Hér á landi eru eins og víða annars staðar tækifæri til að auðgast. Dæmi: stunda viðskipti, koma auga á nýja möguleika og jafnvel að finna eitthvað upp sem selst vel. En oft er besta leiðin til að auðgast að komast í einokunaraðstöðu, sérstaklega ef um nýtingu almennra gæða er að ræða. Klassískt er að einhverjir fái að nýta hluta lands og gera hann smám saman að eigin eign. Þetta gerðist oft á öldum áður og þannig urðu til stéttir aðalsmanna sem byggðu á yfirráðum yfir landi. Slíkt kerfi var við lýði í Evrópu og entist fram á 19-öld. Kerfið endaði illa því að ekki var hægt að vinda ofan af því nema með blóðugri byltingu.
Við Ísland eru auðug fiskimið sem gefa af sér um tvöfalt meira á hverja flatarmálseiningu en þekktustu önnur fiskimið í Norður-Atlantshafi, svo sem Norðursjórinn og Barentshafið. Tekjumöguleikar eru því miklir, einkum ef fáir njóta gæðanna. Örfáar íslenskar fjölskyldur telja sig nú eiga þessi fiskimið. Þessar fjölskyldur verja rétt sinn af hörku með fulltingi þingflokka sem hindra breytingar í þágu almennings. Þetta er upphaf að myndun stéttar aðalsmanna á Íslandi. Kvótahafar fengu þennan rétt fyrir lítið.
Stórútgerðin fær að nota eign almennings, fiskveiðikvótann, og getur meira að segja selt hann frá sér á markaðsverði sem er margfalt það sem hún fær kvótann á. Dæmi eru um að útgerðarfyrirtæki fái botnfiskkvóta, þótt fyrirtækið veiði eingöngu uppsjávarfisk. Sá kvóti er seldur til annarra fyrir um 0,8 milljarða.
Tekjur þessa hóps nýríkra aðalsmanna eru miklar. Kvótinn þeirra skapar þeim auð og völd sem ekki hafa áður sést. Gjafakvótinn gerir það að verkum að hagnaður stóru útgerðarfélaganna er svo mikill að þessi fyrirtæki kaupa stóran hluta í öðrum atvinnurekstri og eru líkleg til að eignast nærri allt sem bitastætt er í landinu. Með núverandi kerfi stefnum við að stéttskiptu þjóðfélagi. Það er ekki heillandi framtíðarsýn.
Flokkur fólksins vill réttlæti og jöfn tækifæri til þeirra sem byggja og búa á Íslandi. Flokkur fólksins vill að fullt verð verði greitt fyrir aðgang að auðlind þjóðarinnar.
Fólkið fyrst – svo allt hitt!
Settu X við F á kjördag!
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Birt á visi.is 23. september 2021