Velferðarráð 19. júní 2024

Lögð fram uppfærð niðurstaða frumkvæðisathugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk, dags. 10. júní 2024.:

Tvær ábendingar voru settar fram í niðurstöðum frumkvæðisathugunar GEV á upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk á vefsíðum sveitarfélaga. Unnið hefur verið úr þeim ábendingum. Fyrri ábendingin snýr að því að einfalda aðgengi að upplýsingum um stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Slíkt hefur verið gert. Síðari ábendingin snýr að því að ekki væri tilgreint hvort eða þá með hvaða hætti hægt sé að sækja um frístundastarf án rafrænnar innskráningar inn á Völu. Þeirri ábendingu hefur verið vísað til afgreiðslu skóla- og frístundasviðs. Að öðru leyti er engin þörf á úrbótum á þeim tíu þáttum sem voru til skoðunar.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Birtar eru niðurstöður frumkvæðisathugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) á upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk. Ekki kom fram þar nægjanlega skýrt að „engra úrbóta væri þörf“. Fulltrúi Flokks fólksins vill ítreka mikilvægi þess að skýr og skilmerkileg gögn berist með málum þegar dagskrá og fundarboð er sent út. Þá séu einnig settar með kynningar og auðvitað nýjustu upplýsingar í sérhverju máli og að þær séu settar fram með skýrum hætti. Flokkur fólksins undirbýr alla fundi sem hann á fulltrúa í af kostgæfni og byggir hann eðli málsins samkvæmt sínar bókanir á þeim gögnum sem liggja fyrir fundinn. Allt sem fram fer á fundinum sjálfum er eins og ráðsmenn vita trúnaður og má ekki vitna í. Þau gögn sem nú fylgja málinu eru skýrari. Ábending GEV er að bætt verði úr þáttum í upplýsingagjöf sveitarfélagsins um þjónustu við fatlað fólk. Einfalda þarf aðgengi að upplýsingum um stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra með því að hafa hlekk á þær upplýsingar af þeirri síðu þar sem almennar upplýsingar er að finna um þjónustu við fatlað fólk. Flest annað er í lagi og er það fagnaðarefni.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Skír og fullnægjandi gögn fylgdu með fundargögnum síðasta fundar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram samþykkt áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar, ásamt minnisblaði, dags. 14. júní 2024, um samþykkt áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins telur að ekki sé gott að kjörnir fulltrúar velferðarráðs verði skikkaðir á grundvelli samþykkta borgarinnar til að sitja í áfrýjunarnefnd. Flokkur fólksins er ekki sammála að seta í þessari nefnd eigi að vera hluti af starfsskyldum. Sú nefnd sem hér um ræðir er allt annars eðlis en hefðbundnar nefndir, ráð eða fastanefndir. Þarna eru kjörnir fulltrúar settir í þá stöðu að vera á kafi ofan í viðkvæmum persónulegum gögnum fólks á sama tíma og kjörnum fulltrúum er gert ljóst að þeir eigi aldrei að fara inn í einstaklingsmál. Hér er auk þess um töluverða viðbótarvinnu að ræða sem ekki er sérstaklega greitt fyrir. Álag á borgarfulltrúa er mikið og vinnutími langur sérstaklega hjá Flokki eins og Flokki fólksins sem hefur einn kjörinn fulltrúa og einn til vara. Áfrýjunarnefnd ætti helst að vera skipuð aðeins meirihlutafulltrúum ef kjörnum fulltrúum er á annað borð gert skyld að sitja í þessari nefnd. Meirihlutinn hefur hvort eð er ávallt síðasta orðið í þessum málum sem öðrum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á stöðu mála varðandi tímabundið húsnæði fyrir vistheimilið Mánaberg.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að starfsemi Mánabergs er löngu sprungin, nýtingin er á milli 140 og 150% að jafnaði, og þörfin fyrir nýtt húsnæði, þó tímabundið sé, er gríðarlega brýn. Á haustmánuðum 2022 samþykkti velferðarráð að kominn væri tími á að finna annað húsnæði og fól sviðinu að gera það. Nú hefur verið fundið húsnæði sem hentar starfsemi Mánabergs og Barnavernd Reykjavíkur vill gjarnan færa starfsemina þangað. Ljóst er að þessu fylgir einhver kostnaður, en hafa ber í huga að þjónustan er lögbundin og mikilvægt að hún sé í lagi. Um er að ræða viðkvæma þjónustu við börn sem verður að vera í viðunandi húsnæði. Velferðarráð vísar málinu til borgarráðs þar sem óskað er eftir fjármagni sem þarf hið allra fyrsta til þess að klára þetta mál og koma því í farveg, og sömuleiðis við það að ýta við hverfisskipulagi og undanþágum frá því.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Haustið 2022 var sviðinu falið í samráði við Eignaskrifstofu Reykjavíkurborgar að finna hentugra húsnæði fyrir starfsemi Mánabergs til að brúa bilið þar til framtíðar húsnæði er tilbúið. Fulltrúi Flokks fólksins furðar sig á því hversu hægt hefur gengið að finna húsnæði fyrir starfsemina og hvað upplýsingar til ráðsins hafa verið rýrar. Flokkur fólksins leggur áherslu á að þetta mál verði sett í forgang og starfsemi Mánabergs verði komið sem fyrst í hentugra húsnæði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram til kynningar ársskýrsla velferðarsviðs 2023.

