Yfir 600 börn bíða eftir sérfræðiþjónustu skóla

Á fundi velferðarráðs í desember voru lagðar fram biðlistatölur barna sem bíða eftir sérfræðiþjónustu skóla. Það eru 489 börn sem bíða eftir fyrstu þjónustu og 340 börn sem bíða eftir frekari þjónustu. Alls eru því 641 barn að bíða. Með sérfræðiþjónustu skóla er átt við sálfræðiviðtöl, kennslufræðilegt mat, talkennslu og sértækar greiningar á vanda barnanna sem foreldrar, kennarar og fleiri telja að barnið þurfi nauðsynlega á að halda. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram formlega fyrirspurn um stöðu barnanna sem bíða eftir þessari þjónustu og sundurliðun á ástæðu tilvísunar.

Grípa verður til aðgerða

Ráðast verður til atlögu með markvissum og kerfisbundnum hætti til að stytta biðlista. Það verður einungis gert með því að fjölga fagfólki skólanna og skipuleggja störfin þannig að meiri skilvirkni náist. Við síðari umræðu um fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar lagði Flokkur fólksins fram fimm breytingartillögur. Ein þeirra var tillaga um að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar til að stytta biðlista. Lagt var til að ráðið yrði fagfólk tímabundið, tveir sálfræðingar og einn talmeinafræðingur til eins árs. Gert er ráð fyrir að kostnaður við þessi þrjú stöðugildi nemi 40,5 m.kr. Tillagan var felld. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lengi talað fyrir að aðsetur skólasálfræðinga sé í skólunum þar sem sálfræðingarnir eru nálægt börnunum og til stuðnings og ráðgjafar við kennara og starfsfólk. Það myndi bæta skipulag og auka skilvirkni. Bið eftir þjónustu skapar óvissu og veldur börnum og foreldrum þeirra oft miklu álagi. Það hafa ekki allir foreldrar ráð á að leita sér aðstoðar með börn sín hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum. Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi gott aðgengi að allri þjónustu borgarinnar þar með talið sérfræðiþjónustu skólanna.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

Birt á visi.is 31.12. 2019