Velferðarráð 5. október 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 26. september 2022, með bókun mannréttinda- og ofbeldisvarnaráðs um stöðu heimilislausra kvenna í Reykjavík, sbr. 3. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnaráðs frá 22. september 2022:

Flokkur fólksins styður heilshugar þessa bókun mannréttinda og ofbeldisvarnarráðs. Fulltrúi Flokks fólksins var á þessum fundi mannréttindaráðs þar sem borgarfulltrúar fengu kynningu á Konukoti. Húsnæðið er löngu sprungið og það hentan engan veginn fyrir þá starfsemi sem þar fer fram. Allir borgarfulltrúar voru sammála um að það verði fundið hentugra húsnæði undir starfsemi Konukots sem fyrst.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðunni í gistiskýlum velferðarsviðs:

Aukið álag er á neyðarskýli Reykjavíkurborgar fyrir heimilislausa, stór hluti þeirra sem leita í neyðarskýlin eru í þörf fyrir langtímaúrræði innan heilbrigðiskerfisins. Mikilvægt er að bregðast við aukinni þjónustuþörf með því að fjölga gistirýmum auk þess sem að ríkið bregðist við og standi undir þeirri lagaskyldu sem á því hvílir og komi á fót hjúkrunarrými fyrir þann hluta hópsins sem glímir við mikinn heilsubrest. Ótækt er að ekkert heilbrigðisúrræði standi þeim hópi til boða. Um þriðjungur þeirra sem þangað leita koma úr öðrum sveitarfélögum eða eru án kennitölu. Mikilvægt er að skerpa á samtali við önnur sveitarfélög og við ríkið um þátttöku í kostnaði því við viljum að sjálfsögðu ekki vísa nokkrum frá í neyð.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 5. október 2022, um hækkun tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings:

Flokkur fólksins fagnar tillögu um hækkun tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings. Flokkur fólksins lagði til svipaða tillögu um endurskoðun reglna um sérstakan húsnæðisstuðning í borgarráði 30. júní 2022. Það vekur furðu að þegar Flokkur fólksins lagði til samskonar tillögu var kostnaðurinn metinn á 24-30 m.kr. á ári og metið sem svo að auka þyrfti fjárheimildir. Umsögn velferðarsviðs barst Flokki fólksins 14. september. Það er athyglisvert að nú aðeins 3 vikum síðar er samskonar aðgerð meirihlutans metin innan fjárheimilda. Flokkur fólksins fagnar þessari viðhorfsbreytingu hjá meirihlutanum því batnandi mönnum er best að lifa.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Félagsbústaða, dags. 5. október 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um kvartanir vegna raka/myglu í íbúðum Félagsbústaða, sbr. 8. lið fundargerðar velferðarráðs 31. ágúst 2022:

Athyglisverðar upplýsingar berast í svari. Segir að árið 2021 hafi verið farið í 260 úttektir vegna myglu og raka. Í 15 tilfellum varð leigjandi að flytja út. Nú er spurning hvort þetta telst mikið eða lítið. Skoða þarf svona mál í samhengi og bera þessar tölur saman við tölur fyrri ára. Í upphafi síðasta kjörtímabils fékk fulltrúi Flokks fólksins mörg símtöl og skeyti vegna rakamála í íbúðum Félagsbústaða. Þeim kvörtunum hefur farið fækkandi sem þýðir að þjónusta og almenn viðbrögð við kvörtunum af þessum toga hefur batnað.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 5. október 2022, við fyrirspurn fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um innheimtu leigu og rétt til félagslegs leiguhúsnæðis að loknu útburðarferli, sbr. 10. lið fundargerðar velferðaráðs frá 31. ágúst 2022:

Almennt séð hafnar Flokkur fólksins því að skuld leigjenda sé send í innheimtu til lögfræðinga. Flokki fólksins finnst gengið of harkalega fram við skuldsett fólk. Það leikur sér enginn að því að skulda. Ef leiga er ekki greidd á eindaga er send innheimtuviðvörun 14 dögum frá eindaga húsaleigu. Ef húsaleiga er ógreidd 28 dögum eftir eindaga fer leigukrafa í milliinnheimtu til Motus. Þar er greiðanda gefinn 7 daga frestur til þess að ganga frá greiðslu eða samkomulagi. Sé ekki brugðist við innheimtuviðvörun getur útburðarferli tekið við ásamt auknum innheimtukostnaði. Því er spurt hvort að viðkomandi eigi rétt á félagslegu leiguhúsnæði að loknu útburðarferli? Hér þarf að fara mildari leiðir. Sá sem skuldar er ekki betur settur þegar á skuldina eru komnir dráttarvextir. Útburðarmál eru andstyggileg mál. Flokkur fólksins vonar að vandað sé hvert skref í þessum málum og leigjendur fái það svigrúm sem þeir þurfa til að ýmist koma í veg fyrir útburð eða að fá annan samastað áður en kemur til útburðar. Enginn á að búa á götunni.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 5. október 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um heilbrigðisþjónustu og nýtingu smáhúsa, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs frá 31. ágúst 2022:

