Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 1. október 2024, vegna ársreiknings Reykjavíkurborgar 2023.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur yfirfarið ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 ásamt skýrslu endurskoðanda. Samkvæmt ársreikningnum hefði sveitarfélagið ekki uppfyllt þau lágmarksviðmið sem kveðið er á um í lögum né heldur lágmarksviðmiðum eftirlitsnefndarinnar. Lögin eru ekki orðin virk en lögin um lágmarksviðmið verða virk fyrir árið 2026. Bréf eftirlitsnefndarinnar er klárlega áminning til borgarinnar um að nú sé alvaran að taka við á ný og nú sé tími til að huga að því að uppfylla lágmarksviðmiðin því það styttist í að þau taki gildi. Fjárhagsstaðan er ekki góð í Reykjavík eins og fjárhagsáætlun 2025 ber vott um. Flokkur fólksins tekur undir varnaðarorð eftirlitsnefndarinnar og vonar að á hana verði hlustað.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. desember, þar sem óskað er eftir því að borgarráð samþykki heimild til að framlengja samningi við Gjaldheimtuna ehf. og Momentum greiðslu- og innheimtuþjónustu ehf. um milli- og löginnheimtu..
Flokkur fólksins skilur að það þurfi að vera eitthvert skipulag á innheimtu vangoldinna greiðslna. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lengi haft áhyggjur af þeim hópi sem ekki getur greitt reikninga sína vegna sárafátæktar, fólk sem á ekki mat á diskinn. Fyrst þegar ákveðið var að innheimtustofnanir önnuðust innheimtu skulda fannst Flokki fólksins gengið of harkalega fram því skuldir smáar sem stórar voru sendar í lögfræðiinnheimtu með ómældum lögfræðikostnaði. Sýna þarf hópi þeirra sem verst eru settir og hafa ekki getað greitt reikninga sína meira umburðarlyndi og skilning. Auka mætti valmöguleika, t.d. auka greiðsludreifingu almennra krafna til enn lengri tíma og fresta gjalddögum í meira mæli.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. desember sl., á tillögu um skóla- og frístundastarf í Laugardal, ásamt fylgiskjölum.
Vísað til borgarstjórnar.
Bókun Flokks fólksins sem ekki fór inn
Fagna má að óvissu er lokið, í bili allavega. Í Laugardal ríkir djúpstætt vantraust á borgaryfirvöldum eftir að íbúar hafa verið dregnir á asnaeyrunum í þessu máli um marga ára skeið. Um Sviðsmynd 1 var sátt og á annað ár töldu íbúar að hún væri í undirbúningi. Flokkur fólksins lagði til að sviðsmynd 1 yrði fylgt en tillagan var felld. Eins og blautri tusku var því slengt framan í íbúa að fallið hafi verið frá Sviðsmynd 1 og Sviðsmynd 4 valin, gjörólík sviðsmynd sem kallar á byggingu nýs safnsskóla og að fórna farsælum skólum. Í annað sinn var farið af stað með undirskriftasöfnun og rituðu á annað þúsund manns undir að virðingu og íbúalýðræði verði virt við ákvörðun um framtíðaruppbyggingu skólanna í Laugardal. Enn var ekkert hlustað. Nýr unglingaskóli mun því rísa fyrir unglinga á skólasvæði skólanna þriggja, Langholtsskóla, Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla, auk nemenda sem búa á nærliggjandi uppbyggingareitum. Skólarnir þrír verði allir yngri barna skólar. Af samantekt umsagna má glögglega sjá að hagaðilar höfnuðu þeirri sviðsmynd algjörlega. Hér er verið að hunsa íbúalýðræði og samráð. Fulltrúi Flokks fólksins harmar þetta ferli allt. Vinna hefði átt málið betur á öllum stigum
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. desember 2024: Lagt er til að borgarráð veiti heimild til að fara í útboð og ganga frá kaupum á færanlegum kennslustofum auk samtengdra ganga og salerna vegna viðhaldsframkvæmda, fyrir skólastarf í Laugardal, í samræmi við framlagða fjárfestingaáætlun Reykjavíkurborgar 2025.
Hér er verið að teikna upp nýja sviðsmynd með nýjum veruleika. Setja á upp færanlegar kennslustofur á KSÍ bílastæðinu við Reykjaveg. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur að aðkomu, aðgengi og umferð þarna þegar allt er komið. Það verður erfitt með Reykjaveginn, t.d. ef börnin fara yfir í skólann í listasmiðjur, hádegismat, bókasafnið eða íþróttir (eftir því hvað verður hægt að hafa opið). Það þarf því fyrst og fremst að tryggja umferðaröryggið yfir Reykjaveginn. Finna þarf leiðir til að tryggja öryggi barna á leið yfir og meðfram götunni en lausnir, staðsetning þeirra og útfærslur þarf að vinna í samráði við nemendur, íbúa, starfsfólk og stjórnendur skóla- og frístundastarfs. Vissulega er kostur að krakkarnir geti nýtt skólabygginguna og aðra hluti sem hægt verður að samnýta vegna nálægðar við Laugarnesskóla. Einnig þarf að drífa í að setja upp leiksvæði á grasblettinum sunnan megin við gámaskólana svo börnin geti líka verið þar.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. desember 2024, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað við menningarnótt, sbr. 13. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 30. ágúst 2024.
