Jarðvegur fyrir einelti

Forvarnardagur gegn einelti var 8. nóvember sl. Ég hef sem sálfræðingur skrifað mikið um eineltismál og komið að fjölda mála jafnt í skólum, á vinnustöðum og hjá íþróttahreyfingum.
Öll erum við breysk og áður en ævinni lýkur má næstum fullyrða að einhvern tímann á lífsleiðinni sýnum við neikvæða hegðun og framkomu. En svo lengi sem lifir má gera von um aukinn þroska og innsæi. Það krefst vissulega innsæis að geta horft á sjálfan sig með gagnrýnum hætti og axlað ábyrgð á eigin hegðun.

Orsakir eineltishegðunar eins og annarrar ofbeldishegðunar geta verið flóknar og átt rætur að rekja í samspili persónueinkenna, félagslegs bakgrunns og hvernig einstaklingurinn upplifir stöðu sína á staðnum.

Eineltismál eru til í alls konar myndum og fyrirfinnast þar sem fólk kemur saman. Það sem einkennir eineltishegðun er ítrekun, ásetningur að meiða og lítillækka; hegðun sem oftast er drifin áfram af öryggisleysi og minnimáttarkennd gerandans. Kerfisbundin aðför að einni manneskju leiðir til andlegs skaða hennar og niðurbrots.

Yfirmaðurinn

Í þessum erfiðu málum er ábyrgð stjórnenda mikil því hann hefur það í hendi sér hvort einelti fær þrifist á vinnustað eða hvort tekið verði á málum. Ekki er öllum gefið að vera góður stjórnandi eða yfirmaður. Því miður eru dæmi um yfirmenn á alls kyns vinnustöðum sem skortir flest það sem telst prýða góðan yfirmann.

Góður yfirmaður gerir vissulega miklar en sanngjarnar kröfur til starfsmanna sinna. Sé yfirmaðurinn góður leiðtogi langar starfsfólk alla jafnan að leggja sig fram, sjálfs síns vegna og vinnustaðarins. Metnaður yfirmannsins ætti að smitast auðveldlega yfir til starfsmannanna, líði þeim vel í vinnunni.

Farsæll yfirmaður lætur sig nærumhverfið varða. Hann heldur starfsfólkinu upplýstu um nauðsynleg vinnutengd atriði og gefur skýr skilaboð um samskiptareglur. Stjórnunarstíll hans er gegnsær og fyrirsjáanlegur. Hann er næmur á líðan fólks og hugmyndaríkur þegar kemur að lausnum þ.m.t. lausnum ágreiningsmála. Góður yfirmaður veit að öll vandamál leysast ekki af sjálfu sér. Hann hefur þess vegna tiltæka viðbragðsáætlun og skapar lausnarfarveg fyrir vandamál sem upp kunna að koma. Góður yfirmaður hvetur starfsfólkið til að gera skaðvalda óvirka, séu þeir á staðnum og upplýsa um neikvæða hegðun, verði hennar vart. Hann ber heilsu og hag allra á staðnum fyrir brjósti sér. Yfirmaður sem hefur þessa þætti í heiðri er líklegur til að vera í heilbrigðu og jákvæðu sambandi við starfsfólkið.

Starfsmennirnir

Þeir yfirmenn og stjórnendur sem ekki falla undir ofangreinda lýsingu eru þó ekki allir gerendur eineltis. Dæmi eru einnig um að starfsfólk, einn eða fleiri leggi fæð á yfirmann sinn, leggi hann í einelti og linni ekki látum fyrr en búið er að bola yfirmanninum burt.

Það þarf ekki nema einn aðila á vinnustað til að eitra andrúmsloftið. Algengustu birtingamyndir eineltis er rógburður, t.d. slúður, illt umtal og sögusagnir sem beitt er til að grafa undan mannorði þolanda, rangar ásakanir um frammistöðu í starfi, stöðug og óréttlát gagnrýni, særandi ummæli og nafnaköll. Einnig beinar munnlegar eða líkamlegar hótanir, aukið vinnuálag, niðrandi skírskotun til aldurs, kyns eða litarháttar, persónulegar móðganir, háð, árásargirni, stöðugar breytingar á vinnuaðferðum eða vinnutíma, skemmdarverk, tafir í vinnu, útilokun frá veislum, fundum eða ferðum og jafnvel kynferðisleg áreitni.

Nái neikvæð menning að festa sig í sessi (vondur mórall) verður vinnustaðurinn smám saman eitraður. Mannaskipti eru þá oft tíð. Nýir starfsmenn, bjartsýnir og ferskir, sýkjast af eiturmenningu og hverfa jafnvel fljótt á braut.

Góður jarðvegur fyrir einelti

Einelti í sinni víðustu mynd þrífst vel undir stjórn yfirmanns sem er vanvirkur, veikgeðja og atkvæðalítill þegar kemur að samskiptamálum. Hinn vanvirki yfirmaður getur vel látið sér annt um starfsfólkið og viljað að hlutir séu í lagi en hann ræður einfaldlega ekki við að taka á samskiptamálum sem upp koma. Stundum skortir hann einfaldlega kjark til að takast á við mál af þessu tagi og verður óöruggur og vandræðalegur. Þá er aðgerðaleysið stundum réttlætt með því að segja að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu. Viðkomandi yfirmanni kann jafnvel að finnast starfsmaðurinn sem segir frá einelti vera með tómt vesen og óþarfa drama. Þá er eins og yfirmaðurinn sé að styðja „gerandann“ og veita honum leyfi til að halda meintri háttsemi sinni áfram. Þannig getur það gerst að yfirmaðurinn sé óbeinn þátttakandi jafnvel í einelti þar sem hann hunsar vandann og tekur þátt í að þagga hann.

Yfirmaður sem er lítill mannþekkjari og veikgeðja lætur oft undan þrýstingi og verður þá jafnvel eins konar leppur einhver annars. Við erfiðar og flóknar aðstæður finnst honum auðveldara að leyfa öðrum að taka stjórnina.

Hvernig sem á málið er litið er óhætt að segja að stjórnandinn hafi líðan starfsmanna í hendi sér. Ábyrgð hans er mikil.

Birt í Morgunblaðinu 9.11. 2021