Borgarráð 24. nóvember 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lóðin Sóltún 2-4 en fyrirhugaðar breytingar hafa fengið margar athugasemdir:

Íbúar hafa verið með athugasemdir vegna stærð hússins sem hér um ræðir og fjölda íbúða að Sóltúni 4. Áhyggjur eru af aukinni bílaumferð. Óttast er að Sóltún anni ekki þessari miklu umferð. Ástandið er tæpt í dag og viðbótin mun ekki bæta ástandið. Húsið við Sóltún 4, upp á 6 hæðir, mun svo varpa skugga á einhverjar neðri hæðir hússins við Mánatún 1. Íbúum finnst að verið sé að ganga á græn svæði. Eftir að bygging við Sóltún verður komin upp er 1,3 km gönguleið í næsta græna svæði, Klambratún. Þarna hefðu átt að vera fjórar hæðir að hámarki samkvæmt aðalskipulagi. Það er mat sumra að þarna hefði átt að skila inn lóðinni aftur þegar breytingar á nýtni lóðar urðu ljósar. Af hverju er það liðið að fyrirtæki geti verið að græða á að eiga lóðir og selja? Miðað við fjölda athugasemda hefði átt að setjast niður og skoða hlutina. Þetta er mat fulltrúa Flokks fólksins sem skilur vel að svona mikil breyting hafi eðlilega áhrif á nágranna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 24. nóvember 2022, um útboð á fruminnheimtu:

Verið er að gera nýjan samning við innheimtufyrirtæki. Innkauparáð Reykjavíkurborgar samþykkti á fundi sínum þann 10. nóvember sl. að semja við lægstbjóðanda, Landsbankann. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að allt hafi verið gert rétt í þessu útboði svo ekki komi bakreikningur vegna útboðsmistaka. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um að ekki sé rétt að senda skuldir þeirra sem engan aurinn eiga í innheimtu lögfræðinga heldur ætti að fara mildari leiðir. Þeir sem eiga ekki krónu eiga hana ekki frekar þótt skuldin sé send til innheimtufyrirtækis.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Drög að fræðslustefnu fyrir vinnustaðinn Reykjavíkurborg:

Fulltrúi Flokks fólksins er sammála mikilvægi þess að hafa fræðslustefnu fyrir vinnustaði Reykjavíkurborgar. Tengist það helst því markmiði að starfsfólki líði vel í vinnunni og að það sé áfram um að veita borgarbúum framúrskarandi þjónustu og hafi ávallt hagsmuni þeirra og borgarinnar að leiðarljósi. Til að spara fjármagn hefði mátt slá saman fræðslustefnu og mannauðsstefnu. Of margar stefnur sem auk þess skarast valda ruglingi og hætta er á að eitthvað falli milli skips og bryggju. Þegar fræðslu ber á góma leitar hugurinn til mikilvægi fræðslu í samskiptum. Fræðslu um hvernig vinnustaður getur gert sig tilbúinn að taka faglega á erfiðum málum sem upp kunna að koma t.d. með því að hafa viðbragðsáætlun og ofbeldisvarnateymi. Hvorugum þessara þátta er gerð góð skil í þeim gögnum sem hér er lögð fram. Yfirmenn og stjórnendur þurfa einnig fræðslu, t.d. um hvernig þeir hámarka farsæld sína sem yfirmenn. Farsæll yfirmaður lætur sig varða nærumhverfið. Hann gefur skýr skilaboð um samskiptareglur. Stjórnunarstíll hans er gegnsær og fyrirsjáanlegur. Góður yfirmaður gerir miklar kröfur til starfsmanna sinna um að skila góðri vinnu, leggja sig alla fram og hafa hagsmuni vinnustaðarins í heiðri í hvívetna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Kynning á stöðu hóteluppbyggingar og þróun á fjölda gistinátta á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2022:

Það verður að tryggja stöðugt framboð á lóðum fyrir uppbyggingu á íbúðarhúsnæði að mati Flokks fólksins. Ferðamannabransinn á Íslandi er sveiflukenndur og einkennist af offjárfestingu þegar vel gengur. Hver einasta lóð sem fer undir nýtt hótel er lóð sem ekki verður hægt að nýta til uppbyggingar íbúða. Ef illa gengur í ferðamannabransanum munu þessi hótel ekki nýtast undir íbúðir, heldur munu þau standa auð – það sáum við í COVID. Á meðan húsnæðisverð er jafn hátt og raun ber vitni og útilokað er fyrir venjulegt fólk að safna fyrir útborgun á íbúð ætti ekki að úthluta lóðum undir hótel í borginni.

