Borgarráð 16. mars 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. mars 2023, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs á kynningu á lýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna skotæfingasvæði á Álfsnesi, ásamt fylgiskjölum.

Með þessari verklýsingu eru boðaðar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040 til að skapa skilyrði fyrir starfsemi skotfélaga til skemmri tíma á meðan fundin er framtíðarstaðsetning fyrir félögin. Flokkur fólksins óttast að hér verði ekki um að ræða til „skemmri tíma“. Það mun vissulega byggjast á Sundbraut og þeim iðnaði sem stefnt er að stilla upp þarna. Minnt er á að úrskurðurinn um að fella leyfin úr gildi var ekki að ástæðulausu. Í sextán ár hafa íbúar Kjalarness mátt þola hljóðmengun auk þess sem blý hefur safnast í jarðveginn, sjóinn og á ströndina og líklega í fuglum. Skothvellir eru enginn venjulegur hávaði. Gönguleiðin á Esjuna er í 700 m fjarlægð og bergmál skothvellanna mikið. Einhverjar leiðir hafa verið nefndar sem mótvægisaðgerðir en áhrif þeirra eru óljós. Fulltrúi Flokks fólksins hefur staðið með íbúaráðinu og íbúum sem mótmæla því að þessi starfsemi sé þarna og vill að viðeigandi svæði verði fundið fyrir þessa íþrótt. Hér er um íþrótt að ræða sem er óvenjuleg að því leyti að mikil neikvæð umhverfisáhrif hljótast af henni og er hún skaðleg fólki, lífríki og náttúru. Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að fórna svo stóru útivistarsvæði fyrir fámennan hóp skotveiðimanna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagða tillögu að loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið, dags. september 2022, sbr. beiðni Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þess efnis frá 9. mars sl. ásamt því að veita borgarstjóra umboð til að skrifa undir loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið og yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf sveitarfélaganna vegna innleiðingar stefnunnar.

