Barnið mitt fékk COVID -19


Barnið mitt fékk COVID-19

Mikið er lagt á börn um þessar mundir. Börn, sem komin eru með aldur og þroska til, hafa vissulega fylgst með heimsfaraldrinum. Börnin hafa fram til þessa mörg hver haft áhyggjur af foreldrum sínum og öfum og ömmum. Hvort sem það er með tilkomu breska afbrigðisins eða ekki þá hefur veiran smokrað sér meira inn í barnahópa svo nú bætast við áhyggjur af eigin heilsu. Ætla má að enn meiri ugg hafi sett að börnum samfara því og þá ekki síst hjá þeim börnum sem hafa fengið COVID-19. Eitt er að heyra fréttir af vágestinum en annað að vera sjálfur í þeim sporum að hafa smitast.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 4. maí um sálfræðiaðstoð til starfsfólks og foreldra vegna COVID-19 smita í leik- og grunnskólum þar sem upp hefur komið COVID-19 hópsýking. Einnig var lagt til að hugað verði sérstaklega að þeim börnum sem hafa smitast af COVID-19 og þeim veitt sálfræðiaðstoð telji foreldrar þörf á.
Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu 27. apríl hafa 426 börn á aldrinum 0-17 ára, með lögheimili í Reykjavík, greinst með COVID-19 hér á landi frá upphafi faraldursins.

Þegar börnin eru annars vegar er öllum illa brugðið. Foreldrar barna sem smitast hafa af COVID-19 hafa án efa fundið fyrir miklum ótta. Sama má ætla að gerist hjá starfsfólki. Það er brýnt að foreldrum og starfsfólki standi til boða sálfræðiaðstoð til að vinna úr þessari erfiðu reynslu. Starfsfólk leik- og grunnskóla hafa verið undir miklu álagi frá upphafi faraldursins. Full ástæða er einnig til að huga að börnunum sem hafa fengið COVID-19. Mörg þeirra hafa hvorki aldur né þroska til að vinna úr áföllum af þessu tagi. Í viðtali við fagaðila gefst þeim  tækifæri til að tjá upplifun sína, líðan og hugsanir, hvernig það var að vera í einangrun og koma síðan aftur í skólann eða annað sem hvílir á þeim.

Líðan barna hefur farið versnandi

Almennt hefur líðan grunnskólabarna hér á landi farið versnandi og á það jafnt við fyrir faraldurinn og eftir að hann hófst. Þetta má sjá í niðurstöðum kannana sem birtar hafa verið hjá Landlæknisembættinu, Velferðarvaktinni og Umboðsmanni barna. Frásögnum barna hefur verið safnað m.a. af Umboðsmanni barna og hafa þær gefið vísbendingar um að áhyggjur hafi aukist. Áhyggjur í tengslum við veiruna eru líklegar til að auka enn meira á vanlíðan þeirra barna sem leið illa fyrir.

Vaxandi vanlíðan barna í Reykjavík og aukning á depurð, kvíða, sjálfsskaða og sjálfsvígshugsunum hefur verið áhyggjuefni lengi. Þau börn sem eru í þessari stöðu hafa ekki öll fengið þá aðstoð sem þau þurfa til að vinna bug á vanlíðan sinni. Þau sem hafa fengið einhverja aðstoð bíða jafnvel enn eftir frekari aðstoð.  Það hefur ekki farið fram hjá neinum að um 956 börn bíða á biðlista eftir sálfræðiaðstoð skólaþjónustu og annarri hjálp hjá Skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Börn og ungmenni tala sjálf um skort á aðgengi að sálfræðingum, þjónustu og ýmsum bjargráðum þeim til aðstoðar og stuðnings.

Vegna heimsfaraldursins er ekki ósennilegt að einhver börn sofi verr, hafi minni matarlyst og geti jafnvel um fátt annað hugsað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur, ásamt mörgum öðrum, áhyggjur af því að börn þrói með sér t.d. sýkla- og sjúkdómahræðslu og hræðslu við dauðann umfram það sem almennt gengur og gerist hjá börnum því vissulega koma slík hræðslutímabil hjá hópi barna. Mörg börn eru orðin mjög meðvituð um sjálfan sig og sína nánustu, passa sig að snerta helst ekki neitt og það sem þau snerta hafa þau áhyggjur af smiti.

Fulltrúi Flokks fólksins hyggst leggja til síðar við skóla- og velferðaryfirvöld borgarinnar að gefinn verði út leiðbeiningabæklingur til foreldra um hvernig best er að bregðast við þegar barn þeirra er gripið ótta sem rekja má til kórónuveirufaraldursins, áhrifa hans og afleiðinga. Það er ekki sjálfgefið að allir foreldrar viti hvernig best er að bregðast við hræðslu barna sinna. Það er mikilvægt að huga að öllum þáttum í þessu sambandi þegar börn eru annars vegar. Ef ekki tekst að hjálpa þeim börnum sem þurfa að létta á kvíða og áhyggjum vegna COVID-19 er hætta á að hann grafi sig enn dýpra með alvarlegri afleiðingum.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
www.kolbrunbaldurs.is
Birt í Fréttablaðinu 5. maí 2021