 

Lögð er fram tillaga um dómnefnd vegna samkeppni um þróun Keldna og Keldnaholts. Samkeppnin er i samræmi við samþykkt borgaráðs frá 22. september sl. um umgjörð vegna samkeppni um þróun Keldna og Keldnaholts.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu um frestun á máli í ljósi umræðu nefndin þurfi að vera skipuð breiðum hópi:

Lagt er til að málinu verði frestað. Skoða þarf nánar að fá meiri fjölbreytni inn í dómnefndina, þ.m.t. einhvern utanaðkomandi, til að tryggja einhverja tengingu við borgarbúa og aðra áhuga- og hagsmunaaðila og samráð við íbúa/borgarbúa.

Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 21. nóvember 2022, varðandi fyrirhugaða ferð staðgengils borgarstjóra til Tórshavnar:

Formaður borgarráðs vill fara til Þórshafnar. Nýlega voru kynntir reikningar borgarinnar og fjárhagsáætlun og aldrei hefur sést svo slæm útkoma. Fjármálastjóri hefur sagt að velta þurfi við hverri krónu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort ekki sé sjálfsagt að gæta hófs í ferðum erlendis og farið verði til útlanda eingöngu í undantekningartilfellum. Eftir COVID eru flestir færir í notkun fjarfunda og svo má notast við streymi þar sem það býðst. Flokkur fólksins minnir á að margt smátt gerir eitt stórt og sárlega vantar að streyma meira fjármagni í beina þjónustu við börn sem dæmi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirhuguð ferð forseta borgarstjórnar til Brussel:

Forseti borgarstjórnar vill fara til Brussel. Nýlega voru kynntir reikningar borgarinnar og fjárhagsáætlun og aldrei hefur sést svo slæm útkoma. Fjármálastjóri hefur sagt að velta þurfi við hverri krónu. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp hvort ekki sé sjálfsagt að gæta hófs í ferðum erlendis og farið til útlanda eingöngu í undantekningartilfellum. Eftir COVID eru flestir færir í notkun fjarfunda og svo má notast við streymi þar sem það býðst. Flokkur fólksins minnir á að margt smátt gerir eitt stórt og sárlega vantar að streyma meira fjármagni í beina þjónustu við börn sem dæmi.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um úthlutun fjármuna til grunnskóla Reykjavíkur, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september 2019:

Ein leið til að þagga niður viðkvæm mál er að svara ekki fyrirspurnum um þau fyrr en fjórum árum seinna. Þetta er tilfellið með þessa fyrirspurn Flokks fólksins um úthlutun fjármuna til skóla og hina svokölluðu fimm skóla skýrslu. Fyrirspurnin var lögð fram í nóvember 2019. Á þessum tíma var umræða um ástand skólabygginga í borgarstjórn að beiðni Flokks fólksins. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla en þurfti skólinn að vaða eld og brennistein til að fá hlustun skóla- og frístundasviðs á myglu- og rakavandamáli skólans. Svarið nú eftir fjögur ár er bæði loðið og í raun útúrsnúningur. Skóla- og frístundasvið hélt utan um skjal með breytingum frá 2018 og óskum skólastjóra um viðbótarfjármagn. Flokkur fólksins óskaði eftir að fá að sjá þetta breytingarskjal skóla- og frístundasviðs og hvaða meðferð óskir skólastjóra fengu, hvaða óskir voru samþykktar og hverjum var hafnað. En það fékkst aldrei. Einnig vildi Flokkur fólksins fá í hendur hina svokölluðu fimm skóla skýrslu. En hún var aldrei opinberuð. Skólar sem um var fjallað í þessari skýrslu fengu í mesta lagi að sjá ákveðinn hluta skýrslunnar, þann hluta sem varðaði þá. Borgarfulltrúar minnihlutans fengu ekki að sjá hana.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Tillaga Flokks fólksins um könnun á ánægju með störf aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. september 2022. Einnig lögð fram umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 17. nóvember 2022:

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.

