algjörri þögn.

Veikburða rök meirihlutans

Haldnir hafa verið fundir um málið og hefur komið fram að lítið sem ekkert hefur verið undirbúið og ekkert ákveðið varðandi framkvæmdir við skólana. Rök meirihlutans eru veikburða og rök skóla- og frístundaráðs einnig. Það sem hafði áhrif á breytta afstöðu meirihlutans er bygging Þjóðarhallar og að nú liggi skýrt fyrir hvaða lóð unglingaskóli fengi. Þetta eru ekki bitastæð rök enda ekki séð hvað byggingar Þjóðarhallar hefur með málið að gera. Óeðlilegt er að stórframkvæmd sem Þjóðarhöll sé dregin inn í umræðu um eðlilegt viðhald, uppbyggingu og þróun skólastarfs hverfanna. Vilji borgarstjórnar um að Þjóðarhöll yrði reist í Laugardal hefur legið fyrir í mörg ár og því fráleitt að telja Þjóðarhöll til sem forsendubreytingu sem varð til á tímabilinu 2022-2023.

Meirihlutinn fullyrðir að nú liggi fyrir lóð fyrir safnskólann. Svo virðist sem stefna eigi að því að byggja safnskólann á svokölluðum „Þríhyrning“, knattspyrnusvæði Þróttar. Sú lóð getur varla talist standa skýrt til boða fyrir safnskóla þar sem Þróttur hefur skýrt skilgreindan afnotarétt af reitnum meðan félagið starfar í Laugardal og hefur stjórn félagsins gefið út yfirlýsingu um að reiturinn verði ekki gefinn eftir.

Ekki hefur verið fjallað um áhrif aukinnar bílaumferðar að þeim reit og engum orðum farið um það hvernig eigi að leysa það, til dæmis vegna nemenda, aðfanga, ferðaþjónustu fatlaðra eða vegna forgangsaksturs. Nú þegar er mikil umferð um Reykjaveg, mörg þúsund  bílar keyra þar á hverjum degi og öryggi gangandi vegfarenda er ekki tryggt með gönguljósum eða þrengingum.

Þá eru eftir tvær lóðir, önnur á bílastæði KSÍ í suð-vesturhluta hverfisins, sem að líkindum verður að vera hægt að nýta fyrir Laugardalsvöll og Þjóðarhöll og hin í suð-austur hluta hverfisins á grasbala milli Glæsibæjar og smáhýsanna. Það fer því fjarri að skýrt liggi fyrir á hvaða lóð safnskóli á unglingastigi getur risið.

Tillaga Flokks fólksins er að sviðsmynd 1 verði fylgt

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til á þessum sama fundi borgarstjórnar að sviðsmynd sú sem samþykkt var í víðri sátt árið 2022 verði fylgt enda væri annað bæði óheiðarlegt og ósanngjarnt. Meirihlutanum er tíðrætt um að hafa gott samráð við borgarbúa sem hér er fótum troðið með svo grófum hætti að borgarfulltrúi man ekki annað eins dæmi eftir að hafa verið í borgarstjórn í sex ár. Samtal um stækkun húsnæðis skóla í Laugardal hefur staðið frá árinu 2013 og börnin og starfsmenn skólanna þurfa að sækja nám/starf í verulega aðþrengdu og heilsuspillandi húsnæði. Flokkur fólksins leggur hér til að málið verði ekki frekar tafið heldur verði farið af krafti í að útfæra sviðsmynd 1 eins og búið var að samþykkja.

Birt í Morgunblaðinu 11. júní 2024