Borgarráð 25. október 2018

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað við móttökur lagt fram 6. september 2018.

Hver er kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum hátíðarviðburðum
tengdum borginni? Borgarfulltrúa Flokks fólksins leikur forvitni á að vita heildarútgjöld
borgarinnar vegna viðburða af þessu tagi og nægir að upplýsa um árið 2017 og það sem af er 2018.

Svar frá skrifstofu borgarstjóra

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Á síðasta ári var 20 milljónum króna varið í alls kyns viðburði, veislur og móttökur. Sundurliðun er þannig að tæpum 9 milljónum var varið í veitingar og 2,5 milljónum í vínföng. Önnur aðkeypt þjónusta eru rúmar 4 milljónir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sér sannarlega mikilvægi í ýmsum viðburðum og hátíðum og þykir sjálfsagt að verja fé í hátíðir eins og Barnamenningarhátíð, hátíðir og viðburðir ætlaðir borgarbúum og hinum almenna starfsmanni borgarinnar. Hins vegar er ljóst að hér er um mikla peninga að ræða sem að hluta til er að fara í móttökur ætlaðar þröngum hópi, einhverjum útvöldum. Á fáum mánuðum hefur sem dæmi verið boðið til á annan tug móttaka sem ætlaðar eru skilgreindum, stundum þröngum, jafnvel elítuhópum. Allt er þetta greitt af almannafé. Minna skal á að það býr fólk í borginni sem á ekki til hnífs og skeiðar. Í borginni eru um 500 börn sem samkvæmt skilgreiningu eru fátæk. Þessum hópi sem oft er ekki háværasti hópurinn í borginni er ekki boðið í fínar móttökur á vegum borgarstjóra sem greiddar eru af almannafé. Þegar kemur að kostnaði sem þessum hlýtur það að vera skylda borgarmeirihlutans að velta við hverjum steini til að spara.

Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna svars um kostnað við móttökur:

Flokkur fólksins óskar eftir því að fá að vita  hvaða fyrirtæki þetta eru sem þjónustan er keypt af, veitingar, framreiðsla, skreytingar o.s.frv. Einnig hvernig Reykjavíkurborg skilgreinir „móttöku“ í svarinu. Óskað er eftir að vita um hvaða móttökur eru að ræða, hvenær þær fóru fram, og hvar og í tilefni hvers árið 2017 og það sem af er 2018.

Fyrirspurn Flokks fólksins um vináttuverkefni Barnaheilla lagt fram 14. 10. 2018.

Býður borgin þeim leik- og grunnskólum sem óska eftir að vinna með vináttuverkefni
Barnaheilla að greiða kostnað við verkefnið, t.d. námskeið fyrir leikskólakennara og/eða
starfsfólk og efni: töskur, bangsa og bækur, að hluta til eða öllu leyti? Ef að hluta til, hversu stór hluti er það?

Eins og sjá má á neðangreindu svari styrkir borgin ekki að neinu leyti þetta verkefni heldur fjármagna þeir leikskólar sem óska eftir að vinna með verkefnið það sjálfir að fullu.

Svar frá velferðarsviði

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er sárt til þess að vita að borgarmeirihlutinn hefur ekki tímt að standa straum af kostnaði Vináttuverkefnis Barnaheilla í þeim leikskólum sem þess hafa óskað. Skýrt hefur komið fram að skóla- og frístundaráð tekur ekki þátt í kostnaði að neinu leyti við vináttuverkefni Barnaheilla. Fyrrverandi og núverandi borgarmeirihluti metur þetta verkefni greinilega nægjanlega mikið til að greiða fyrir það hjá þeim skólum sem óska eftir að nota það. Kostnaður við að innleiða verkefnið er á bilinu 100-150 þ.kr. fyrir hvern skóla. Það hlýtur að teljast lítið ef sá árangur sem það skilar til barna, foreldra og starfsfólks skóla er skoðaður. Þessi tregi borgarmeirihlutans að veita fé til þessa verkefnis er óskiljanlegur. Leikskólar borgarinnar sem óskað hafa eftir að fá verkefnið í sína leikskóla hafa þurft að sækja fjármagn í námsgagnasjóði leikskólanna. Flokkur fólksins hefur staðið í þeirri meiningu að borgarmeirihlutinn vilji berjast af afli gegn einelti og gera allt sem í sínu valdi stendur til að hjálpa börnum að þróa með sér góða samskiptahætti. Með þátttöku sem flestra leik-og grunnskóla í Vináttu eru lögð lóð á þær vogar-skálar.

Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla:

Flokkur fólksins leggur til að borgin fjármagni að fullu Vináttuverkefni Barnaheilla fyrir þá leik- og grunnskóla sem þess óska. Rökin með þessari tillögu hafa verið reifuð oft áður og skemmst er að nefna að góð reynsla er af verkefninu sem sem hjálpar börnum að fyrirbyggja og leysa úr ýmsum tilfinningalegum og félagslegum vanda.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fyrirspurn Flokks fólksins um þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda lagt fyrir 30.08. 2018

Hver er núverandi staða í Reykjavík er varðar þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda?
Hvað mörg börn eru á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings í leikskólum borgarinnar?
Hvað mörg börn eru á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings í grunnskólum?

Svar Skóla- og frístundarráðs

Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Um 70 börn bíða eftir þjónustu talmeinafræðinga í leik- og grunnskóla og mörg hafa beðið lengi. Dæmi eru um 5 ára börn sem eru með málþroskaröskun og hafa beðið eftir þjónustu í 2 ár. Enn er margra mánaða bið eftir þessari þjónustu enda þótt þessi mál standa til einhverra bóta. Í allt of mörg ár hafa þessi mál verið í ólestri og vel kann að vera að einhver þessara barna hafi borið skaða af hvað varðar sjálfstraust og sjálfsöryggi. Það hafa ekki allir foreldrar haft efni á að kaupa sér þjónustu hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum út í bæ. Börn hafa því ekki setið við sama borð þegar kemur að þessu frekar en mörgu öðru þar sem þjónusta við börn er ófullnægjandi.

Framhalds fyrirspurnir Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum 

Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum 90 íbúðum.
Hvenær hófust viðgerðir?
Á hvaða stigi eru þær?
Hvenær verður þeim lokið?
Af hverju eru svo margar íbúðir óstandsettar?
Hverjar eru ástæðurnar?

Svar Félagsbústaða

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þau svör sem gefin hafa verið við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum eins og það er orðað eru ófullnægjandi að mati borgarfulltrúa. Í ágúst voru 90 íbúðir lausar hjá fyrirtækinu vegna standsetningar. Sama hvernig á þetta er litið er hér um mikinn fjölda íbúða að ræða sem eru lausar á sama tíma og þær allar sagðar vera í „standsetningu“. Á meðan bíða 1000 einstaklingar og fjölskyldur eftir húsnæði og fjölmargir þessara búa við óviðunandi aðstæður. Segir í svari að um 250 til 350 íbúðum sé að jafnaði skilað til félagsins frá leigutökum á hverju ári og fara í standsetningarferli. Ef þetta er vitað fyrirfram ætti að vera hægt að gera ráðstafanir þannig að á sama tíma séu ekki tugir íbúða lausar vegna standsetningar sem eru e.t.v. í einhverjum tilvikum hreinsun og málun.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Í ljósi svars fyrrverandi framkvæmdastjóra Félagsbústaða þar sem fram kemur að orðalag fyrri fyrirspurnar Flokks fólksins um lögfræðikostnað hafi verið leiðandi ber Flokkur fólksins fram aðra og vonandi minna leiðandi fyrirspurn. Óskað er eftir að fá upplýsingar um allan mögulegan lögfræðikostnað Félagsbústaða síðastliðin 5 ár.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Í ljósi svars fyrrverandi framkvæmdastjóra Félagsbústaða þar sem fram kemur að orðalag fyrri fyrirspurnar Flokks fólksins um lögfræðikostnað hafi verið leiðandi ber Flokkur fólksins fram aðra og vonandi minna leiðandi fyrirspurn. Óskað er eftir að fá upplýsingar um allan mögulegan lögfræðikostnað Félagsbústaða síðastliðin 5 ár.

Fyrirspurn Flokks fólksins um biðtíma leik- og grunnskólabarna eftir sálfræðiþjónustu, lagt fyrir 6. september 2018.

Hversu langur biðtími er eftir eftirfarandi sálfræðiþjónustu í leik- og grunnskólum
Reykjavíkurborgar?
1. Viðtali við sálfræðing t.d. vegna kvíða, þunglyndis, félagslegra vandamála, eineltis
og/eða almenna ráðgjöf?
2. Greiningu í forgang 2 og 3 samkvæmt stigskiptingu tilvísana sem berast
þjónustumiðstöðvum en sú greining felur í sér fyrirlögn WISC greindarprófs
(Wechsler Intelligence Scale for Children (WISC)), og annarra kvarða eftir atvikum í
þeim tilfellum þegar grunur leikur á um þroskafrávik, sértæka námsörðugleika, ADHD
eða aðrar raskanir? (Nánar um stigskiptingu til skýringar: Forgangur 2 er grunur um
alvarleg þroskafrávik. Forgangur 3 er vægari raskanir, s.s. ADHD, sértækir
námsörðugleikar og þess háttar þar sem skilað er álitsgerð sem inniheldur það
samkomulag sem sálfræðingur, skóli og foreldrar hafa ákveðið.)
3. Skólamál s.s. beiðni um að sálfræðingur komi inn í bekk/bekki með fræðslu um einelti eða önnur sálfræði- tilfinninga- og/eðafélagstengd málefni
Óskað er eftir því að nákvæmlega þessum spurningum verði svarað og að svörin verði
sundurliðuð eftir þjónustumiðstöðvum/hverfum.