Borist hefur svar við fyrirspurn Flokks fólksins um heilbrigðisþjónustu fyrir íbúa og nýtingu smáhýsa á Granda. Einnig var óskað upplýsinga um nýtingu smáhýsanna. Hafa komið tímabil sem eitt þeirra eða fleiri eru ekki í notkun? Ef svo er hversu lengi og af hvaða ástæðu? Flokkur fólksins þakkar svörin en þar segir að heilbrigðisþjónustu til þeirra einstaklinga sem leigja smáhýsi sé eins háttað og hjá öðrum íbúum höfuðborgarsvæðisins. Heilbrigðisþjónusta er á vegum ríkisins en ekki borgarinnar. Íbúar eru margir hverjir með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þeir hljóta að þurfa mikla umönnun vegna þess. Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar frá starfsmönnum um að þeir hafi áhyggjur af heilsufari íbúa og að þeir telji sig ekki geta veitt næga umönnun. Spurning hvort hægt væri að ráða heilbrigðismenntaðan starfsmann sem ætti auðveldara með að beina íbúum í rétta heilbrigðisþjónustu. Varðandi nýtingu virðist hún ágæt, en langan tíma tekur að standsetja húsin milli leigjenda. Hvert hús er dýrmætt og því þarf að flýta öllu slíku.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra, dags. 5. október 2022, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um niðurstöðu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir:

Borist hefur svar við fyrirspurn Flokks fólksins um niðurstöðu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaráætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins óskaði upplýsinga varðandi vinnu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Umræddur stýrihópur starfaði á tímabilinu jan.- apríl 2022. Nú er kominn október og fram til þessa dags hefur ekki borið á niðurstöðum þessa stýrihóps. En sjá má að á dagskrá þessa sama fundar er þarfagreining á neyðarskýlum fyrir konur. Flokkur fólksins telur núverandi húsnæði neyðarskýlis mjög óhentugt og fara þarf í að finna nýtt húsnæði hið fyrsta. Fram kemur að tvær aðgerðir eru ekki hafnar og er önnur þeirra afar mikilvæg og má hún ekki dragast lengur. Hún lýtur að því að kanna stöðu heimilislausra með ákominn heilaskaða og dulda fötlun.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að velferðarsvið styðji við foreldra í uppeldishlutverkinu:

Flokkur fólksins leggur til að velferðarsvið styðji við foreldra í uppeldishlutverkinu. Það er m.a hægt að gera með aukningu á framboði á foreldranámskeiðum. Einnig væri hægt að gefa út bækling með góðum ráðum til foreldra um fjölgun samverustunda með börnum sínum og takmörkun á notkun snjalltækja.

Íslensk ungmenni mælast með minni félags- og tilfinningagreind en ungmenni í nágrannalöndum okkar. Embætti landlæknis hefur mælt hamingju fullorðinna Íslendinga og ungmenna í nær tvo áratugi. Gögnin sýna að Íslendingar hafa aldrei mælst jafn óhamingjusamir og nú. Börn og unglingar eyddu meiri tíma með foreldrum sínum í faraldrinum en ólíkt því sem gerðist í efnahagshruninu 2008 urðu þau óhamingjusamari í heimsfaraldrinum. Þannig að þrátt fyrir aukna samveru unglinga með foreldrum sínum á covid-tímum urðu börn óhamingjusamari vegna skorts á umhyggju foreldra. Sennilega voru foreldrar minna til staðar fyrir börn sín í heimsfaraldrinum vegna fjarvinnu og eða viðveru í snjalltækjum. Þessi rannsókn sýnir fram á hvað samvera og gæðastundir skipta miklu máli fyrir hamingju ungmenna. Samkvæmt ársskýrslu velferðarsviðs hafa tilvísanir til stoðþjónustunnar vegna tilfinningalegs vanda aukist um 63%. Þessar upplýsingar vekja ugg og eru vísbending um að eitthvað sé að í þjóðfélaginu. Flokkur fólksins vill bregðast við þessum vanda með því að auka framboð á foreldranámskeiðum og gefa út bækling með góðum ráðum til foreldra um fjölgun samverustunda með börnum sínum og takmörkun á notkun snjalltækja.