Vita ekki hvort sérkennsla ber árangur

Ekki er vitað hvort sérkennsla eða annars konar stuðningur beri einhvern árangur í grunnskólum á Íslandi. Til þess þurfi markvissar rannsóknir eða úttektir á skólastarfi sem liggja ekki fyrir. Þetta kemur fram í svari skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í dag er tæplega einn af hverjum þremur grunnskólanemendum í sérkennslu. Hlutfallið hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár. Árið 2005 var hlutfallið 21 prósent í Reykjavík, það var komið upp í 26 prósent árið 2011. Skólaárið 2017 til 2018 voru 29,7 prósent nemenda á landinu öllu í sérkennslu eða öðrum stuðningsúrræðum.

Tölurnar segja ekkert um hvernig sérkennslu er um að ræða, getur það verið allt frá sérstakri kennslu fyrir nemendur sem eru komnir lengra til kennslu fyrir mikið fatlaða nemendur. Hluti nemenda er í sérkennslu alla sína skólagöngu á meðan aðrir eru aðeins hluta úr skólaári. Einnig getur verið um að ræða nemendahópa sem fá viðvarandi sérkennslu utan bekkjar í ákveðnum námsgreinum.

Grunnskólar í Reykjavík fengu úthlutaða tæplega 2,3 milljarða króna vegna sérkennslu í fyrra. Þar af fara 950 milljónir í almenna úthlutun og 1,3 milljarðar í sértæka úthlutun vegna mikið fatlaðra nemenda og nemenda með alvarlegar raskanir. Skólarnir sjálfir ákveða hvernig þeir nýta fjármagnið. Nú er í gangi skoðun hjá skóla- og frístundasviði um hvernig draga megi úr tengslum milli úthlutunar fjármagns og greininga.

Grunnskólar fara í ytra mat á nokkurra ára fresti. Þar er skoðað hvernig námi og kennslu er háttað í skólanum ásamt því að skoðaðir eru þættir á borð við sérkennslu. Ekki er þó metið hvort sérkennslan beri árangur.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði fram tillögu til skóla- og frístundaráðs um að borgin móti sér heildstæða stefnu í málefnum sérkennslu. „Það er margt í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í borginni. Skortur á heildrænni stefnu, yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum kemur fyrst og fremst niður á börnunum sem þarfnast þessarar þjónustu,“ segir Kolbrún.

Vill hún að árangurinn verði mælanlegur á einstaklingsgrunni og að fjármagnið dreifist til þeirra sem þurfa á því að halda. „Það skiptir ekki síður máli að mæla samræmt og þá fyrst er hægt að svara þeirri spurningu hvort sérkennsla sú sem verið er að veita börnunum sé að skila tilætluðum árangri.“

Birt í Fréttablaðinu 22. mars 2019