Áhrif og afleiðingar lokana leikskóla vegna manneklu

Allmargir leikskólar í Reykjavík hafa þurft að loka heilu og hálfu dagana vegna manneklu. Oft hefur þetta verið án nokkurs fyrirvara, foreldrar jafnvel komnir með barnið í leikskólann þegar þeir eru beðnir að fara með það heim aftur. Einnig hafa verið skipulagðir skertir opnunartímar vegna manneklu. Svona hefur þetta gengið mánuðum saman og ekkert lát er á.

Óskað var eftir upplýsingum um fjölda tilfella þar sem gripið hefur verið til lokana leikskóladeilda í Reykjavík vegna fáliðunar. Birtar tölur eru sláandi og af þeim má sjá að sumir leikskólar hafa þurft að skerða þjónustu verulega, því ekki hefur tekist að manna deildir. Í svari eru birtar tölur yfir u.þ.b. eins og hálfs mánaða tímabil og var fjöldi lokaðra daga um 1000. Áhrif og afleiðingar bitnuðu á um 3000 börnum og fjölskyldum þeirra. Bak við hverja tölu er barn sem ekki fær notið leikskóla síns. Ótalin eru áhrif skerðingar þjónustunnar á aðra í fjölskyldunni sem beðnir eru um að hlaupa í skarðið og iðulega með engum eða stuttum fyrirvara.

Rótgróin vandi, óvissan verst

Mannekla við uppbyggingu leikskólakerfisins í Reykjavík hefur loðað við leikskóla borgarinnar árum saman en sjaldan verið eins áberandi og áþreifanleg og síðustu misseri. Foreldrar hafa um langan tíma sent ítrekuð áköll til meirihlutans í borgarstjórn vegna ástandsins. Meirihlutinn hefur sagst vera að finna leiðir til lausna sem ekki er enn séð að hafi skilað sér.

Daglega eru foreldrar í óvissu ýmist um hvort þeir verði sendir heim aftur með barnið eða beðnir að sækja það stuttu seinna því ekki hefur tekist að manna deildir. Sumir foreldrar geta sett upp plan B og jafnvel plan C en aðrir foreldrar hafa engin varaúrræði. Hópur foreldra sem eru búsettir í Reykjavík eru utan af landi eða eiga stórfjölskyldu sína utan landssteinanna og geta því ekki kallað á ömmu eða afa til að bjarga málum. Fjölmargir foreldrar hafa fyrir löngu fullnýtt öll úrræði til að fá pössun fyrir börn sín þegar leikskólinn lokar eða skerðir þjónustu vegna manneklu. Álag vegna óvissunnar er farið að taka sinn toll og hafa sumir foreldrar lýst kvíða og vonleysi. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu eða nám í þessu ófremdarástandi í leikskólamálum borgarinnar?

Starfsfólkið sett í forsvar

Starfsfólk leikskóla eru ekki sökudólgar hér og geta í raun lítið gert annað en að bregðast við ástandinu frá degi til dags. Það er samt starfsfólkið sem þarf oftast að svara fyrir lokanir og skerðingar þjónustunnar. Gera má að því skóna að margir hafi gefist upp á að vinna í leikskóla vegna álagsins sem rekja má beint til vandamála í leikskólamálum borgarinnar. Við bætist svo þriðja ástæðan fyrir lokunum sem er mygla og raki sem fundist hefur í allmörgum leikskólum borgarinnar. Ábyrgð alls þessa hvílir á herðum meirihluta borgarstjórnar í Reykjavík sem Framsókn, Samfylking, Píratar og Viðreisn skipa.

Heimagerður vandi

Ef á þetta er litið þá er það mat fjölmargra að Reykjavík stendur sig illa í leikskólamálum. Reykjavík er ekki eina sveitarfélagið sem þarf að bregðast við fjölgun fólks í sveitarfélagi. Sveitarfélög víða um land hafa sinnt þessum málum betur bæði með að fækkun á biðlistum og betrumbæta þjónustu við börn og foreldra.

Gera þarf störf á leikskóla eftirsóknarverð hvort sem það er með launahækkun, bættum starfsaðstæðum, minna álagi eða einhvers konar umbun í starfi. Ekki gengur til lengdar að foreldrar ungra barna gangi um með kvíðahnút í maganum vegna óvissu um þjónustu leikskólans og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna álags í starfi. Á sama tíma státar Reykjavíkurmeirihlutinn sig af því að borgin sé barnvæn borg og stefnt sé að því að hún verði barnvænsta borg í heimi.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur