Borgarráð 15. desember 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. desember 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2022 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði 3 í Vogabyggð:

Bílastæði eru ekki heimil innan lóða íbúðabygginga á svæðinu. Heimilt er að vera með bílakjallara frá götuhæð. Þetta er galli að mati Flokks fólksins og munu margir þeir sem eru háðir bílum til að komast leiðar sinnar ekki geta búið þarna. Bílastæði fyrir fólk með hreyfihömlun eru staðsett við Kænuvog og Súðavog. Hvernig á fólk að komast frá stæði og að útidyrum sínum? Mörg þessara nýju hverfa eru aðeins fyrir ákveðna hópa samfélagsins, þ.e. þá sem geta lifað bíllausum lífsstíl. Hér er verið að mismuna fólki. Fordómar í garð fólks sem þarf eða vill nota bíl hafa aukist á vakt síðasta og þessa meirihluta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðar 10 tillögur starfshóps um útfærslu á sameiningu íþrótta- og tómstundasviðs  og menningar- og ferðamálasviðs, í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 21. júlí 2022:

Það er greinilega búið að leggja mikla vinnu í að útfæra þessa sameiningu. Aðalmarkmiðið hlýtur að vera að hagræða, spara og einfalda en veita jafnframt framúrskarandi þjónustu. Verið er að gera eitt svið úr tveimur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki skýrt hver sparnaðurinn og hagræðingin verður með sameiningunni. Því er þó fagnað að ekki þurfi að koma til uppsagna. Sá kostnaður, um 100 milljónir sem nefndur er í greinargerð starfshópsins, er m.a. fyrir aðkeypta ráðgjöf. Annað er óútfylltur tékki. Sameiningin mun hafa í för með sér útgjöld sem spyrja má hvort séu nauðsynleg. Undirbúa á nýja aðstöðu fyrir sameiginlegt svið í Borgartúni. Flokkur fólksins vill benda á kolefnisspor í þessu sambandi og að það er í lagi að nota eldri búnað. Gæði þjónustu eru ekki tengd einhverjum fínheitum eða glamúr. Búið er að ráða hönnuði sem öllu jafna kalla á mikil útgjöld. Mörg dæmi eru um að „svona vegferð“ beri með sér fyrirsjáanlega hagræðingu og sparnað en síðan hefst „þensla“ í kringum hið nýja konsept sem leiðir til þess að sameiningin verður þegar upp er staðið mun kostnaðarsamari en Reykjavíkurborg ræður við um þessar mundir. Fyrir liggur að fjárhagur borgarinnar er kominn fram á heljarþröm.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð og eftir atvikum borgarstjórn samþykki hjálagða tillögu nefndar um tilnefningar og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkurborgar, dags. 13. desember, að skipan í stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur, Félagsbústaða hf. og Faxaflóahafna sf. Kosning í fimm manna stjórn Félagsbústaða kallar á breytingu á samþykktum:

Flokkur fólksins hefur áður bókað um mikilvægi þess að í stjórn fyrirtækja og félaga í eigu borgarinnar eða á hennar vegum séu aðilar með fagþekkingu á viðkomandi sviðum. Velja á þá hæfustu í hvert sinn til að tryggja velfarnað og fagmennsku félagsins/fyrirtækisins. Það hefur ekki reynst vel í sumum bs-fyrirtækjum að í stjórnum hafi verið pólitískir fulltrúar sem ekki hafa haft vit á rekstri þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2022, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. desember 2022 á tillögu um samstarf við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík:

Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður hvernig komið er í skólamálum í Staðahverfi. Á síðasta kjörtímabili stóð þáverandi meirihluti borgarstjórnar fyrir því að loka eina grunnskólanum í Staðahverfi, Korpuskóla, og í ár hafa málefni leikskólans í Staðahverfi, Bakka, verið mikið til umfjöllunar. Nú stefnir í einkarekstur sem eins konar „neyðarúrræði“ vegna fámennis í Staðahverfi þrátt fyrir að margir foreldrar hafi sótt um að fá pláss fyrir börn sín en verið synjað. Hluti af vandræðaganginum er sagður vera mannekla. Þrátt fyrir það tilkynnti meirihlutinn við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar að segja ætti upp starfsfólki á leikskólum sem ráðnir höfðu verið sérstaklega til að annast hólfun í COVID. Það er ekki ljóst hvað er rétt og hvað er rangt í starfsmannamálum leikskóla borgarinnar. Er mannekla eða ekki? Þetta mál lyktar sérkennilega. Mjög líklega er fyrir löngu búið að ákveða að einkavæða þennan leikskóla. Sé fámenni og mannekla er líklegt að sá vandi loði við einkarekstur jafnt sem annars konar rekstrarfyrirkomulag nema launin í einkareknum leikskóla sé þeim mun hærri en í borgarreknum leikskólum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 1. desember 2022, varðandi starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 9. desember 2022:

Lögð er fram starfs- og fjárhagsáætlun SSH. Fram kemur að starfsemi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi verið efld á undanförnum árum og á árinu 2023 verður starfsemi samtakanna efld enn frekar og byggð áfram upp á þeim grunni sem fyrir er. Starfsfólki er fjölgað. Flokkur fólksins veltir því fyrir sér hversu gott það er fyrir Reykjavík ef starfsemi SSH verður efld meira en nú. Einnig er því velt upp hvort tekin hafi verið pólitísk ákvörðun um það. Er um þetta breið sátt t.d. meðal minnihlutafulltrúa? Sjálfsagt er að Reykjavík eigi í samstarfi sem þessu og sé hluti af stærri heild en þá aðeins ef það gagnast borginni sem er stærst sveitarfélaga. Sem fyrr í bs-kerfinu greiðir Reykjavík langmest en hefur ekki áhrif í samráði við það þótt fáein skref hafi verið tekin til að gera byggðasamlagskerfið ögn lýðræðislegra. Nær væri að vinna að sameiningu sveitarfélaga frekar en að efla eða fjölga byggðasamlögum. Þjónustu- og nýsköpunarsvið í sinni stafrænu vegferð hefur sem dæmi ekki þegið samflot með öðrum sveitarfélögum og hafa nágrannasveitarfélög farið fram úr borginni í einstaka stafrænum lausnum. Í tilfelli stafrænnar vegferðar hefði einmitt gagnast Reykjavík að vera í þéttu samstarfi við önnur sveitarfélög vegna samlegðaráhrifa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 6. desember 2022, sbr. samþykkt íbúaráðs Grafarvogs frá 5. desember 2022 á tillögu fulltrúa íbúasamtaka um tilnefningu í dómnefnd vegna þróunar Keldna og Keldnaholts:

Flokkur fólksins telur það af hinu góða að hafa dómnefndina sem fjölbreyttasta og að aðilar í henni komi úr ólíkum áttum enda er hér um mikilvægt skipulagsverkefni að ræða. Tryggja þarf að tenging sé við borgarbúa og aðra áhuga- og hagsmunaaðila og samráð við íbúa/borgarbúa. Þetta hverfi á að skipuleggja öllum borgarbúum til heilla.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra, dags. 5. desember 2022, varðandi tillögur vegna reglulegs eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur þann 9. desember 2022, ásamt fylgiskjölum, sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 8. desember 2022 og færð í trúnaðarbók.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við svari um upplýsingagjöf til starfsmanna vegna sameiningu íþrótta- og tómstundasviðs og menningar- og ferðamálasviðs, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. október 2022:

Flokkur fólksins skilur illa þessa tilhneigingu að kaupa rándýra ráðgjöf utan úr bæ eða erlendis frá eins og þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur gert ómælt. Hér er það sama á ferðinni. Það er eins og ekkert megi gera í borginni nema að milljónir streymi til ráðgjafafyrirtækja líkt og enginn viti neitt sem starfar hjá borginni. Spurt var um kostnað og liggur hann fyrir: Ráðgjafakostnaður er áætlaður um 3 m.kr. Gert ráð fyrir sama heildarfjölda stöðugilda á nýju sviði en að 6 stöðugildi breytist og verði laus á árinu 2023 en áætlun vegna þeirra er um 102.000 þ.kr., en þar af falla til um 50.000 þ.kr. vegna kostnaðar við starfslok, s.s. uppsagnarfrestur og orlofsuppgjör. Samkvæmt útreikningi er gert ráð fyrir að ráðningar í þessi 6 nýju stöðugildi kosti um 88.400 þ.kr. og munar þar um 13.800 þ.kr. Það kann að vera að meirihlutanum þyki 100 milljónir til eða frá ekkert tiltökumál. Sé það raunin er mikil firring í gangi þegar horft er á svarta fjárhagsáætlun þar sem núll krónur eru eftir til að greiða skuldir.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2. lið fundargerðar heilbrigðisnefndar frá 8. desember 2022:

Áhugaverðar niðurstöður koma fram í þessari skýrslu. Hávaði reiknaður sem Lden í 2 m hæð yfir jörð, er á milli 55-64 dB hjá um 300 íbúum, sem er mikið. En fram kemur að megin niðurstaða þessarar vinnu er sú að hávaði vegna flugumferðar er undir settum viðmiðunarmörkum eins og fyrir árið 2013. Frá 2013 til 2018 jókst flugumferð og var yfir 60 þúsund flughreyfingar á ári t.d. 2016, 2017 og 2018. Segir jafnframt að það sé viðbúið að flugumferð um Reykjavíkurflugvöll geti aukist eitthvað í framtíðinni en óljósara er hvort eðli hennar breytist. Ekki fer mikið fyrir því að íbúar Skerjafjarðar kvarti vegna flugvallarins, m.a. vegna hávaða hans eða það er allavega tilfinning fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir 8. lið fundargerðar innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 8. desember:2022:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvernig það geti verið í lagi að innkaupa- og framkvæmdaráð geti samþykkt að gengið sé til beinna samningskaupa við Gartner Ireland LMT um ráðgjafaþjónustu við þjónustu- og nýsköpunarsvið án undangengis útboðs. Þetta er kannski löglegt en klárlega siðlaust og er Flokkur fólksins gáttaður á að innkaupa- og framkvæmdaráð leggi nafn sitt við slíkan gjörning. Hvað liggur hér að baki? Sagt er að þetta sé til að tryggja greiningu UTR á markaði og að Gartner sé eini aðilinn sem uppfyllir kröfur borgarinnar. Flokkur fólksins hefur mótmælt að útsvarsfé borgarbúa streymi ár eftir ár til Gartner group af þeirri einföldu ástæður að hvergi er hægt að sjá hvað borgarbúar fá fyrir þennan pening. Komin er tími til að segja upp þessari áskrift sem og annarri sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur flækt sér í og minnt er á að fjárhagur borgarinnar er á heljarþröm. Reykjavíkurborg er sveitarfélag en ekki einka hugbúnaðarfyrirtæki sem er að keppast um samkeppni á heimsmælikvarða. Horfa á til annarra sveitarfélaga sem gengur vel í stafrænni vegferð og nær væri að leita ráðgjafar til Stafræna Íslands þótt ekki væri nema til að koma stafrænum lausnum í gagnið á skóla- og frístundasviði.

 

Bókun Flokks fólksins undir 8. lið fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 5. desember 2022:

Tillaga íbúaráðs Grafarvogs um að borgarráð tilnefni fulltrúa úr íbúaráði Grafarvogs og Íbúasamtökum Grafarvogs í dómnefndina um þróun Keldna og Keldnaholts auk átta fulltrúa, þrír frá Reykjavíkurborg, þrír frá landeigendum og tveir erlendir sérfræðingar. Fulltrúi Flokks fólksins finnst sjálfsagt að hverfið eigi sinn fulltrúa í dómnefndinni um þróun Keldna og Keldnaholts. Umfram allt á að skipuleggja þetta svæði öllum borgarbúum til heilla. Það er því af hinu góða að dómnefndin sé skipuð breiðum hópi.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 14. desember 2022:

Eftir lestur loftslagsstefnunnar vill Flokkur fólksins minna á tillögu flokksins um skógrækt til kolefnisjöfnunar frá Rauðavatni og langleiðina að Hengli. Þar eru mörg svæði sem henta til skógræktar. Tillagan var ekki aðeins felld heldur kaus meirihlutinn að misskilja hana illilega. Sektir bíða til Evrópu ef ekki er staðið við lofaða losun. Skógrækt reiknast sem kolefnisbinding svo og endurheimt votlendis. Á öllum Reykjanesskaga er skógrækt nærtækur kostur. Leggja þarf áherslu á að minnka sóun. Endurnýting kolefnis þarf að vera virk. Þannig á t.d. að nýta allt metan sem myndast á svæðinu sem orkugjafa. Sömuleiðis á að nýta allan glatvarma og sóun frá matvælageiranum, hefja söfnun á endurnýjanlegum úrgangi svo sem fitu sem brenna mætti í stað olíu. Landbúnaður eins og hann er stundaður hér veldur verulegri losun en kemur Reykjavík lítið við. Framleiðsla á lífeldsneyti er mjög orkukrefjandi þar sem orkunýting er aðeins um 20% og er ofmetinn kostur. Mikið er talað um orkuskipti en minna gert eða vitað um þau. Miklu betra er að nota rafmagnið beint og t.d. reyna að vera með beintengda strætisvagna við rafmagns loftlínu. Samgöngur eru lítill hluti orkunotkunar, en ástæða er til að breyta vali á samgöngumátum með tilliti til losunar.

