You are currently viewing Æ fleiri börn þurfa sérkennslu

Æ fleiri börn þurfa sérkennslu

Sú staðreynd að árangur íslenskra barna í lestri hefur versnað á sér sennilega rætur í mörgum þáttum. Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við nágrannalönd. Samkvæmt PISA 2018 lesa um 34% 14-15 ára drengja sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Samkvæmt Lesskimun 2019 lesa aðeins 61% barna í Reykjavík sér til gagns eftir 2. bekk.
Hlutfall barna sem er í sérkennslu hefur haldið áfram að hækka en það var 26% árið 2011 og er um 30% 2020. Hópur nemenda er að fá viðvarandi sérkennslu utan bekkjar í ákveðnum námsgreinum, stundum alla skólagönguna, ýmist marga tíma á viku eða fáa. Sumum nemendum nægir að vinna í smáum hópum með stuðning þar sem þau fylgja engu að síður bekkjarnámsefninu.

 

Engin heildstæð stefna er til í sérkennslumálum í Reykjavík og ekki liggja fyrir markvissar rannsóknir á skólastarfi og sérkennslu. Því er ekki vitað hvort sérkennsla eða annars konar stuðningur sé að bera tilætlaðan árangur.

 

Segja má að margt sé í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Skortur er á yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum. Ef sérkennsla á að vera markviss verður hún að byggja á mati og greiningum. Fjöldi tilvísana á bið eftir greiningum og viðtölum til skólasálfræðinga eru nú um eitt þúsund.

 

Í svörum skólayfirvalda við fyrirspurnum borgarfulltrúa Flokks fólksins um þessi mál kemur fram að í þeim skólum sem hafa menntaða sérkennara eru námslegar greiningar á einstökum nemendum gerða. Ekki er hins vegar vitað hvernig málum er háttað í skólum sem hafa ekki menntaða sérkennara.

Á fundi borgarstjórnar 20. október sl. lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík. Tillögunni var breytt í málsmeðferðartillögu um að vísa henni í vinnuhóp sem skoðar þessi mál. Fátt var annað að gera en að samþykkja það þótt það komi ekki í staðinn fyrir heildstæða úttekt gerða af óháðum aðila eins og innri endurskoðanda. Eitt útilokar ekki annað og myndi slík úttekt, væri hún gerð, geta verið grunnur að tillögum að heildstæðri stefnu.

Innri endurskoðun hefur faglegt sjálfstæði í störfum sínum gagnvart allri stjórnsýslu borgarinnar og getur því ákveðið að gera þá úttekt sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til.