Óskað var eftir sundurliðaðri greinargerð um kostnað Reykjavíkurborgar vegna menningarnætur undanfarin þrjú ár, 2022-2024. Þar verði m.a. yfirlit um aðkeypta þjónustu vegna viðburðarins með sundurliðuðum upplýsingum um aðila og upphæðir. Ef svör eru skoðuð má sjá að það vantar sundurliðun á hver rekstrarkostnaðurinn er og hver aðkeypta þjónustan er. Þessu tvennu er blandað saman. Fyrirspurninni er því ekki svarað að fullu. Varla er t.d. flókið að nefna þá aðila/fyrirtæki sem keypt var af, hvað var keypt og hvað það kostaði.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember 2024.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðarinnar:
Óskað var upplýsinga um hvort ákveðið hafi verið að byggja bryggju yfir leirur og gera göngustíg út í sjó þar sem á að vera útsýnispallur í miðju leirunnar, í samræmi við tillögu FOJAB arkitekta. Í svari segir „í tillögugerðinni verður lífríki Grafarvogs alltaf sett í forgrunn“. Hugmyndir um útsýnisbryggju yfir leirur Grafarvogsins eru fjarri því að tekið sé tillit til lífríkisins að mati Flokks fólksins. Slíkum hugmyndum á að hafna strax. Þær eiga ekki að koma til álita. Hafa áhrif þessarar tillögu á náttúru og fuglalíf verið könnuð og ef svo er hver er niðurstaða þess? Aðilar eins og Náttúrufræðistofnun og Landvernd hafa lýst yfir áhyggjum sínum af þessari tillögu og m.a. sagt: „Sú aðalskipulagsbreyting sem liggur hér til umsagnar mun að óbreyttu ganga gegn verndargildi svæðisins.“ Er slíkt m.a. byggt á tillögu FOJAB arkitekta, líklega vegna þess stíls og arkitektúrs sem þar er sýndur. Í þeirri tillögu er verið að setja göngubrú út í leirurnar. Er það von Flokks fólksins að farið verði vel yfir athugasemdir Náttúrufræðistofnunar sem eru vel unnar og benda á hvað þetta er viðkvæmt og mikilvægt svæði fyrir fjörulíf.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 2. desember 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðarinnar:
Flokkur fólksins er sammála bókun íbúaráðs Grafarvogs frá fundi ráðsins í desember. Í bókuninni segir: „Íbúaráð Grafarvogs gerir alvarlegar athugasemdir við nýjar framkvæmdir við strætóskýli við eystri akrein Strandvegar við gatnamótin við Rimaflöt. Láðst hefur að gera útskot við skýlið svo stöðvun vagna við skýlið mun enn auka á umferðarteppur sem myndast þarna. Nú þegar eru miklar tafir á umræddum vegi, sérstaklega á annatímum og í ljósi þess að íbúum og starfsemi í Gufunesi hefur vaxið verulega. Ráðið óskar eftir að þetta verði lagfært sem allra fyrst, útskot fyrir vagna gert við skýlið og hæð gangstéttarbrúnar lækkuð.“ Það getur ekki verið mikil aðgerð að gera útskot við strætóskýlið til að liðka fyrir umferð. Flokkur fólksins leggur áherslu á bætt flæði umferðar í borginni. Flokkur fólksins hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að aðgengi hreyfihamlaðra sé gott í almenningssamgöngur og því styður Flokkur fólksins þessa bókun.
Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 6. desember 2024, varðandi tillögur vegna stofnunar nýs félags um rekstur almenningssamgangna, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum.
Hér er um mjög miklar breytingar að ræða vegna stofnunar nýs félags um rekstur almenningssamgangna.
Nýtt mál
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort styðja á við kennara í Laugarnesskóla vegna alls þess rasks og óvissu sem ríkt hefur í uppbyggingu skólahúsnæðis í Laugardal
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort Reykjavíkurborg hyggist styðja eitthvað við kennara í Laugarnesskóla í þessum sviptingum sem framundan eru. Benda má á að samkvæmt tímalínu sem kynnt er þá er áætlað að fyrstu húsin komi ekki fyrir en eftir að næsta skólaár er hafið. Margir kennarar eru búnir að pína sig til að starfa áfram, þeim er alltaf sagt að það sé bara eitt skólaár í viðbót. Þá var áfall fyrir marga að heyra að þetta verði ekki klárt fyrir byrjun næsta skólaárs. Einnig er óskað upplýsinga um hvaða mótvægisaðgerða borgin ætlar að grípa til vegna fyrirsjáanlegrar skerðingar á vinnuaðstöðu starfsfólks Laugarnesskóla og í framhaldinu uppbroti á skólagerðinni.