Stærstu áskoranir velferðarsviðs er glíman við biðlista en biðlistar eru í nánast alla þjónustu, mislangir vissulega. Til að berjast við biðlistana er tvennt sem huga þarf að, í fyrsta lagi að leysa mannekluvandann sem á sér ákveðnar ástæður og í öðru lagi að finna leiðir til að laða að fagfólk. Gera þarf Reykjavíkurborg eftirsóknaverðan vinnustað. Því betur sem fólk líður í vinnunni því meiri líkur eru á að mönnun gangi betur og fleiri sæki um störf. Önnur áskorun er að auka og bæta úrræði fyrir heimilislaust fólk og fólk sem er í bráðum húsnæðisvanda. Nú bíða mörg hundruð manns eftir leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum. Samkvæmt nýjustu tölum eru 656 nú að bíða eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, 173 manneskjur á bið eftir húsnæði sem hentar þörfum fatlaðra, 66 eru á biðlista eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 50 manns á bið eftir húsnæði sem hentar heimilislausum með miklar þjónustuþarfir. Húsnæðisástandið kemur hvað verst niður á leigjendum og efnaminna fólki.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Fram fer kynning á breyttu verklagi vegna vinnslu umsókna á bið eftir skólaþjónustu:

Tæp 2000 börn bíða eftir nauðsynlegri fagþjónustu hjá Reykjavíkurborg. Setja þarf markmið um að stytta biðlista með sama hætti og Bugl gerði. Þegar það er mat skóla og foreldra að barn þurfi fagþjónustu t.d. sálfræðings eða talmeinafræðings er send tilvísun þar sem farið er yfir aðdraganda, fyrri þjónustu, skýringar á vanda barns og hvers lags þjónustu er beðið er um. Ef allt væri eðlilegt færi viðkomandi barn á biðlista og myndi ferlið byrja innan fárra vikna. Markmiðið ætti að vera að fullklára það sem beðið er um hvort sem það sé skimun, frumgreining eða önnur fagþjónusta. Þegar greinargerð liggur fyrir eru haldnir skilafundir og þar með væri barnið “útskrifað” af biðlistanum og á ekki erindi inn á hann aftur. Til að þetta sé hægt er mikilvægt að fagfólk vinni í teymum og að nægt fagfólks sé að störfum. Mestu skiptir að þjónustan sé veitt í einni lotu en ekki í bútum, ella er barnið fast á biðlistanum mánuðum saman. Gert er ráð fyrir að áður en tilvísun berst og barn fer á biðlista er vissulega snemmtæk íhlutun jafnvel löngu hafin. Að sama skapi eftir að barn útskrifast af biðlista heldur áfram eftirfylgni í samræmi við niðurstöður greiningar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um sölu afsláttarkorta til öryrkja á sölustöðum Strætó, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs frá 24. maí 2023, ásamt umsögn Strætó bs., dags. 2. maí 2024.

Lagt var til að öryrkjar fái að kaupa afsláttarkort á fleiri farmiða sölustöðum Strætó í borginni eins og aðrir farþegar en ekki eingöngu á Hesthálsi. Í umsögn segir að hlutverk Strætó sé að gæta hagsmuna eigenda sinna og að viðskiptavinir greiði rétt fargjald. En hvað með að gæta hagsmuna notenda? Mikil tortryggni skín út úr umsögn Strætó. Stjórnendur virðast sjá svindlara í hverju horni. Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið að sjá viðhorf Strætó til öryrkja. Þetta er sláandi því vitað er að ÖBÍ var búið að gera samkomulag við Strætó um að öryrkjar gætu keypt staka miða og tímabilskort á sölustöðum gegn framvísun gildra skilríkja. Rafræn skilríki eru ekki aðgengileg fyrir mörgu fötluðu og öldruðu fólki. Það neyðist því til að kaupa sér farmiða á fullu verði og þá er verið að brjóta á réttindum þeirra. Þessir einstaklingar ættu að vera síðasta fólkið sem gert er að fara upp á Hestháls til að kaupa strætómiða. Flokkur fólksins harmar að ekki sé búið að gera þær breytingar sem lofað var. Eftir því sem næst er komist er beðið eftir að eftirlitskerfi verði sett upp til að fyrirbyggja svindl sem virðist Strætó efst í huga. Sú bið er orðin ansi löng.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stofnun starfshóps um biðlista eftir skólaþjónustu í Reykjavík, sem vísað var til meðferðar velferðarráðs, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 5. mars 2024, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 15. apríl 2024.

Velferðarráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Velferðarráð samþykkir að stofna stýrihóp sem fengi m.a. þau verkefni að rýna biðlista barna og ungmenna eftir skólaþjónustu til að meta hvort framsetning listans og skráning erinda/tilvísana sé með þeim hætti að hann gefi raunsanna mynd af stöðu mála. Í nánu samstarfi við starfsfólk. Í því felst að skoða hvað mörg börn á biðlistanum hafa fengið þjónustu eða hluta af þjónustu. Einnig hvaða þjónustu var óskað eftir samkvæmt tilvísun/beiðni og meta hvaða breytingar þurfi að gera á fyrirkomulagi skólaþjónustunnar til að gera hana skilvirkari. Markmið hópsins er að stytta biðtíma barna eftir þjónustu. Stýrihópurinn leggi fram tillögur til úrbóta haust 2024. Sviðsstjóra er falið að tilnefna starfsmann stýrihópsins að útbúa skipunarbréf og sem lagt verði fram á fyrsta fundi. Eftirtaldir fulltrúar í velferðarráði sitja í stýrihópnum: Þorvaldur Daníelsson, Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Ellen Calmon.

Samþykkt.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Velferðarráð samþykkir tillögu Flokks fólksins að stofna hóp sem fengi m.a. þau verkefni að rýna biðlista barna og ungmenna eftir skólaþjónustu til að meta hvort framsetning listans og skráning erinda/tilvísana sé með þeim hætti að hann gefi raunsanna mynd af stöðu mála. Í því felst að skoða hvað mörg börn á biðlistanum hafa fengið þjónustu eða hluta af þjónustu. Einnig hvaða þjónustu var óskað eftir samkvæmt tilvísun/beiðni og meta hvaða breytingar þurfi að gera á fyrirkomulagi skólaþjónustunnar til að gera hana skilvirkari. Stýrihópurinn leggi fram tillögur til úrbóta haust 2024. Með rýningunni kæmi einnig betur í ljós þörfin á að breyta fyrirkomulagi vinnu fagfólksins svo barn sé ekki sett á biðlistann ítrekað því ekki hafi tekist að ljúka allri fagvinnunni sem beðið er um samkvæmt tilvísun. Kallað er eftir heildstæðri þjónustu og fjölga starfsfólki til að grynnka á biðlistanum. Fagfólk þarf að vinna í teymum til að frumgreining geti tekið á öllum þáttum í einni lotu og þá þarf barn ekki að fara aftur á biðlistann. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það sé mikilvægt að kafa ofan í biðlistann og á sama tíma leggja drög að breyttu fyrirkomulagi og skipulagi á vinnu fagfólks.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Flokks fólksins um leiðir til að auka áhuga sérfræðinga á störfum hjá Reykjavíkurborg, sbr. 17. lið fundargerðar velferðarráðs frá 17. apríl 2024. VEL24040034.

Vísað til sviðsstjóra velferðarsviðs.

Tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að finna leiðir til að auka áhuga sérfræðinga á störfum hjá Reykjavíkurborg er vísað til sviðsstjóra. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem meirihlutinn ætti að taka há alvarlega. Í raun strandar ótal margt einmitt á því að það vantar sérhæft fólk. Sálfræðingar eru með vinnutitilinn „sálfræðingur“. Þessi framkoma við sálfræðinga varð til þess að margir hættu störfum hjá borginni, töldu sér misboðið. Finna þarf leiðir til að laða sérfræðinga að skólaþjónustunni ef einhvern tíma á að vera hægt að vinna skilvirkt og skipulega og vinna í teymum ólíkra sérfræðinga. Fagfólkið sjálft kallar eftir meiri teymisvinnu. Verktakar hafa verið fengnir til starfa til að “redda” einhverju en verktakar geta aldrei haft sömu stöðu og launaðir starfsmenn. Verktakar eru ekki hluti af starfsliðinu og erfitt er ætlast til að þeir smelli inn á starfsstöðina eins og einn “af hópnum” þótt þeir geri án efa sitt besta.