You are currently viewing Aðalsmenn og almenningur á Íslandi

Aðalsmenn og almenningur á Íslandi

Forgangsröðun í öflun og útdeilingu fjármagns úr ríkissjóði ber þess ekki merki að tekjulágt fólk búi í landinu. Að mati Flokks fólksins hafa stóru fyrirtæki augljóslega forgang og því stærri sem þau eru, því meiri forgangur. Við útdeilingu á almannafé í tengslum við Covid-faraldurinn fengu stærstu ferðaþjónustufyrirtækin mest. Og þetta gildir um fleiri tegundir stórra fyrirtækja. Til dæmis fékk kísilmálmverksmiðjan á Bakka lögð fyrir sig einkaveggöng upp á fimm milljarða, greidd af ríkissjóði.

Stórútgerðin fær að nota eign almennings, fiskveiðikvótann fyrir lítið, og geta meira að segja selt hann frá sér á markaðsverði sem er margfalt það sem hún fær kvótann á. Dæmi eru um að útgerðarfyrirtæki fái botnfiskkvóta, þótt fyrirtækið veiði eingöngu uppsjávarfisk. Sá kvóti er seldur til annara fyrir um 0,8 milljarða.

En þegar kemur að því að afla fjár í ríkissjóð er forgangsröðunin önnur. Aldrei er afsláttur af skatttekjum sem almenningur þarf að greiða sama hversu vel árar. Þetta finnst okkur hjá Flokki fólksins óviðunandi. Ef viðkomandi fær einhverjar bætur eða ellilífeyri skal meginhluti þeirra renna í ríkissjóð í gegn um skerðingar. Lítil fyrirtæki sem eru á innlenda markaðnum fá heldur ekki afslátt.

Svikamylla í skattaskjólum

Séu fyrirtækin stór og tengist erlendum mörkuðum mega þau nota evrur eða dollara í sínu bókhaldi. Þau geta ráðið fjármálasérfræðinga til að aðstoða við að geyma fé í skattaskjólum.  Þau geta valið það land þar sem hagnaðurinn á að koma fram. Þegar þau sýna bókhaldslegt tap á einu ári geta þau nýtt það sér til skattaafsláttar áraröðum seinna. Þau geta tekið lán hjá dótturfyritæki þar sem skattar eru lágir og greitt fyrir það háa vexti. Vextir geta verið það háir -bókhaldslega- að mörg stórfyrirtækin munu kannski aldrei greiða tekjuskatt hér á landi.

Íslenskir stórútgerðarmenn eru sérkapítuli. Gjafakvótinn þeirra skapar þeim auð og völd sem ekki hafa áður sést. Gjafakvótinn gerir það að verkum að hagnaður stóru útgerðarfélaganna er svo mikill að þessi fyrirtæki kaupa stóran hluta í öðrum atvinnurekstri og eru líkleg til að eignast nærri allt sem bitastætt er í landinu. Með núverandi kerfi stefnum við að stéttskiptu þjóðfélagi,  aðalsmenn og almenningur. Slíkt kerfi var við lýði í Evrópu á miðöldum og entist fram á 19-öld. Kerfið endað illa.

Við hjá Flokki fólksins segjum: Fólkið fyrst en ekki ríkidæmið!

 

Tómas A. Tómasson, veitingamaður, er oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.