Lítið er út á stefnuna að setja, þ.e. orðin á blaðinu. Það er hins vegar hvernig unnið er að henni sem má setja spurningarmerki við. Markið er sett á kolefnishlutleysi borgarinnar fyrir árið 2040. Draga á úr losun og áhersla verður einnig lögð á kolefnisbindingu. Á þessum sviðum er alltof hægt unnið. Hvar er t.d. kolefnisbindingin nema í fokdýrum lausnum sem er niðurdæling kolefnis? En ódýru aðferðinni sem er að rækta skóg er hafnað, sbr. tillögu Flokks fólksins um skógrækt til kolefnisjöfnunar frá Rauðavatni og langleiðina að Hengli. Þar eru mörg svæði sem henta til skógræktar. Tillagan var ekki aðeins felld heldur kaus meirihlutinn að misskilja hana. Leggja þarf áherslu á að minnka sóun. Það eru einfaldlega engar líkur á kolefnishlutleysi 2040 með núverandi stefnu og verkhraða. Úrgangsmál eru í lamasessi og hver er tilgangurinn með breyttri landnotkun og fræðslu? Borg er borg og þar er land notað með ákveðnum hætti, því verður ekki breytt. Endurnýting þarf að vera virk. Nýta ætti allan glatvarma og sóun frá matvælageiranum. Mikið er talað um orkuskipti en minna gert til að flýta þeim. Samgöngur eru lítill hluti orkunotkunar. Ástæða er til að breyta vali á samgöngumátum með tilliti til losunar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingu á skipan Neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar, sbr. 7. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. mars 2023. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 14. mars 2023.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Þetta er skynsamleg tillaga. Það er ávallt heillavænlegra ef minni- og meirihluti geta unnið saman. Betur sjá augu en auga. Minnihlutinn hefur ítrekað óskað samvinnu við meirihlutann og að fá aðkomu að ýmsum málum en verið hafnað. Hér er eitt dæmi slíks. Eins og neyðarstjórnin er samsett nú hafa kjörnir fulltrúar enga aðkomu að henni. Neyðarstjórnin varðar okkur öll og því sjálfsagt að deila ábyrgðinni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um óháða úttekt á starfsemi SORPU, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. mars 2023.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Búið er að vísa frá tillögu Flokks fólksins um að óháður aðili verði fenginn til að rannsaka stórfelld mistök fyrri stjórnar SORPU. Ein þeirra er móttökuflokkunarstöðin í Álfsnesi sem ákveðið hefur verið að loka. Milljarður er farinn í súginn. Varað var rækilega við að þessi framkvæmd myndi aldrei ganga en á það var ekki hlustað. Þáverandi stjórn lofaði vindflokkunarvélina Kára í hástert og út úr ferlinu kæmi moltunarhæft lífrænt efni. Fjölmargir, þ.m.t. fulltrúi Flokks fólksins, bentu á að það væri útilokað að hreinsa lífrænan úrgang með þessari tækni. Það lá fyrir, svona fyrir flestum, að molta sem unnin er úr blandaðri tunnu gæti aldrei orðið söluhæf. Þetta vill meirihlutinn ekki láta rannsaka enda hafði hann sennilega aldrei efasemdir um að moltan sú yrði fínasta afurð. Flokki fólksins finnst meirihlutinn sýna með þessu að lítil virðing er borin fyrir skattfé borgarbúa. Það þykir í lagi að spila með peninga borgarbúa í alls kyns áhættufjárfestingar sem mörg dæmi eru um. Í þessu tilfelli var ákveðið að kaupa flokkunarkerfi sem vitað var að myndi ekki skila af sér nýtingarhæfu efni. Telst þetta að taka og sýna ábyrgð? Hver kaupir kerfi sem hann veit að mun ekki virka? Ferlið þarf að rannsaka.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttekt á verklagi og vinnuháttum þjónustu- og nýsköpunarsviðs, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. mars 2023.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að borgarráð samþykkti að gera úttekt á verklagi hjá þjónustu og nýsköpunarsviði og hvernig vinnuháttum hefur verið háttað þar innandyra sl. 3-4 ár og hverju þeir fjármunir hafa skilað. Þessu er hafnað af meirihlutanum. Innri endurskoðun hefur á áætlun sinni úttekt á stafrænni innleiðingu en óttast er að hún verði afmörkuð, taki ekki á öllum þáttum. Mikil meðvirkni hefur ríkt með þennan málaflokk og hvaða vitleysisgangur sem er verið samþykktur gagnrýnislaust. Niðurlagning Borgarskjalasafns sem er undir þjónustu- og nýsköpunarsviði ber merki þess að hlutverk þjónustu- og nýsköpunarsviðs er komið úr böndum. Í stað þess að styðja sviðin við að koma rafrænum lausnum á koppinn er þjónustu- og nýsköpunarsvið farið að leggja niður stofnanir. Hvað næst? Verður kannski næsta skref að boða borgarskjalavörð á fund og skipa honum að taka poka sinn? Því miður var innri endurskoðun allt of lengi að taka við sér að gera úttekt á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Slík úttekt er fyrirhuguð 2023 en hefði átt að eiga sér stað 2020. Fjármunir hafa streymt frá sviðinu en lítið er um afrakstur. Enn sárvantar lausnir á skóla- og frístundasviði. Þegar spurt hefur verið um ástæðu er sagt að sviðið sé ekki tilbúið, hafi ekki gert sig klárt.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 22. febrúar 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um reglur vegna ritunar fundargerða hjá fyrirtækjum í eigu borgarinnar, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2022. MSS23020147

