Árum saman hafa notendur heilbrigðisþjónustunnar mátt búa við biðlista af öllum stærðargráðum. Biðlistar á Barna- og unglingageðdeild (Bugl) hafa verið svo lengi sem menn muna. Biðlistavandi á ekki einungis við um Bugl heldur á fleiri stöðum þar sem börnum og unglingum, sem eiga við sálfræðilegan og/eða líffræðilegan vanda að stríða, er hjálpað. Nefna má einnig langa biðlista á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem kemur illa niður á notendum og aðstandendum.
Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar
Flokkur fólksins vill uppræta biðlista. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu. Hverju kann það að sæta að samfélag eins og okkar Íslendinga er haldið þessu biðlistameini? Svarið er oft „mannekla“ og til að hægt sé að ráða fleira fagfólk þurfi fjármagn. Fjármagni er ekki forgangsraðað í þágu barnanna, svo mikið er víst. Börn hafa ekki verið sett í forgang, væru þau í forgangi, þá væru ekki langir biðlistar eftir svo nauðsynlegri þjónustu sem sál- og geðlæknaþjónusta er. Á þessu kjörtímabili hefur nákvæmlega ekkert verið gert til að eyða biðlistum eins og þeir séu bara sjálfsagðir og eðlilegir.
Halda þarf áfram að leita lausna á þessu rótgróna vandamáli og finna leiðir til að ráða inn fleiri fagaðila og stuðla að aukinni samvinnu milli stofnana bæði ríkis og borgar.
Heilsu barna teflt í tvísýnu
Við í Flokki fólksins vonum innilega að á meðan börnin bíða eftir þjónustunni verði vandinn ekki þeim ofviða. Vissulega er reynt að forgangsraða málum. Bráðamál eru tekin fram fyrir og mál sem sögð eru „þoli bið“ séu látin bíða. Enginn getur með fullu vitað hvað er að gerast hjá barninu á meðan það bíður eftir þjónustu. Vel kann að vera að á meðan á biðinni stendur vaxi vandinn og geti á einni svipstundu orðið bráður vandi sem ekki hefði orðið hefði barnið fengið fullnægjandi aðstoð á fyrri stigum. Dæmi um bráðamál eru börn sem viðhafa sjálfsskaða, eru jafnvel komin með sjálfsvígshugsanir eða byrjuð í neyslu. Fullvíst er að þegar svo er komið hefur vandinn átt sér aðdraganda. Mál barns verður ekki bráðamál á einni nóttu heldur hefur líklega verið að krauma mánuðum saman.
Börn eiga ekki að þurfa bíða eftir þjónustu af þessu tagi nema í mesta lagi 3-4 vikur. Með margra mánaða bið er verið að taka áhættu. Þeir foreldrar sem hafa fjárráð sækja þjónustu fyrir barn sitt hjá sjálfstætt starfandi fagaðila. En það hafa ekki allir foreldrar efni á því. Barn, sem fær ekki aðstoð við hæfi fyrr en eftir dúk og disk, er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og jafnvel sjálfsvígstilrauna. Slakt aðgengi að fagþjónustu getur kostað líf.
Börn sem bíða eru börn sem líða.
Höfundar:
Tómas A. Tómasson, oddviti Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi, skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Birt í Mannlífi 18. september 2021