Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík

Á fundi borgarstjórnar 15. júní mun ég, fulltrúi Flokks fólksins, leggja til að borgarstjórn samþykki að setja á fót Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík. Um er að ræða hugmynd að sænskri fyrirmynd, þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni tímabundið. Sambærileg hugmynd er nú til skoðunar á Húsavík og hefur verið fjallað um verkefnið í tímariti LEB (Landssamband eldri borgara). Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýðir það ekki að það geti ekki gert gagn lengur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði á öllum sínum fullorðinsárum og hefur haft mikla ánægju af vinnunni enda er hún oft einnig áhugamál fólks. Allt samfélagið myndi stórgræða á að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna.

Hvernig mun vinnumiðlunin virka?

Vinnumiðlun eftirlaunafólks myndi virka þannig að fólk sem vill vinna skráir sig og síðan geta einstaklingar og fyrirtæki leitað til vinnumiðlunarinnar ef þeim vantar fólk í ákveðin verkefni. Sumir vilja ráða sig í starf hálfan daginn, aðrir geta hugsað sér að starfa tvo daga í viku og svo framvegis. Nú er hægt að vinna sér inn 100 þúsund krónur á mánuði án þess að ellilífeyrir skerðist. Úrræðið myndi að sjálfsögðu virka betur ef dregið er úr skerðingum vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur getur ef hann vill ákveðið að fylgja ekki almannatryggingakerfinu og boðið eldra fólki upp á úrræði til að auka virkni og auka tekjur.

Eftirlaunafólk á að fá að vinna eins og það hefur áhuga og tök á, án skerðinga, og njóta afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Fjölmörg störf koma til greina fyrir þennan hóp enda er mikill mannauður til staðar sem er með dýrmæta reynslu. Vonandi mun meirihlutinn í borgarstjórn taka þessari tillögu fulltrúa Flokks fólksins vel á fundi borgarstjórnar nk. þriðjudag.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Birt í Fréttablaðinu 11. júni 2021