Flokkur fólksins kallaði eftir (í október 2022) reglum um fundargerðir, viðmið sem fyrirtækjum í eigum borgarinnar er ætlað að fylgja þegar kemur að fundargerðum. Ástæðan fyrir fyrirspurninni er t.d. að fundargerðir SORPU eru að verða æ rýrari svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Stikkorðastíllinn er að verða knappari. Fram kemur í svari að í gildi er auglýsing um leiðbeiningar um ritun fundargerða sveitarstjórna nr. 1180/2021 um hvað skylt er að bóka, hvað var rætt, innihald umræðu, niðurstöður og hvernig atkvæði skipuðust. Þessum þáttum er iðulega ábótavant t.d. í fundargerðum SORPU og fleiri fyrirtækjum á vegum borgarinnar. Verst er að sjá oft ekkert um niðurstöður. Af þessu má draga þá ályktun að leiðbeiningum er ekki fylgt. Fulltrúi Flokks fólksins skorar á skrifstofu borgarstjórnar sem sinnir samræmingar- og eftirlitshlutverki með fundarritun ráða og nefnda Reykjavíkurborgar að hvetja stjórnir og fundarritara bs.-fyrirtækja borgarinnar að gera betur í fundargerðaskrifum. Það er ómögulegt að fundargerðir séu fátt annað en slitrótt stikkorð. Enda þótt fyrirtækjum og byggðasamlögum sé ekki skylt að fara eftir þeim reglum sem sveitarstjórn eru settar er ekki þar með sagt að þeim leyfist að skila af sér svo rýrum fundargerðum sem raun ber vitni í mörgum tilfellum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 9. mars 2023. MSS23010025. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins tekur undir með öldungaráði í bókun þeirra um kynslóðakjarna sem hýsir margar kynslóðir, samfélag þar sem íbúar njóta stuðnings hver annars, grunnþörfum er fullnægt og gefst kostur á félagslegu samneyti ekki bara innan kynslóða heldur milli þeirra líka. Þetta er sniðug hugmynd og myndi henta mörgum. Í þróun eru 564 íbúðir fyrir eldra fólk, hluti af þeim verður í lífsgæðakjarna en öldungaráð vonar að kynslóðakjarni verði líka skoðaður í þeirri þróunarvinnu sem framundan er. Aðra hópa langar að hafa aðrar útfærslur, t.d. svæði sem tekur utan um allar þarfir og áhugamál þessara aldurshópa. Umfram allt er að það sé fjölbreytni í vali enda óskir og þarfir fólks ólíkar. Eins og staðan er núna bráðvantar úrræði og biðlisti er langur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 9. mars 2023. MSS23010032 Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ferill þessa máls hefur verið afar óvenjulegur. Fyrst var engin heimild og svo var sett heimild og síðan kom úrskurður og nú er verið að gera aðalskipulagsbreytingar til að tryggja aðstöðu fyrir Skotfélag Reykjavíkur og Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis, meðan unnið er að því að finna framtíðarstað fyrir skotæfingar og íþróttamiðstöð skotíþrótta á höfuðborgarsvæðinu. Ótti Flokks fólksins er að dampurinn mun detta úr þeirri leit þegar búið verði að skapa tímabundna landnotkunarheimild og skilgreina núverandi skotæfingasvæði á Álfsnesi sem íþróttasvæði til skemmri tíma litið. Nokkrar mótvægisaðgerðir eru nefndar en engin vissa um hverju þær skila. Þetta er allt hið versta mál. Íbúar hafa barist lengi en mengun af skotíþróttinni er afar lýjandi og heilsuspillandi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. mars 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðarinnar:

Breytingin felur í sér umtalsverðar breytingar á nærumhverfinu. Mestu áhyggjurnar eru af samnýtingu hallarinnar og óvissunni í því sambandi. Munu Ármann og Þróttur fá þarna trygga aðstöðu? Munu nemendur og félög Laugardalsins fá þarna trygga íþrótta- og æfingaaðstöðu? Ekki hefur lengi verið rætt við skólayfirvöld eða foreldra barna í Laugardal um þessi mál og þau aldrei hvorki spurð né boðið að borðinu þegar rætt er um samnýtingu. Fyrir liggur yfirlýsing frá aðalstjórn Þróttar og Glímufélagsins Ármanns þar sem fram kemur að mannvirkið eins og það er kynnt muni ekki leysa aðstöðuvanda íþróttafélaganna í dalnum. Það mun ekki anna þörf hverfisfélaganna fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka né æfingar félagsfólks og barna. Þessi félög sem hér eru nefnd munu mæta afgangi ef svo fer sem horfir. Flokkur fólksins vill að farð verði „aftur“ í umræðu um þessi mál strax þar sem ráðist verði í að tryggja aðstöðu hverfafélaganna í Laugardal enda um bráðamál að ræða. Flokkur fólksins hefur lagt fram eftirfarandi fyrirspurnir: Munu nemendur og félög Laugardalsins fá trygga íþrótta- og æfingaaðstöðu í Þjóðarhöllinni? Munu Ármann og Þróttur fá trygga aðstöðu í Þjóðarhöllinni?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 14. mars 2023, þar sem minnisblað stýrihóps samgöngusáttmálans er sent borgarráði til kynningar.

