You are currently viewing Happ og harmur spilakassa

Happ og harmur spilakassa

Barátta spilafíkla við spilafíkn er áþreifanleg og tengist oft fleiri alvarlegum vandamálum. Öll spil sem vekja von í brjósti spilarans um að hann geti unnið pening eru líkleg til að hafa ánetjunaráhrif. Fíknivandi stjórnar og þurrkar oft út alla skynsemi og dómgreind. Spilafíkill sem er langt leiddur svífst oft einskis til að afla fjár í spilamennskuna og gengur jafnvel svo langt að tæma sparisjóðsreikninga barna sinna. Spilafíkn veldur samfélagslegum skaða. Engu að síður er rekstur spilakassa löglegur. Undanfarið hefur skapast umræða um hvort rétt sé að banna rekstur spilakassa. Sú umræða hefur m.a. skapast fyrir tilstilli Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem hafa staðið fyrir átakinu lokum.is.

Í borgarráði 25. mars lagði fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn fram tillögu um „Að ráðist verði í endurskoðun á reglum og samþykktum borgarinnar um spilakassa í Reykjavík með það að markmiði að koma í veg fyrir skaðlegar afleiðingar slíks reksturs“. Spilakassar í sjoppum orka tvímælis því þar koma börn og unglingar stundum saman. Um stóra sérhæfða spilasali má setja reglur sem takmarka dvöl þar.

Árið 2006 gerði greinarhöfundur rannsókn á spilafíkn meðal 16—18 ára unglinga í framhaldsskólum í samstarfi við sálfræðiskor HÍ. Niðurstöður rannsóknarinnar sem bar heitið „Peningaspil og spilavandi meðal 16-18 ára framhaldsskólanema“ voru birtar í Sálfræðiriti sálfræðinga 2008. Einnig voru birtar tvær blaðagreinar í Morgunblaðinu í október 2006. Sú fyrri bar titilinn „Peningaspil, gleðigjafi eða harmleikur“ og hin síðari „Peningaspil á netinu er vaxandi vandamál“.

Á þessum tíma voru háhraðatengingar á netinu að ryðja sér til rúms og var búist við að þátttaka fullorðinna og unglinga myndi aukast í peningaspilum á netinu. Meðal niðurstaðna var að fjöldi þeirra sem spila peningaspil hafði minnkað, en virkur hópur sem spilaði vikulega eða daglega, hafði stækkað. Einnig sýndu niðurstöður að drengir eru í miklum meirihluta þeirra sem spila peningaspil. Sterkar vísbendingar eru um tengsl milli peningaspilafíknar og annarrar fíknar s.s. áfengis- og vímuefnafíknar og einnig milli spilafíknar og þeirra sem hafa verið greindir með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD). Þessar upplýsingar eru mikilvægar í ljósi umræðunnar um hvernig forvörnum skuli best háttað og að hvaða markhópi þær ættu einna helst að beinast.

Leyfi var sínum tíma veitt til fjáröflunar með spilakössum og fengu Happdrætti Háskóla Íslands og Íslandsspil (í eigu Rauða Krossins, Landsbjargar og SÁÁ) heimild til reksturs spilakassa. Þrátt fyrir að ágóðinn eigi að renna til góðgerðamála er ljóst að einkaaðilar hagnast. Algengt er að rekstrinum sé útvistað til einkaaðila og varla rennur ágóðinn óskipt til HHÍ og Íslandsspila? A.m.k. gefa upplýsingar í fyrirtækjaskrá það til kynna að rekstur spilakassa og spilasala skili þessum einkaaðilum reglulegum og umtalsverðum hagnaði.

Flokkur fólksins telur tímabært að ráðist verði í endurskoðun á reglum og samþykktum Reykjavíkurborgar til að sporna við spilafíkn og freista þess að fleiri sem hafa ánetjast nái tökum á fíkn sinni. Grípa þarf til heildstæðrar endurskoðunar þar sem skoðað verði hvaða leiðir séu færar til að koma í veg fyrir rekstur spilakassa í borginni og þar með draga úr spilafíkn. Nauðsynlegt er að sérfræðingar leggi mat á það hvaða leiðir skili bestum árangri, enda ljóst að svara þarf ýmsum álitamálum þegar ráðist er í breytingar á reglugerðum og samþykktum Reykjavíkurborgar. Með því að kortleggja hvaða leiðir eru færar er hægt að grípa til aðgerða sem skila markvissum árangri og draga úr aðgengi að spilakössum og þar með skaðlegum áhrifum spilafíknar.

Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa dregið fram reynslusögur spilafíkla og aðstandenda þeirra sem sýna svart á hvítu hve miklum skaða spilafíkn veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélaginu. Samtökin berjast fyrir því að spilasölum og spilakössum verði lokað. Fram hefur komið að einhverjir áskilji sér jafnvel rétt til að leita réttar síns gagnvart Happdrætti Háskólans, Háspennu ehf. og íslenska ríkinu og krefjast skaðabóta eða viðurkenningu á skaðabótaskyldu vegna tjóns sem rekstur spilakassa hefur haft á einstaklinga og fjölskyldur.

Birt í Morgunblaðinu 3.4. 2021