Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á mögulegum trjáfellingum í Öskjuhlíð vegna erindis Samgöngustofu til Reykjavíkurborgar, dags. 27. maí 2024.
Sennilega er fátt annað hægt að gera en að fjarlægja þessi háu tré og setja lægri tré og trjágróður í stað þeirra sem fjarlægð eru eins og t.d. lauftré, birki, reynivið, selju, hlyn eða gullregn. Allt tegundir koma til greina sem ekki vaxa beint upp heldur líka til hliðar sem gerir það að verkum að auðvelt er að hindra hækkun þeirra sem ekki er hægt að gera þegar um sitkagreni er að ræða. Mörgum þykir þetta miður en flugöryggi verður ávallt að ganga fyrir. Fram kemur í erindinu frá Isavia að í undangengnu samkomulagi milli ríkis og borgar um framtíð og hlutverk Reykjavíkurflugvallar hefur verið ákvæði um að fara þurfi í trjáfellingar í Öskjuhlíð en Reykjavíkurborg hefur aðeins framkvæmt lítinn hluta af því verkefni. Nú er svo komið að trjágróður í Öskjuhlíð er farinn að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13 og ekki er hægt að una við það.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. janúar 2025, yfir alþjóðleg rannsókna- og nýsköpunarverkefni hjá Reykjavíkurborg og yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa frá júní 2022 til desember 2023.
Beinn fjárhagslegur ávinningur borgarinnar af alþjóðasamskiptum er áætlaður um einn milljarður á síðustu fimm árum. Þessi áætlun er auðvitað bara einhver tala út í loftið því það er eiginlega vonlaust að áætla skammtíma eða langtíma fjárhagsleg áhrif af þátttöku borgarfulltrúa og eða embættismanna á einhverjum fundum eða ráðstefnum út í heimi. Ef ferðir eru styrktar af alþjóðlegum sjóðum er sjálfsagt að mæta til leiks. Með tilkomu internetsins er hægt að að fylgjast með straumum og stefnum, þróun og nýsköpun og öllu mögulegu öðru eftir atvikum. Það byggist á hverjum og einum stjórnmálamanni og starfsmönnum hversu mikinn áhuga þeir hafa á að afla sér þekkingar, miðla þekkingu og innleiða hana í sitt starf. Einnig með tilkomu tækni er auðvelt að vera í samstarfi. Hér er ekki verið að gera lítið úr mikilvægi þess að fara á staðinn í þeim tilfellum þar sem verið er að ræða viðkvæm mál sem kallar á nærveru og nánd aðila. Almennt er það mat fulltrúa Flokks fólksins að margar ferðir sem farnar eru skila þegar upp er staðið afar takmörkuðu öðru en upplifun þess sem fer.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðsviðs, dags. 9. desember 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 6. desember 2024, varðandi tillögu um breytingar á reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
Breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk á grundvelli þess að innleiðingartímabilið samkvæmt bráðabirgðarákvæði I í lögum nr. 38/2018 er nú lokið og hefur verið samþykkt af velferðarráði. Mikilvægt er að ekki verði rof í þjónustu. Framundan eru örugglega fleiri breytingar á þessum reglum eftir því hvernig fram vindur. Ekki er hægt að taka undir það að árlegur fjöldi nýrra samninga um notendastýrða persónulega aðstoð miðist við samþykkta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar ár hvert. Fjárhagsáætlun hefur hingað til ekki gert ráð fyrir því að allir samningar verði fjármagnaðir. Hér er um að ræða þjónustu sem fólk á rétt á.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 15. janúar 2025, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. janúar 2025, á tillögu um endurskoðaða aðgerðaráætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Um er að ræða tillögu stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir um nýja aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt árið 2019 en aðgerðaráætlunin með henni fór síðan tveimur árum síðar í endurskoðun. Margt hefur áunnist svo sannarlega, 29 aðgerðum er lokið. Fimm eru í ferli. Flokkur fólksins vísaði 2 tillögum til stýrihópsins, annarri um aukinn opnunartíma neyðarskýla. Flokkur fólksins lagði líka til að bæta og efla heilbrigðisþjónusta við þennan hóp. Í kjölfar samtals við ríki samþykkti ráðuneytið að ráðstafa 30 m.kr. til að tryggja heimilislausu fólki betra aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.