Það er ótrúlegt að meirihlutinn vildi ekki endurskoða samgöngusáttmálann eins og sum önnur sveitarfélög og einstaka fulltrúar í meirihluta brugðust við með hneykslun þegar tillaga þess efnis var lögð fram í borgarstjórn. Sú tillaga var felld. Nú hefur ráðuneytið tekið ákvörðun um að samgöngusáttmálinn verði endurskoðaður enda ærið tilefni til. Ekki er gott að átta sig á hvað olli svo sterkum viðbrögðum meirihlutans við þessari tillögu. Það er fjölmargt sem kallar á endurskoðun samgöngusáttmálans, t.d. umtalsverðar verðlagshækkanir sem orðið hafa undanfarið. Verðlag hefur hækkað um rúmlega 20 prósent síðan sáttmálinn var gerður sem hefur áhrif á allar fjárfestingar. Sveitarfélög hafa þess utan þrýst á og eru örugglega einhver uggandi. Spurning er vissulega hvort endurskoðun leiði til enn meiri tafa en ekki liggur fyrir hvenær borgarlína á að vera komin í gagnið. Samgöngur eru illa komnar í Reykjavík og á fólk erfitt með að koma sér milli staða. Endalausar umferðartafir með löngum bílaröðum. Reykvíkingar eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi meirihlutans við að leysa umferðarhnúta t.d. með bættri umferðar- og ljósastýringu. Strætó gengur illa að þjónusta fólk, þar af leiðandi fækkar frekar í þeim hópi sem notar vagnana. Vandræði með Klapp, aksturslag bílstjóra og þjónustustig spilar þar stórt hlutverk.

 

Fram fer umræða um stöðu leikskólamála. MSS22010084

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna leikskólamála:

Neyðarástand ríkir í leikskólamálum Reykjavíkurborgar. Loforð um leikskólapláss hafa ítrekað verið svikin. Leikskólaplássum hefur fækkað. Til stendur að loka alls 25 af 67 leikskólum næsta skólaár. Foreldrar eru í áfalli og miklir erfiðleikar blasa við þeim. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um hvernig meirihlutinn hyggst bregðast við þessu ófremdarástandi. Stendur til að samþykkja tillögu Flokks fólksins um heimgreiðslur/styrki sem einn af valmöguleikunum í því úrræðaleysi sem nú ríkir? Hyggst meirihlutinn samþykkja tillögu Flokks fólksins um að styrkja dagforeldrakerfið til að mæta þessu ástandi? MSS22010084

 

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að móta umgjörð og skapa sveigjanleika svo vinnustöðum gefist kostur á að opna daggæslu, eða eftir atvikum leikskóla, fyrir börn starfsmanna. Unnið verði að aðlögun reglna um niðurgreiðslur og stofnstyrki vegna daggæslu í heimahúsum svo þær taki einnig til daggæslu á vinnustað. Lausnirnar verði í framhaldinu kynntar atvinnurekendum í Reykjavík og áhugasömum veittur stuðningur til að setja á fót slík úrræði á vinnustað. Þess yrði gætt að tryggja sömu niðurgreiðslur og gæðakröfur og almennt gilda fyrir daggæslu í heimahúsum eða sjálfstætt starfandi leikskóla. MSS22010084

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að beina því til strætó að vagnstjórar geti bjargað sér á íslensku áður en þeir hefja akstur:

Lagt er til að borgarráð samþykki að beina því til Strætó að það verði gert að skilyrði að bílstjórar strætó geti bjargað sér á íslensku og skilji málið nógu vel til að leiðbeina farþegum áður en þeir hefji störf sem strætóbílstjórar. Upp hafa komið samskiptavandamál í vögnunum vegna þess að bílstjóri hvorki skilur íslensku né jafnvel ensku. Dæmi eru um að bílstjóri geti með engu móti leiðbeint farþegum sem spyrja hvar best sé að fara úr vagninum til að komast á ákveðinn stað eða annað í þeim dúr. Dæmi eru um að bílstjóri hafi sjálfur verið óöruggur um leiðina sem hann á að aka og að farþegar hafi þurft að leiðbeina honum. Skoða þarf þjónustustig Strætó ofan í kjölinn vegna fjölda ábendinga og kvartana og að hvað miklu leyti farið er eftir þjónustustefnunni. MSS23030118

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um ýmis atriði er varðar þjónustu Strætó bs sem fólk hefur verið að kvarta yfir og benda á:

Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um eftirfarandi málefni Strætó: Hvernig er fyrirkomulag afhendingar skiptimiða í strætó? Ábendingar hafa borist að ekki sé samræmi í skiptamiðaafhendingu, að ekki sé hægt að treysta því að fá skiptimiða, stundum sé því einfaldlega hafnað. Á heimasíðunni straeto.is eru engar skýringar né reglur um þetta að finna. Hvernig eru reglurnar og eru allir bílstjórar meðvitaðir um þær? Hvernig er upplýsingum um strætóferðir og fleira komið til notenda strætó? Hér er t.d. átt við upplýsingar um leiðir, sem dæmi hvaða bílar aki niður í miðbæ frá Hlemmi og hvar þeir vagnar bíða á Hlemmi (Hlemmur hefur fjórar hliðar og svo eru þar aukabiðstöðvar til hliðar). Hefur Strætó fengið leyfi til að kalla eftir og geyma persónuupplýsingar þegar nemar kaupa nemakort? Framhaldsskóla- og háskólanemendur geta fengið nemakort og við kaupin veita þeir strætó aðgang að persónulegri síðu nemenda. Stenst það persónuverndarlög að umsækjandi um nemakort skili inn staðfestingu á því að hann hafi greitt skólagjald? MSS23030117

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fjármögnun Laugardalshallar þegar Þjóðarhöll er risin:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort fjármögnun Laugardalshallarinnar verði breytt þegar Þjóðarhöll er risin, þannig að hún verði þá ekki í útleigu heldur aðeins nýtt fyrir skólana í dalnum og íþróttafélögin. Aðstöðuleysi hefur háð félögunum í Laugardal um langa hríð en borgarstjóri hefur sagt að með nýrri þjóðarhöll, sem stefnan er að rísi í Laugardal árið 2025, muni Ármann og Þróttur geta haft Laugardalshöll út af fyrir sig. Þau muni svo hafa aðgang að þjóðarhöll einnig. Þetta hefur komið fram í fjölmiðlum í viðtali við borgarstjóra. Í sameiginlegri ályktun aðalstjórna Þróttar og Ármanns vegna frumathugunar framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll í síðasta mánuði kemur fram að aðstöðuvandi hverfisfélaganna sé bráðamál sem þolir enga bið. Settir eru fyrirvarar við þá hugmynd að Þjóðarhöll leysi aðstöðuvanda félaganna. Óttast er að ný þjóðarhöll muni ekki anna þörf fyrir æfingatíma barna, unglinga og meistaraflokka og muni þurfa að víkja fyrir annarri starfsemi í höllinni rétt eins og staðan sé nú og hafi verið síðustu áratugi varðandi Laugardalshöll. Það sé óviðunandi fyrir félögin. Frá áramótum hafi alls 32 æfingadagar fallið niður í Laugardalshöll. MSS22050013

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn vegna nýtingar Þjóðarhallar og hvort börn í Laugardalnum fá að nota höllina:

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundi sínum 15. mars sl. að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna þjóðarhallar í Laugardal. Munu nemendur og félög Laugardalsins fá trygga íþrótta- og æfingaaðstöðu í þjóðarhöllinni? Munu Ármann og Þróttur fá trygga aðstöðu í þjóðarhöllinni? Miklar áhyggjur eru af samnýtingu þjóðarhallar og finnst íþróttafélögum, skólayfirvöldum, foreldrum og börnum mikil óvissa um hvort þau fái trygga notkun/aðstöðu af höllinni fyrir sína starfsemi, lögbundna (skólaíþróttir) sem aðra. Ekki hefur verið rætt við skólayfirvöld eða foreldra barna í Laugardal nýlega og þau hvorki spurð né boðið að borðinu þegar rætt er um samnýtingu þjóðarhallar. Fyrir liggur yfirlýsing frá aðalstjórn Þróttar og Glímufélagsins Ármanns þar sem fram kemur að mannvirkið eins og það er kynnt muni ekki leysa aðstöðuvanda íþróttafélaganna í dalnum. Það mun ekki anna þörf hverfisfélaganna fyrir æfingatíma fyrir börn, unglinga og meistaraflokka né æfingar félagsfólks og barna. Óttast er að félög sem hér eru nefnd muni mæta afgangi ef fram fer sem horfir. Flokkur fólksins spyr hvort ekki eigi að ræða við þessa aðila til að létta á áhyggjum þeirra. Það verður að tryggja aðstöðu hverfafélaganna í Laugardal enda um bráðamál að ræða.