Borgarráð 18. ágúst 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu formanns borgarráðs, dags. 16. ágúst 2022:

Staðfesta á samstarfssamning á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að koma á eins konar byggðasamlagi eins og segir í gögnum og setja eigi af stað samstarfsvettvang sveitarfélaga og atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu um ferðamál. Flokkur fólksins spyr um vægi stærsta sveitarfélagsins Reykjavík í þessu samstarfi. Er það sem áður, mikil fjárhagsleg ábyrgð en lítil framkvæmdar- og stjórnunarleg áhrif? Reykjavík greiðir 56% en fær þrjá fulltrúa af 13. Sporin hræða og ekki er ásættanlegt að borgin sé hvað eftir annað sett í þá stöðu að greiða langmest í byggðasamlag en ráða litlu í samræmi við útgjöldin.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögur formanns borgarráðs, dags. 16. ágúst 2022, um uppbyggingu leikskóla, ásamt fylgiskjölum:

Mat Flokks fólksins á þessum 6 tillögum. 800 pláss vantar.
1. Lagt er til að opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi verði flýtt til fyrri hluta september. Er þetta raunhæf tillaga í ljósi þess að ekki hefur tekist að klára lóðir á svæðinu? Nú virðist sem hægt sé að klára málið á einum mánuði. Flokkur fólksins vill ekki að lofað sé upp í ermina.
2. Meirihlutinn leggur til að laust húsnæði borgarinnar verði nýtt til að taka við nýjum börnum í leikskóla, 160 til 200 pláss. Flokkur fólksins fagnar því að eigi að nýta laust húsnæði.
3. Nýr leikskóli í Fossvogi. Lagt er til að Reykjavíkurborg nýti forkaupsrétt með kaupum á lóð í Fossvogsdalnum. Flokkur fólksins sér þetta sem langtímalausn.
4. Stækkun Steinahlíðar er einnig langtímalausn.
5. Dagforeldrar. Lagt er til að samþykkt verði að hækka niðurgreiðslu vegna þjónustu dagforeldra til að fjölga dagforeldrum. Mat Flokks fólksins er að tillaga 5 sé eina raunhæfa tillagan og gæti orðið virk fljótt. 6. Verklag leikskólainnritunar þarf að bæta. Flokkur fólksins bendir á að milljarðar sem farið hafa í stafrænar lausnir og þróun á rafrænni þjónustu hafa farið framhjá skóla- og frístundaráði þegar kemur að innritun.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu formanns borgarráðs, dags. 16. ágúst 2022 um erindisbréf og kosningar til stjórnar fyrirtækja í eigu Reykjavíkur:

Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að þegar verið er að tilnefna í nefndir skuli tilnefna þá sem hafa þekkingu og reynslu af málefni/verkefnum nefndar sem verið er að tilnefna í, sé þess nokkur kostur. Allt of oft hafa aðilar verið tilnefndir í nefndir þar sem verið er að halda utan um mál og verkefni sem krefjast þekkingar. Það hefur ekki reynst vel. Minnihlutafulltrúar þurfa að fá ríka aðkomu að vinnu og framkvæmdum sem eiga sér stað í nefndum á vettvangi borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. ágúst 2022, við samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2022 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grundarhverfis á Kjalarnesi:

Flokkur fólksins fagnar þessari uppbyggingu. Þarna eru innviðir til staðar. Ef til vill hefði mátt vera meiri fjölbreytni, allt frá litlum íbúðum í stærri eignir. Mikilvægt er að hafa góðar aðstæður fyrir bíla, bæði við eignir fyrir íbúana og gesti. Í hverfinu eru ekki atvinnutækifæri svo leiða má líkur að því að íbúar noti einkabíl í ríkum mæli enda ekki margir aðrir kostir sem virka nema fyrir lítinn hóp kannski.

 

Bókun Flokks fólksins undir 4., 7., 8. og 10. lið fundargerðarinnar heilbrigðisnefndar frá 11. ágúst 2022:

Liður 4 í fundargerðinni; gefið er út tímabundið starfsleyfi fyrir skotvöll í Álfsnesi. Flokkur fólksins spyr hvort þessi leyfisveiting sé gerð í samráði við íbúa.

Liður 7; lögð er fram umsögn heilbrigðisnefndar við fyrirspurn um viðbrögð meirihlutans og HER við hávaða í tengslum við næturklúbba í miðbænum. Nefndur er sérstaklega Kofinn sem ítrekað hefur verið kvartað yfir vegna hávaða í miðri viku jafnt sem um helgar. Í svari/umsögn kemur fram að leggja þyrfti áherslu á rót vandans, ella muni ástandið verða viðvarandi. Lausn felst í að flytja næturklúbba burt úr miðbænum.

Liður 8; í svari við fyrirspurn um hvernig tryggja eigi að reglugerð um hávaðamengun í kringum KR-völlinn verði fylgt eftir og hver viðurlög verði séu reglur brotnar segir að heilbrigðisnefndin ásamt lögreglu muni gera það. Kvörtunum verði sinnt en þó talið að KR-svæðið verði ekki undir álagi. Flokkur fólksins telur að þetta svæði sé einmitt undir miklu álagi. Þarna verða haldnir kappleikir og fjöldi gesta mætir á svæðið. Íbúðabyggingar eru nánast ofan í vellinum.

Liður 10; tillögu Flokks fólksins um eftirlit með reglugerðum um hávaðamengun, sem var lögð fram fyrst í nóvember 2018, er vísað frá. Rökin eru að verið sé að framfylgja þeim lögum og reglum sem nefndinni ber.

 

Bókun Flokks fólksins undir 9. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2022:

Flokkur fólksins leggur áherslu á að bæta umferðarflæði á gatnamótum Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Vandinn þar er áratugagamall og hafa tafir á umferð kostað sitt, bæði í tíma og eldsneytiskostnaði. Umferðarflæðið snertir einkum Breiðholtsbúa, auk þeirra sem koma úr syðri sveitarfélögum. Þessi gatnamót eru talin vera ein hættulegustu gatnamót höfuðborgarsvæðisins og er það mat fjölmargra að ef einhvers staðar ættu að vera mislæg gatnamót þá er það þarna. Raskið á Elliðaárdalnum vegna mislægra gatnamóta á þessum stað er mun minna en verður á Elliðaárdalnum vegna tengingar Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut samkvæmt sérfræðingum. Flokkur fólksins vill að staðinn sé vörður um Elliðaárdalinn. Lausnir sem framkalla hávaða þarf að skoða vandlega því hljóðmanir duga ekki til að dempa hávaða frá umferð. Sjálfsagt er að kanna hvort stokkalausnir eru mögulegar, einkum með tilliti til umhverfisáhrifa. Hafa þarf einnig í huga að borgarlína er ekki að koma næstu árin, tilkynnt hefur verið um tafir í 3-5 ár.

 

Bókun Flokks fólksins framlagningu tillagna sex tillagna starfshóps um sveigjanleg starfslok, ásamt fylgiskjölum, sbr. 7. lið fundargerð borgarráðs frá 11. ágúst 2022:

Flokkur fólksins fagnar hverju skrefi sem tekið er í átt að sveigjanlegum starfslokum eldra fólks. Mannekla í ákveðnum störfum á þó ekki að stýra því hvort fólki sé leyft að vinna eins lengi og það langar og getur. Missir er fyrir samfélagið að sjá á eftir fólki af vinnumarkaði fyrir þær einar sakir að ná sjötugsaldri. Um er að ræða dýrmætan mannauð. Það eru mannréttindi að geta tekið ákvarðanir um atvinnumál sín eins og annað í lífinu. Sá hópur sem nú hefur skilað niðurstöðum sínum með 6 tillögum hefur stigið ansi varfærnislegar til jarðar. Setja á af stað þróunarverkefni um sveigjanleg starfslok hjá tilteknum hópum, auka fræðslu og beina því til samningsaðila að skoða við næstu kjarasamninga hvernig megi koma til móts við kröfur um aukinn sveigjanleika við starfslok. Hér hefði mátt ganga röskar fram. Að losa um höft, hindranir og hömlur í kjarasamningum er pólitísk ákvörðun. Fella þarf brott þakið í þessum efnum enda er það einstaklingsbundið. Fulltrúi Flokks fólksins vill lýsa undrun sinni yfir að enginn fulltrúi eldra fólks hafi verið í þessum hópi og aldrei hafi verið haft samband við Félag eldri borgara eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst.

 

Bókun Flokks fólksins 4. lið yfirlitsins yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Flokkur fólksins tekur undir tillögu Sjálfstæðisflokks um að greiða foreldrum sem eiga börn 12 mánaða eða eldri, sem enn eru á biðlista eftir leikskólaplássi, biðlista bætur að fjárhæð 200.000 kr. mánaðarlega á hvert barn. Grípa þarf til fjölþættra úrræða til að ná utan um það neyðarástand sem myndast hefur vegna skorts á leikskólaplássi. Flokkur fólksins hefur einmitt talað fyrir að veita neyðarstyrki og einnig heimgreiðsluúrræði sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið mun sennilega létta á biðlistum og gætu foreldrar átt þess kost að vera heima hjá barni sínu í allt að 2 ár.

 

Bókun Flokks fólksins tillögu borgarstjóra um að samþykkt verði tillaga stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 28. júní 2021 um stofnun hlutafélagsins Carbfix hf.:

Flokki fólksins finnst þetta verkefni spennandi fyrir margar sakir. Carbfix á að fjármagna alfarið í gegnum einkageirann og/eða fjármagn komi frá fjárfestingum eða í gegnum styrkjakerfi á alþjóðavísu. Sagt er nú að þetta eigi ekki að kosta borgina neitt og að leita þurfi að fjármagni frá utanaðkomandi aðilum/fjárfestum. Borgarbúar þurfa að geta treyst á þetta sé rétt og breytist ekki í framtíðinni. Flokkur fólksins vill orða það hreint út að aldrei komi fjármagn í þetta verkefni úr borgarsjóði, útsvar borgarbúa á ekki að nota í þetta verkefni enda þarf að nota það fjármagn til að laga þjónustu í borginni sem víða er ábótavant. Auðvelt er að rökstyðja tilganginn með Carbfix hf. Þetta er dýrt verkefni og mistakist markmiðið á það ekki að koma niður á hinum almenna borgara hvorki nú eða síðar. Loks má velta upp hvort erlendir aðilar muni einn góðan veðurdag eignast Carbfix og að opinberir aðilar hafi þá enga aðkomu að ákvarðanatöku/stefnumótun.

 

Ný mál Flokks fólksins

Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundasvið í samvinnu við velferðarsvið veiti sérstaka styrki til þeirra verst settu vegna svikinna loforða um leikskólapláss.
Flokkur fólksins leggur til að veita þeim foreldrum sem eru í mestri neyð aðstoð í formi sérstaks styrks á meðan verið að að ljúka framkvæmdum við leikskóla. Einnig er lagt til að á  meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss að bjóða foreldrum mánaðarlegan styrk (heimgreiðslur)  sem jafngildir niðurgreiðslum Reykjavíkurborgar fyrir leikskólapláss fyrstu tvö árin.  Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðslu úrræðið mun sennilega létta á biðlistum. Jafnframt er lagt til að styrkja dagforeldra með öllum ráðum og dáðum enda eitt af þeim úrræðum sem getur skipt sköpum í því ástandi sem ríkir nú vegna skorts á leikskólaplássum.
Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má rekja vandann helst til húsnæðisleysis og manneklu. Mannekla er tilkomin einna helst vegna lélegra launa. Um 800 pláss vantar núna. Framsóknarflokkurinn lofaði að borgin snerist um börnin og nú er að standa við það. Sveitarfélagið Reykjavík, skóla og frístundasvið og velferðarsvið verða að stíga inn af krafti og setja allan fókus á þetta vandamál.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs og skóla- og frístundasviðs sem skulu vinna að sameiginlegri umsögn í samvinnu við stýrihóp um uppbyggingu leikskóla í Reykjavík.

Greinargerð

Ástandið á leikskóla kerfinu er óásættanlegt. Margir foreldrar búi við mikla óvissu og mikilvægt er að sveitarfélög komi til móts við þá. Fyrst þegar hugmyndin um hinar svokölluðu ævintýra borgir, hreyfanlegir einingar leikskólar, var lögð á borð borgarstjórnar fylltust allir von og trú um að nú væri að nást utan um þennan gamla gróna vanda sem er hvað áþreifanlegastur á haustin. Þrjár af fjórum Ævintýraborgum eru ekki enn tilbúnar en gert er ráð fyrir að tvær þeirra opni í október og ein í desember. Reyna á að flytja þessu úrræði.

Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt, allavega ekki nógu eftirsótt. Launin eru léleg og álag mikið. Hvað fór úrskeiðis með  þessar færanlegu einingar og  húsnæðismálin er óljóst. Flokkur fólksins hefur spurst fyrir um þessi mál hjá umhverfis- og skipulagsráði/sviði og einnig óskað eftir umræðu um málið í því ráði enda skildi halda að lóðar- og framkvæmdamál heyrðu undir umhverfis- og skipulagsráð.

Reykjavíkurborg þarf að taka sig verulega á þegar kemur að plássum í leikskólum borgarinnar og hjá dagforeldrum.  Styrkja þarf dagforeldra með öllum ráðum því nú er sannarlega mikil þörf á þessari stétt sem hefur skipað mikilvægan sess í gæslu barna svo lengi sem elstu menn muna.
Reykjavíkurborg getur litið til þeirra lausna sem önnur sveitarfélög hafa beitt. Leikskólamál eru í lagi í mörgum sveitarfélögum sem eru komin  fram úr Reykjavík bæði við að eyða biðlistum, þjónustu við börnin og foreldrana og eru dæmi að finna um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld.

Meirihlutinn í borgarstjórn hefur verið iðinn við að lofa en öðru máli gegnir um efndir. Hér þarf að gera betur. Bréf frá örvæntingarfullum foreldrum hafa hrannast upp í pósthólfum borgarfulltrúa undanfarnar vikur. Börn, jafnvel 20 mánaða gömul hafa fengið pláss á leikskóla sem er ekki til.  Þessi staða veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Skylda Reykjavíkurborgar sem sveitarfélag með lögbundna þjónustu er að koma til aðstoðar með öllum mögulegum ráðum. Komið er að þolmörkum.

Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína?

Flokkur fólksins vill að fólkið í borginni verði í fyrsta sæti. Þjónustu er víða ábótavant og er skemmst að minnast langra biðlista í nánast alla þjónustu. Nú bíða 2012 börn eftir þjónustu t.d. sálfræðinga og talmeinafræðinga á vegum skólaþjónustu borgarinnar. Vonir stóðu til að Framsóknarflokkurinn myndi hrista rækilega upp í „gamla“ meirihlutanum . Vissulega er kjörtímabilið nýhafið með Framsóknarflokk sem nýrri viðbót. Fólk, börn og viðkvæmir hópar geta ekki beðið lengur. Það komið nóg af bið, ásökunum og sviknum loforðum. Mikilvægt er að meirihlutinn í borgarstjórn, skóla- og frístundasvið og velferðarsvið bregðist við þessu vandræðaástandi og sendi frá sér skýr skilaboð um að grípa eigi til alvöru aðgerða.

 

Fyrirspurn um tímabundið skotleyfi í Álfsnesi

Á fundi heilbrigðisnefndar 11. ágúst sl. var lagt fram og kynnt tímabundið starfsleyfi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis fyrir skotvöll á Álfsnesi dags. 26 júlí 2022.  Gildistími er til 31. október 2026.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort haft var samráð við íbúa í nágrenni við svæðið við veitingu leyfisins?

Vísað til heilbrigðisnefndar

 

Tillaga Flokks fólksins að verkefni Kveikjum Neistann verði innleitt í alla grunnskóla Reykjavíkur

Flokkur fólksins leggur til að verkefnið Kveikjum Neistann  verði innleitt í  grunnskólum Reykjavíkur í samráði við skólasamfélagið þar sem það hefur sýnt einstaklega skýrt að það er að virka og er skemmst að vísa til reynslunnar í  Vestmannaeyjum.

Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurn um hvort skóla- og frístundasvið ætli ekki að innleiða verkefnið Kveikjum Neistann en fengið loðin svör s.s. að skóla- og frístundasvið hyggist skoða þetta verkefni. Flokki fólksins finnst þetta ekki nógu skýrt svar.
Verkefninu er ætlað að efla skólastarf og bæta námsárangur. Verkefnið er 10 ára þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun í skólastarfið. Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda og tengjast þróun á kennsluháttum, kennsluefni og starfsþróun og ráðgjöf til kennara og skólastjórnenda.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Greinargerð

Kveikjum Neistann er að sýna góðan árangur þó ungt sé. Kjarninn er sá í Kveikjum neistann að lagt er upp með í 1. bekk að leggja áherslu á bókstafi og hljóð. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni. Inn á milli er staldrað við til að fullvissa um að helst allir nemendur eru búnir að ná öllum bókstöfum og hljóðum. Í upphafi vetrar er lögð fyrir bókstafa- og hljóðakönnun til að sjá hvaða bókstafi og hljóð nemendur kunna við upphaf skólagöngu. Aftur er gerð könnun í janúar og loks í maí á fyrsta skólaárinu. Árangur er teiknaður upp með myndrænum hætti þar sem litir eru notaðir til að merkja þá bókstafi og hljóð sem börnin þekkja. Mörg börn eru farin að lesa orð á þessum tíma og stuttar setningar. Flokkur fólksins sér að hér er um gott verkefni að ræða sem er víst til að skila árangri. Miðja máls og læsis er að gera góða hluti en árangur þar er ekki eins og góður og í Vestmannaeyjum. Hægt er að gera betur.

Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna hér að huga þarf sérstaklega að þeim börnum sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar kennsluaðferðir. Þau börn þurfa strax í byrjun að fá sérstaka aðstoð hjá sérkennara og þau þurfa lengri tíma og meira næði en gengur og gerist í almennum bekk. Gera má ráð fyrir að það séu um það bil  2-4% barna sem glíma við lesvanda af lífeðlisfræðilegum orsökum sem t.d.  tengjast sjónskyni. Sum rugla sem bókstöfum og þurfa sem dæmi að fá stærra letur og læra bókstafi með hljóði.  Krakkar sem eru í lestrarvanda hafa lengri sögu, þau sýna vandann t.d. í Hljóm sem lagt er fyrir 5 ára nemendur sem hefur forspárgildi fyrir lestrarnám. Þannig að þegar þessir krakkar koma í skólann á haustin þá er oft vitað hvað er undirliggjandi sérstaklega ef heilsugæsla og skólinn hafa einnig verið í góðu samstarfi og skólinn fengið niðurstöður úr fjögurra ára skoðun barnanna.

 

Tillaga Flokks fólksins um hraðlestrarpróf

Flokkur fólksins leggur til að hraðlestrarprófa séu einungis lögð fyrir börn með samþykki foreldra og barnanna sjálfra.
Spurning er hvort of mikil áhersla m.a. frá Menntamálastofnun (MMS) sé á leshraða (lesfimi) og mælingar á honum. Fjölmörg dæmi eru um að hraðlestrarpróf valdi börnum angist og kvíða. Hraðlestrar samanburður á lestrarhraða getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Börn sem standa höllum fæti fá sífellt þau skilaboð að frammistaðan sé ekki nægilega góð jafnvel þótt hún batni. Að sama skapi getur verið að börn sem standa vel að vígi upplifi að þar sem þau séu búin að ná markmiðum þurfi þau ekki að bæta sig frekar.
Færa má rök fyrir að leshraði sé stundum á kostnað lesskilnings. Á meðan hvatt er til að skólar mæli leshraða er e.t.v. ekki eins mikil áhersla á samræmdar mælingar á orðaforða, stafsetningu og lestur á sjónrænum orðaforða. Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir að lesskilningur „bara komi“ hjá börnum þegar þau ná auknum hraða eins og stundum er haldið fram.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Greinargerð

Frá því í september 2017 hefur Menntamálastofnun (MMS) mælt með að skólar mæli leshraða hjá börnum í 1. til 10. bekk. Rökin eru þau að nemendur með góðan leshraða hafi yfirleitt góðan lesskilning. En þetta er kannski ekki alveg svo einfalt því árangur á hraðlestrarprófi segir ekkert til um lesskilning einstaklings. Niðurstöður sýna aðeins hversu hratt lesandinn getur bunað út orðum. Leshraði er til lítils ef barn skilur ekki efnið sem það les. Barnið sem ekki skilur efnið er verr sett en barn sem les hægt en hefur ágætan lesskilning. Standa þarf vörð um tilfinningalíðan barna og er hér höfðað til skóla- og frístundasviðs að beita sér í að framkvæmd á hraðlestrarprófi verði aldrei nema í samráði og sátt við foreldra og nemenda.
Menntamálastofnun hefur sett ákveðin lesfimiviðmið sem sýna fjölda rétt lesinna orða á mínútu. Unglingur sem hefur lokið 10. bekk hefur farið í gegnum 30 mælingar á leshraða á 10 ára skólagöngu. Spyrja má hvaða áhrif slíkar endurteknar mælingar hafi á lestraráhuga og tilfinningalega líðan barnsins.
Enda þótt lesefnisviðmiðin séu e.t.v. almennt ekki endilega ósanngjörn eru þau of há fyrir mjög mörg börn. Í hópi barna er lestrarfærni þeirra mismikil. Sum börn ná einfaldlega ekki miklum hraða í lestri og ná ekki hraðaviðmiðunum Menntamálastofnunar. Vandamál með lestur geta átt rætur að rekja til ótal þátta þ.m.t. undirliggjandi leshömlunar eða annarra frávika. Hér þarf skóla- og frístundasvið að stíga inn og standa vörð um að vernda líðan barna í skólanum og verja þau gegn óþarfa áreiti sem hraðlestrarpróf geta verið og eru upplifuð af hópi barna í grunnskólum Reykjavíkur.