Það er verkefni að fá önnur sveitarfélög til að sinna þessum málum. Mest um vert er þó að borgin reyni að sinna þessum hópi vel t.d. t.d. byggi húsnæði og hafi neyðarskýli opin helst allan sólarhringinn. Önnur sveitarfélög virðast hafa hafnað því að styðja við þennan hóp sbr. það sem segir í gögnum “Engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu umræddra sveitarfélaga í kjölfar þessarar vinnu sem bendir til áhugaleysis sveitarfélaganna til úrbóta”. Þetta er auðvitað bagalegt.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram erindi Þróttar, dags. 7. janúar 2025, varðandi fyrirhugaða uppbyggingu unglingaskóla í Laugardal:
Í málflutningi meirihlutans í borginni um staðsetningu safnskóla sem rísa á í Laugardal á reiti Þróttar hefur verið látið að því liggja að Þróttur sé sammála og sáttur við ákvörðunina en svo er aldeilis ekki. Í umsögn frá félaginu kemur fram að „Reykjavíkurborg hefur engar heimildir til að einhliða taka til baka svæði sem Þróttur hefur ótímabundin endurgjaldslaus afnot af samkvæmt samningi aðila frá 12. desember 1996“. Ennfremur segir: „Þau samningsbundnu afnotaréttindi eru eingöngu bundin því skilyrði að Þróttur hafi áfram starfsemi í Laugardalnum, en engin breyting hefur orðið þar á frá því samningurinn var gerður og slík breyting er ekki fyrirsjáanleg.“ Þróttur er því ekki knúinn til að láta lóðina Miðheima af hendi og við lestur umsagnarinnar stendur það heldur ekki til. „Einhliða takmörkun Reykjavíkurborgar á afnotarétti Þróttar samkvæmt samningi félagsins við Reykjavíkurborg er enn fremur óheimil. Afnotaréttur Þróttar að lóðinni verður ekki skertur nema með samkomulagi Þróttar og Reykjavíkurborgar, þar sem ákvæðis 6. gr. samningsins frá 1996 væri gætt til hins ítrasta“. Af þessu má sjá að Þróttur er hvergi nærri að fara að afhenda afnotaréttinn til borgarinnar og furðar sig á málflutningi borgarstjóra sem er á skjön við allan raunveruleika.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 16. desember 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs 9. desember 2024, varðandi tillögu um breytingu á skipuriti skóla- og frístundasviðs:
Meirihlutinn telur að í nýju skipuriti birtist bæði skilvirkni og faglegur metnaður sem skilar sér í faglegu starfi innan stofnana skóla- og frístundasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort hægt hefði verið að ganga lengra í að breyta skipulagi starfseminnar í því skyni að auka skilvirkni enn frekar og þar með auka hagræðingu. Svo virðist sem eigi að fjölga einingum. Sameining er leiðin til að bæði hagræða og auka skilvirkni. Því hefði verið betra að sjá meira að slíku en fjölgun eininga.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 13. desember 2024. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 8. lið fundargerðarinnar:
Liður 2: Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir varnarorð sem fram koma í bókun fulltrúa Reykjavíkurborgar í fundargerðinni. Þar segir m.a. „Stök fargjöld og 12 mánaða kortin eru komin að sársaukamörkum og því varhugavert að hækka þessa flokka enn frekar á þessum tímapunkti. Sú gjaldskrárstefna sem er í gildi gengur út frá rekstrarkostnaði og vísitöluhækkunum en hefur enga snertingu við verðteygni, notkun eða samkeppnishæfni við aðra ferðamáta“. Það er nokkuð ljóst að mati Flokks fólksins að erfitt verður að auka notkun almenningssamgangna ef fargjaldið er orðið svo hátt að fólki finnist ekki borga sig að nota strætó. Flokkur fólksins hvetur stjórn Strætó bs. til að halda aftur af verðhækkunum á fargjöldum í strætó. Finna þarf aðrar leiðir til að halda Strætó bs. á floti.
Liður 8: Í fundargerð kemur einnig fram að íbúar við Skúlagötu hafi kvartað yfir hávaðamengun vegna endastöðvar strætó þar. Ástandið þar er að mati fulltrúa Flokks fólksins óásættanlegt. Fulltrúi Flokks fólksins telur brýnt að brugðist verði við þessum kvörtunum og fer fram á að stjórn Strætó bs. taki þessar kvartanir alvarlega.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. janúar 2025. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 15. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins lagði til á fundi borgarstjórnar 7. janúar sl. að gerð verði úttekt á skipulagsferli í Álfabakka helst af óháðum aðila. Tillögunni var vísað frá en þess í stað samþykkti meirihlutinn sína eigin tillögu sama efnis. Niðurstöður slíkrar rannsóknar liggja kannski fyrir í lok árs. En núna þarf að leggja áherslu á hvernig meirihlutinn hyggst beita sér í að fá þennan óskapnað lagaðan, helst rifinn. Stöðva ætti framkvæmdir strax enda út í hött að halda áfram að reisa skemmuna þegar á sama tíma er verið að tala um breytingar á henni eða jafnvel niðurrif að hluta eða öllu leyti. Flokkur fólksins óttast að ekkert verði gert, málið verði þaggað, beðið verði eftir að fólk gefist upp eins og svo oft áður. Það er ekki aðeins hörmulegt fyrir þá sem búa í blokkinni sem snýr að vöruskemmunni heldur öll nærliggjandi hús en í þeim mörgum búa 60 ára og eldri sem sækja félagsstarf í þjónustumiðstöð í Árskógum 4. Í Árskógum 2 er hjúkrunarheimilið Skógarbær. Við skemmuferlíkið er íþróttavöllur ÍR. Aukin umferð flutningabíla við íþróttavöllinn mun skapa hættu þegar börn sækja íþróttasvæðið hvort sem þau eru gangandi eða hjólandi.
Nýtt mál
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um aukna gæslu á göngum og á salernum grunnskólanna vegna aukins ofbeldistilvika
Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til skóla- og frístundaráðs að hefja endurskoðun á eineltisstefnu og viðbrögðum grunnskóla Reykjavíkurborgar við einelti og öðru ofbeldi. Í endurskoðuninni skal huga að því að tímabært er að auka eftirlit utan skólastofunnar í grunnskólum borgarinnar, svo sem á göngum, salernum og jafnvel einnig í útiveru.
Greinargerð
Ítrekað hafa komið upp atvik þar sem börn hafa orðið fyrir aðkasti, áreiti, áreitni og jafnvel grófu ofbeldi t.d. inn á salernum skóla borgarinnar. Þetta hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins fengið upplýsingar um. Skólar borgarinnar þurfa aukinn stuðning frá borgaryfirvöldum til að takast á við vaxandi ofbeldi innan sumra skóla borgarinnar. Spyrna þarf fótum við þessari vá hið snarasta. Kalla þarf eftir upplýsingum frá foreldum og samvinnu við foreldrasamfélagið um þessi mál, þróun og lausnir.