Í meðfylgjandi umsögn gætir einhvers misskilnings. Tillaga Flokks fólksins gekk út á að borgarráð samþykki að láta fara fram könnun hjá hagsmunasamtökum fatlaðs fólk á ánægju þeirra með störf aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkur í málefnum fatlaðs fólks. Í umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu segir að aðgengis- og samráðsnefndin hafi ekki fjármagn til að gera slíka könnun. En Flokkur fólksins var ekki að leggja það til heldur að borgarráð myndi samþykkja að gerð yrði könnun af þessu tagi hjá hagsmunasamtökum. Flokkur fólksins myndi aldrei leggja annað til en að fenginn yrði óháður aðili til að gera könnun sem þessa. Spurning er hvort Flokkur fólksins leggi þessa tillögu fram aftur í von um að fá umsögn sem stemmir við tillöguna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Afgreiðsla tillögu Vinstri grænna um endurhönnun stofnbrauta, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. nóvember 2022:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi tillaga Vinstri grænna ekki raunhæf en hugur að baki henni er góður. Kjarni hennar er sá að endurhanna stofngötur og gatnamót í Reykjavík sem borgargötur með fleiri þverunum þar sem fjölbreyttir og vistvænir ferðamátar fá enn meira rými. Götur sem kæmu til greina að mati Vinstri grænna eru engar smá götur heldur einar helstu stofnæðar borgarinnar, s.s. Kringlumýrarbraut, Sæbraut og Breiðholtsbraut. Flokki fólksins finnst að þetta muni ekki ganga upp alveg sama hvernig á það er litið og hversu mjög við þráum að ganga lengra í kolefnishlutleysi borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2. lið í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 17. nóvember 2022:

Á fundi aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks fer fram kynning velferðarsviðs á stöðu innleiðingar farsældarlaga í Reykjavíkurborg. Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá ekki kynningu og umræðu um aðgengi fatlaðra barna að skólum borgarinnar og hvar við erum stödd í að uppfylla ekki aðeins Barnasáttmálann heldur einnig samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar kemur að fötluðum börnum og aðgengi þeirra að skólum. Rannsóknir hafa sýnt að aðgengi að skólum og stöðum þar sem frístundastarf barna fer fram er víða ábótavant og jafnvel mjög slæmt. Fötluð börn hafa reynslu af ýmiskonar aðgengishindrunum stundum vegna þrengsla og þá óttast þau að detta, og einnig þar sem eru aðeins tröppur en engin lyfta. Oft er jafnvel tregða að gera breytingar á húsnæði til að gera það aðgengilegt, sér í lagi þegar kemur að gömlum húsum. Í þessu þarf að gera betur að mati Flokks fólksins. Auka þarf fræðslu og umræðu um aðgengismál og mikilvægt er að hún taki til fjölbreyttra þarfa ólíkra hópa, þ.m.t. barna. Aðgengi snýst ekki aðeins um aðgengi fyrir hjólastóla, það snýst einnig um aðgengi fyrir sjón- og heyrnarskerta.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið 2 í  fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 17. nóvember 2022:

Á fundi aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks fer fram  kynning Velferðarsviðs á stöðu innleiðingar farsældarlaga í Reykjavíkurborg. Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá ekki kynningu og umræðu um aðgengi fatlaðra barna að skólum borgarinnar og hvar við erum stödd í að uppfylla ekki aðeins Barnasáttmálann heldur einnig Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þegar kemur að fötluðum börnum og aðgengi þeirra að skólum. Rannsóknir hafa sýnt að aðgengi að skólum og stöðum þar sem frístundastarf barna fer fram er víða ábótavant og jafnvel mjög slæmt. Fötluð börn hafa reynslu af ýmis konar aðgengishindrunum stundum vegna þrengsla og þá óttast þau að detta, og einnig þar sem eru aðeins tröppur en engin lyfta. Oft er jafnvel tregða að gera breytingar á húsnæði til að gera það aðgengilegt, sér í lagi þegar kæmi að gömlun húsum. Í þessu þarf að gera betur að mati Flokks fólksins. Auka þurfi fræðslu og umræðu um aðgengismál og mikilvægt sé að hún taki til fjölbreyttra þarfa ólíkra hópa. Aðgengi snýst ekki aðeins um aðgengi fyrir hjólastóla, það snýst einnig um aðgengi fyrir sjón- og heyrnaskerta.

 

Bókun Flokks fólksins undir 6. lið fundargerðar íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 16. nóvember 2022:

Flokkur fólksins vill draga fram hér í bókun erindi íbúa sem snúa að umferðaröryggi og nefna gatnamótin inn í hverfið Úlfarsárdal Lambhagavegur – Mímisbrunnur. Þarna hafa orðið mjög mörg slæm slys. Hraðakstur er stundaður eftir Lambhagaveginum í báðar áttir, ef ekki er ætlunin að beygja inn í hverfið upp Mímisbrunn. Bílar sem koma upp brekkuna að Bauhaus sjást mjög seint. Þarna er þörf á hraðahindrun beggja vegna upp og niður Lambhagaveginn. Eins er það hringtorgið sem flytur alla umferð inn í Úlfarsárdal og Leirtjörn. Þarna vantar allar gangbrautarmerkingar (sebrabraut) og lýsingu. Þarna er mikið hjólað og gengið yfir. Rafhlaupahjól fara þarna yfir svo hratt að erfitt er að bregðast við þeim. Bílar sem koma upp að hringtorginu og beygja inn til hægri á Úlfarsbrautina sjá ekki nógu vel ómerkta gangbraut. Hringtorgið inn á Vesturlandsveg fyrir neðan Bauhaus er til vandræða. Úlfarsfellsvegur hefði þurft tvær akreinar strax fyrir 10 árum. Fleiri öryggisþætti mætti nefna hér, t.d. gatnamót Úlfarsbrautar og Freyjubrunns. Þegar keyrt er í norðurátt upp Úlfarsbraut er grindverk um lóð húss í Lofnarbrunni sem skyggir á umferð gangandi sem koma niður Freyjubrunn. Þarna er brekka niður í móti og það koma oft krakkar á mikilli ferð og yfir gangbrautina sem tekur við. Hætta er á að þarna geti orðið slys.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. og 2. lið fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 16. nóvember 2022:

Flokkur fólksins vill ítreka mikilvægi samráðs við íbúa í öllum málum, þ.m.t. málefni um smáhýsin í Laugardal. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að gefa ekki tækifæri á góðu samtali við íbúa hverfisins.

 

Bókun Flokks fólksins undir 3. og 6. lið fundargerðar stjórnar SORPU bs. frá 21. október 2022:

Undir lið 3 eru „hlunnindabifreiðar“. Fjármálastjóri kynnir stöðu hlunnindabifreiða hjá SORPU. Hér vantar allar upplýsingar og skýringar á hvað hlunnindabifreiðar eru og hverjir hafa aðgang að þeim. Einnig undir lið 4 er rætt um launakjör framkvæmdastjóra. Stjórn SORPU bókar um launakjörin og fer bókun í trúnaðarbók. Fulltrúi Flokks fólksins telur að launakjör framkvæmdastjóra eigi ekki að vera leyndarmál. Það á ekki að pukrast með laun eða launakjör neinna sem starfa hjá fyrirtækjum tengdum borginni. Allra síst á að halda slíku leyndu fyrir borgarfulltrúum.

 

Bókun Flokks fólksins undir 10. lið fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 23. nóvember 2022:

Flokkur fólksins lagði til að ekki verði lokað eins mikið fyrir bílaumferð á menningarnótt og 17. júní eins og tíðkast hefur. Gengið er of langt í að loka fyrir bílaumferð og með því er loku fyrir það skotið að ákveðinn hópur geti lagt leið sína í bæinn. Frítt í strætó og skutluferðir leysa ekki vanda þeirra sem eiga erfitt með gang og komast hvergi nærri hátíðarsvæði borgarinnar. Ekki einu sinni bílar með stæðiskort fá leyfi til að aka inn á lokað svæði. Á menningarnótt lentu margir í vandræðum. Víðfeðmar lokanir urðu til þess að fjölmargir gátu ekki tekið þátt í hátíðarhöldunum. Engu að síður er þessari tillögu vísað frá án þess að breytingar séu fyrirhugaðar fyrir næstu hátíðarhöld. Takmörkun bílaumferðar er gengin út í öfgar þegar ekki er séð til þess að fatlað fólk geti notið hátíðahalda. Hávær gagnrýni kom fram vegna strætóferða á menningarnótt ýmist vegna þess að þeir voru of fáir, of seinir eða óku fram hjá fólki. Vegna róttækra lokana fylltust vagnar af fjölskyldum með barnavagna. Líkamlega fatlaður einstaklingur á erfitt með að nota strætó undir slíkum kringumstæðum. Eins sniðug og skutluþjónusta er þá var hún ekki að virka á menningarnótt. Skoða þarf hvað þarf að gera betur.

 

Bókun Flokks fólksins undir yfirliti skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019:

Óvenju margar leyfisveitingar eru að þessu sinni eða 20 og eru 15 jákvæðar. Af þeim eru 8 í Pósthússtræti, ein í Thorvaldsenstræti og ein í Skúlagötu. Reyndar er hluti af þessu leyfum veittar til gistiheimila með fáum gestum. Þessar leyfisveitingar vekja engu að síðu upp hugsun um ástandið í miðbænum í ljósi frétta frá síðustu helgum um ofbeldi og ólæti. Einnig er vert að nefna áralangar kvartanir um hávaðamengun. Flokkur fólksins spyr hvort rætt hafi verið við þessa nýju rekstraraðila um mikilvægi þess að fylgja reglugerð um hávaðamengun. Fyrir skemmstu setti Heilbrigðiseftirlitið upp hljóðmæli á horni Bankastrætis og Laugavegar vegna fjölda hávaðakvartana sem hafa borist frá íbúum á svæðinu. Það var löngu tímabært. Margar kvartanir hafa einnig borist úr Grjótaþorpinu. Skoða þarf að setja upp fleiri mæla til að fylgjast með því hvort það sé verið að fara eftir settum lögum og reglum. Samkvæmt reglugerð má hávaði ekki vera meiri en 95 desíbil. Sé reglum ekki fylgt getur Heilbrigðiseftirlitið takmarkað starfsemina og opnunartíma staðanna. Mikilvægt er að nýta allar heimildir ef reglur eru brotnar og linna ekki látum fyrir íbúar miðbæjar fá svefnfrið um helgar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju þjónustu- og nýsköpunarsvið ákvað að hefja vegferð stafrænna umbreytinga án nánast alls samráðs við bæði önnur sveitarfélög og ríkið sem nú eru að vinna þetta saman.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju þjónustu- og nýsköpunarsvið ákvað að hefja vegferð stafrænna umbreytinga án nánast alls samráðs við bæði önnur sveitarfélög og ríkið sem nú eru að vinna þetta saman. Einnig er óskað upplýsinga um hvort öll sú erlenda ráðgjöf sem sviðið hefur verið að kaupa undanfarinn áratug, hafi ekki tekið með í myndina þá hagkvæmni samlegðaráhrifa sem sameiginleg vegferð sveitarfélaga hefði haft. Fulltrúi Flokks fólksins hefur undanfarin ár ítrekað verið að benda á þá sér leið sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur verið á varðandi stafræna umbreytingu. Í stað þess að hafa strax í byrjun farið þá leið að fá sem flest sveitarfélög með í þessa vegferð, var ákveðið að borgin skyldi gera þetta upp á eigin spýtur. Samkvæmt kynningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sbr. 1. lið fundargerðar stafræns ráðs frá 23. nóvember 2022 á samstarfi sveitarfélaga í stafrænni umbreytingu, eru sveitarfélög á Íslandi að sameinast um þekkingaruppbyggingu, þróun sameiginlegra lausna og kaup á lausnum. Sveitarfélög eru að setja sér sameiginlega stefnu sem talar beint inn í stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera. Með öðrum orðum er stafræn umbreyting sveitarfélaga hagkvæmari vegna samlegðaráhrifa en að hvert sveitarfélag hefði verið að gera þetta í sínu horni.

Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort þjónustu- og nýsköpunarsvið gæti mögulega fækkað tímafrekum og kostnaðarsömum notendatilraunum og reynt að nýta sér frekar þá þekkingu sem nú þegar liggur víða fyrir varðandi innskráningarferla í leikskóla og þannig flýtt innleiðingu þeirra lausna sem lengi hefur verið beðið eftir í Reykjavík:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þjónustu- og nýsköpunarsvið gæti mögulega fækkað tímafrekum og kostnaðarsömum notendatilraunum og reynt að nýta sér frekar þá þekkingu sem nú þegar liggur víða fyrir varðandi innskráningarferla í leikskóla og þannig flýtt innleiðingu þeirra lausna sem lengi hefur verið beðið eftir í Reykjavík. Í svari skóla- og frístundasviðs í 9. lið fundargerð stafræns ráðs frá 23. nóvember 2022 vegna fyrirspurnar Flokks fólksins varðandi umsóknir í leikskóla, kemur fram að stafræn umbreytingarverkefni séu umfangsmikil og tímafrek. Fulltrúi Flokks fólksins telur þess vegna að þjónustu- og nýsköpunarsvið eigi ekki að gera þessi stafrænu umbreytingarverkefni umfangsmeiri og flóknari en þörf er á. Það er óþarfi að tíunda upp hér allt það sem enn sér ekki fyrir endann á varðandi stafræna umbreytingu borgarinnar, en það að skrá börn í eða flytja á milli leikskóla er ferli sem enn er ekki komið í lag og langt virðist í land með. Í umsögn skóla- og frístundasviðs kom fram það sem fulltrúi Flokks fólksins hefur oft gagnrýnt, sem eru allar þessar notendarannsóknir sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins á mjög erfitt með að trúa því að hegðun Reykvíkinga sé svo mikið öðruvísi en hegðun notenda annars staðar, að áralangar rannsóknir þurfi að liggja að baki lausnum sem margar hverjar eru nú þegar til. MSS22110211

Vísað til meðferðar stafræns ráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hlunnindabifreiðar og launakjör framkvæmdastjóra SORPU sem er leyniskjal:

Fram kemur undir lið 3 og 4 í fundargerð SORPU bs. frá 21. október að staða „hlunnindabifreiða“ er kynnt og á dagskrá eru einnig launakjör framkvæmdastjóra sem er haldið leyndum.
Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna hlunnindabifreiða. Hvað er átt við með hlunnindabifreiðum? Hverjir fá aðgang að slíkum bifreiðum? Eru umtalsverð hlunnindi í gangi í SORPU og fyrir hverja þá?

Fyrirspurn um launakjör framkvæmdastjóra:

Af hverju eru launakjör framkvæmdastjóra trúnaðarmál? Flokkur fólksins vill fá upplýsingar um hver launakjör framkvæmdastjóra eru. MSS22110213

Vísað til umsagnar stjórnar Sorpu

 

Fyrirspurn um Klapp greiðslukerfið og hvort Strætó bs. stefnir í gjaldþrot:

Flokkur fólksins óskar upplýsingar um kostnað lykilbúnaðs Klapps greiðslukerfis Strætó. Skannar Klapp-apps sem notaðir eru í vögnunum og sem nú hefur verið lýst sem ónothæfum á að skipta út.

Hver var heildarkostnaður á þessum búnaði með öllu tilheyrandi? Óskað er sundurliðunar á helstu þáttum.
Er það fjármagn sem farið er í Klapp kerfið með öllu tapað?
Hvað tekur nú við hvað varðar greiðslukerfi, verður farið aftur í strætómiðana?
Er Strætó bs. að stefna í gjaldþrot?

Það virðist ekki lát á ógöngum Strætó bs. Enn ein alvarleg mistök virðast hafa verið gerð með kaupum og innleiðingu á greiðslukerfi Strætó bs. Þetta kom fram í kynningu Strætó á ársfundi byggðasamlagsins SORPU og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS).
Flokkur fólksins hefur margsinnis bent á að í fyrsta lagi var tímasetning þessarar fjárfestingar algerlega út úr kortinu vegna slæmrar fjárhagsstöðu Strætó. Klappið hefur þess utan valdið ákveðnum hópi ómældu tjóni og skemmst að minnast frétta um vandamál með notkun Klappkerfisins ef fólk getur ekki notað rafræn auðkenni. Fram kom í kynningu stjórnenda að félagið væri á mörkum þess að vera rekstrarhæft og að félagið hafi ekki átt fyrir reikningum. Ljóst er að mati Flokks fólksins að komið er að vatnaskilum með almenningssamgöngur í Reykjavík sem fram til þessa hafa hvorki verið fugl né fiskur