 

Bókun Flokks fólksins undir 4. lið yfirlits skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál:

Bréf Hollvinafélags Sundhallarinnar, ódags., um fyrirhugaðar breytingar á Sundhöll Reykjavíkur. Undir þessu er langt bréf með ýmis konar athugasemdum frá Hollvinafélagi Sundhallarinnar. Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld og meirihlutann í borginni að vanda nú til verka og vinna með fólkinu í borginni í alvöru samráði. Skemmst er að minnast mistaka sem gerð voru við hönnun á búningsklefum kvenna. Flokkur fólksins barðist allt síðasta kjörtímabil fyrir því að konur fengju, eins og karlar, aftur gamla búningsklefann sinn í aðalbyggingu Sundhallar Reykjavíkur að endurgerð lokinni. Rík áhersla var lögð á þetta, ekki síst vegna þess að óvenju langur spölur er utandyra frá hinum nýju klefum og í innilaug. Konum og stúlkum í skólasundi hefur verið gert að ganga þennan veg í hvaða veðri sem er í blautum sundfötum. Athugasemdir Hollvinafélags Sundhallarinnar sem hér eru til umræðu lúta að fyrirhuguðum framkvæmdum í innviðum Sundhallar Reykjavíkur [eldri laug]. Krafist er að haldið verði í hönnun Guðjóns Samúelssonar að svo miklu leyti sem hægt er. Líka að virt verði friðun á útliti eldri byggingar, búningsklefa og sundlauginni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019:

Enn berst okkur borgarfulltrúum skeyti frá íbúum miðbæjarins. Nú síðast ákall til Heilbrigðiseftirlitsins vegna heilsuspillandi hávaðamengunar frá hátölurum Nova á skautasvellinu á Ingólfstorgi. Segir í skeytinu að helgarnar og kvöldin séu verst. Ákall íbúanna snýr ekki að skautasvelli heldur hávaðasamri tónlist frá hátölurum götunnar, langt yfir þolmörkum.

NÝ MÁL

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að borgarráð samþykki að dragi ákvörðun um að leggja niður unglingasmiðjurnar Stíg og Tröð til baka enda er höggvið gróflega í viðkvæma þjónustu:

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að dragi ákvörðun um að leggja niður unglingasmiðjurnar Stíg og Tröð til baka enda er höggvið gróflega í viðkvæma þjónustu. Nær væri að hætta að sóa fé í áskriftarsamninga ráðgjafafyrirtækja s.s. Gartner Group í Írlandi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið vill að samið verði við um ráðgjöf án útboðs. Hér er hins vegar um mikilvæga starfsemi að ræða. Starfsemi smiðjanna er ómetanleg fyrir félagslega einangraða unglinga. Að vera félagslega afskiptur og að vera ekki gefið tækifæri í samskiptum við jafnaldra er ein virkasta leiðin til að draga úr sjálfstrausti og valda lágu sjálfsmati, þá má einu gilda hverjar ástæðurnar eru. Minnt er á að leiðarljós forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar er að skapa öllum börnum og ungmennum uppeldisaðstæður og umhverfi, sem eflir sjálfstraust þeirra og sjálfsmynd, einkennist af samkennd og býr yfir viðeigandi stuðningsúrræðum, þegar þörf krefur. MSS22120078

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um nákvæmar upplýsingar um hvað felst í þeim áskriftarsamningi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið er nú enn og aftur að endurnýja við Gartner á Írlandi en milljónir hafa farið í áskrift til fyrirtækisins s.l. tuttugu ár.

Hægt er að sjá í opnu bókhaldi Reykjavíkurborgar á vefnum að þjónustu- og nýsköpunarsvið og forveri þess, skrifstofa þjónustu og reksturs, hefur verið áskrifandi að erlendri ráðgjöf Gartner Group á Írlandi í heilan áratug. Fulltrúi Flokks fólksins vill fá að vita nákvæmlega hvað felst í þeim áskriftarsamningi sem þjónustu- og nýsköpunarsvið er nú enn og aftur að endurnýja við Gartner á Írlandi. Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins fá að vita hvaða ávinning borgarbúar hafa haft af allri þessari erlendu ráðgjöf sviðsins og hverju hún hefur skilað í formi lausna eða annarra afurða sem ekki hefðu orðið til án ráðgjafar frá Gartner. Að lokum spyr fulltrúi Flokks fólksins, í ljósi aðhaldsaðgerða meirihlutans sem einna helst bitna á börnum og unglingum, af hverju er ekki tekin ákvörðun um að þjónustu- og nýsköpunarsvið láti af þessum gegndarlausu ráðgjafarkaupum frá Gartner Group á Írlandi. MSS22120079

Vísað til Stafræns ráðs