Forsætisnefnd 3. mars 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Traust til borgarstjórnar – skýrsla Gallup – MSS23020139

Kannanir sýna að traust til borgarráðs er nánast ekki neitt. Hér er vissulega verið að tala um meirihlutann í borgarstjórn sem hefur öll völd og fellir eða vísar frá tillögum sem koma frá minnihlutanum. Borgarstjórn Reykjavíkur nýtur jafnframt minnst trausts þeirra stofnana sem mældar eru í þjóðarpúlsinum – 13 prósent landsmanna bera mikið traust til hennar, sem er átta prósentustigum minna en í fyrra. Fréttir af samskiptum, samráðsleysi og óheilindum hafa skemmt mikið. Braggamálið og fleiri mál af svipuðum toga skemmdu mikið fyrir meirihlutanum á síðasta kjörtímabili. Borgarbúar eru orðnir langþreyttir á slæmum samgöngum í borginni og ótryggum almenningssamgöngum. Svikin vegna leikskólamála og manneklan í leikskólum borgarinnar hefur valdið barnafjölskyldum miklum erfiðleikum. Það er ekki skrítið að traustið sé ekki meira.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Samþykkt fyrir öldungaráð – tillaga að breytingu:

Hér er verið að fækka fulltrúum í öldungaráði úr níu fulltrúum í sjö. Samtök aldraðra og Korpúlfar, samtök eldri borgara í Grafarvogi munu því ekki eiga sérstaka fulltrúa í öldungaráði eftir breytinguna. Öldungaráðið er borgarstjórn, nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar til ráðgjafar um málefni og hagsmuni borgarbúa sem eru 67 ára og eldri. Flokkur fólksins mótmælir þessari fækkun fulltrúa harðlega. Öldungaráðið er mjög mikilvægt ráð og sérstaklega í ljósi þess að eldri borgurum er að fjölga mikið í borginni.

 

Mál Flokks fólksins fyrir borgarstjórn 7. mars 2023

Borgarstjórn Reykjavíkur
7. mars 2023

Greinargerð borgarfulltrúa Flokks fólksins með umræðu um verkefnið Betri borg fyrir börn og skilvirkni þess

Reykjavík hefur illa getað sinnt lögbundinni þjónustu við börn í Reykjavík þegar kemur að tilfinningalegum, félagslegum og öðrum sálrænum vanda eins og kvíða. Þess vegna voru miklar vonir bundnar við verkefnið Betri borg fyrir börn þegar það var sett á fót, fyrst í Breiðholti. Í lýsingu á verkefninu segir að Betri borg fyrir börn miði að því að bæta þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi. Færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöð hverfisins.

Verkefnið Betri borg fyrir börn hefur ekki tekist sem skyldi alla vega ef horft er til tveggja þátta, annars vegar að fagfólk er staðsett fjarri skólaumhverfi barnanna og hins vegar að biðlisti barna eftir fagfólki skóla, einna helst sálfræðingum og talmeinafræðingum, lengist með viku hverri. Þess utan hefur innleiðing á verkefninu Betri borg fyrir börn tafist von úr viti. Það er ekki að undra ef horft er til þess flókna ferils sem farið var í. Eitthvað hefur farið úrskeiðis og telur borgarfulltrúi Flokks fólksins að skilvirkni skorti. Þegar rýnt er í ferli og skipulag þessa verkefnis má sjá ótal flækjustig og fjölmörg skref sem mætti sleppa.

Leiðin frá fagfólki til barns virðist býsna tyrfin. Sett voru á laggirnar lausnateymi með það að markmiði að málin héldust innan veggja skólanna, þ.e. að færri beiðnir bærust til „miðstöðva“ en þar eru allir sálfræðingarnir staðsettir. Í lýsingu á ferlinu segir ennfremur að með þessu minnkar t.d. þörf á erindum til sálfræðings. Það er sem sagt allt kapp lagt á að barn hitti ekki sálfræðing. Lausnateymin vinna ekki með börnunum, aðeins starfsfólki og reynt er að valdefla það. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst erfitt að horfa upp á sérstakar aðgerðir til að börn þurfi ekki að hitta sálfræðinga og lausnateymi eigi heldur ekki að vinna með börnunum heldur foreldrum. Hver á eiginlega að vinna með börnunum?

Óskað er umræðu um ferlið og samhliða spyr borgarfulltrúi Flokks fólksins þeirrar spurningar hvort það sé nokkur furða að biðlistar lengist.
Ferli Betri borgar fyrir börn:
Skipaðir voru fimm starfshópar til að koma verkefninu af stað.
Skipaður var eigendahópur verkefnisins með sviðsstjórum, formanni verkefnastjórnar og fulltrúa miðstöðva.
Settur var á laggirnar stýrihópur innleiðingar.
Skipaðar voru verkefnisstjórnir BBB á hverri miðstöð sem samanstóðu af röð stjórnenda með hina ýmsu titla.
Og öll þessi hersing var svo í samvinnu við þjónustu- og nýsköpunarsvið.

Flokkur fólksins kallar eftir umræðu um skilvirkni verkefnisins og hvort ekki þurfi að endurskoða ferla og boðleiðir. Kallað er eftir umræðu um af hverju sálfræðingar skólanna starfi ekki í nærumhverfi barnanna. Kallað er eftir umræðu um fundafjölda og skilvirkni funda. Kallað er eftir umræðu um samskipti skólaþjónustu við foreldra og árangursmati. Frést hefur að starfsfólk sé ánægt. Því er sinnt af lausnateymum og deildir eru sagðar ánægðar, hvað sem það þýðir.
Borgarfulltrúi upplifir þetta verkefni, sem vissulega er skref í rétta átt, afar flókið og óskilvirkt. Tengingin við börnin er lítil samkvæmt lýsingu og mestur tími fer í alls konar fundarhöld.