Svar Velferðarsviðs 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Biðlistinn eftir sálfræðiþjónustu skóla er óheyrilega langur bæði í forgang 2 og 3 allt frá 3 til 9 mánuðum aðeins misjafnt eftir hverfum. Margir foreldrar eru afar ósáttir með slakt aðgengi að skólasálfræðingi fyrir barn sitt. Börnin líða fyrir biðina. Jafnvel þegar búið er að ákveða að nánari greiningar er þörf þá þarf barn að bíða í allt að ár. Vissulega er einhver íhlutun í gangi en það dugar ekki til í öllum tilfellum þegar ekki er nákvæmlega vitað hverjar orsakir eru fyrir vanda og vanlíðan barns sem um ræðir. Færst hefur í vöxt að foreldrar hafa neyðst til að leita á stofu út í bæ með barn sitt sem stundum er komið í 8. og 9. bekk. Þá fyrst hefur komið í ljós að barnið á í sumum tilfellum við vitsmunaþroskafrávik að stríða t.d. í vinnsluminni. Þegar hér er komið sögu er barnið oft búið að tapa sjálfstrausti og sjálfsöryggi sínu. Það er skoðun borgarfulltrúa F, D og M að þjónustumiðstöðvar séu óþarfa millistykki í þessu tilliti og hamli enn frekar aðgengi barnanna að sálfræðingunum. Sálfræðingar með aðsetur í skólum að öllu leyti geta vel haldið áfram að vera í þverfaglegu starfi með þjónustumiðstöðvum.

Lögð fram að nýju tillaga  Flokks fólksins um kosningu vegna borgarlínu sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borginni ber skylda til að taka upp beint og milliliðalaust lýðræði sérstaklega þegar verið er að taka ákvörðun um að fara í fjárfrekar aðgerðir sem borgarlínan verður. Áætlað er að verkefnið komi til með að kosta tugi milljarða króna sem enginn getur bent á hvert á að sækja. Í Reykjavík skortir mjög á lýðræðið þegar ákvarða á stórframkvæmdir til framtíðar. Að hafna því að fram fari íbúakosning meðal Reykvíkinga um borgarlínu er hrein hræðsla við lýðræðið. Nú er ljóst að samráð, gegnsæi, lýðræði og opin ferli eru orðin tóm. Ekkert er að marka það sem borgarfulltrúar Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar og Viðreisnar sögðu fyrir kosningar. Það voru greinilega orðin tóm.

Fyrirspurn  Flokks fólksins um kostnað vegna sérkennslu í leik- og grunnskólum lagt fram í borgarráði 30.08. 2018

Spurt er um kostnað v/sérkennslu í leik og grunnskólum Reykjavíkurborgar: Áætlanir um
árlegan kostnað v/sérkennslu í leikskólum borgarinnar s.l. 10 ár og fyrirliggjandi uppgjör fyrir sama tíma. Áætlanir um árlegan kostnað v/sérkennslu í grunnskólum borgarinnar s.l. 10 ár og fyrirliggjandi uppgjör fyrir sama tíma. Áætlaður og uppgerður árlegur kostnaður v/sérkennslu í sérstofnunum borgarinnar ef einhver er tiltekinn utan almennrar leik- og grunnskólastarfsemi.

Svar Skóla- og frístundarsviðs

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Sérkennslu skal veita börnum þegar greining á sérkennsluþörf liggur fyrir. Samkvæmt svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn er kostnaður vegna sérkennslu á leikskólastigi kr. 1.436.708 þús. árið 2017, (+kostn. skv. lið 1 í svari). Í svari er gefinn upp kostnaður beggja skólastiga, leik- og grunnskóla, vegna sérkennslu 2017 samtals kr. 3.616.349 þús. Kostnaður vegna grunnskóla 2018 er kr. 2.370.485 þús., en þá er ekki talinn með kostnaður vegna kennslu á sjúkrahúsum og í sérdeildum. Ætla má því kostnað vegna sérkennslu beggja skólastiga alls um 4,5 milljarða árið 2018. Ekki er ljóst hvort það liggi ávallt fyrir greiningar á sérkennsluþörf og hvort vel grundaðar kennsluáætlanir liggi fyrir áður en barn fer í sérkennslu. Ekki er heldur vitað nægjanlega um árangur, hvernig þetta er að nýtast börnunum. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er um 30% nemenda í öllum 10 bekkjum grunnskólanna í sérkennslu. Menntamálaráðuneytið hefur gefið út að um 30% drengja og um 12% stúlkna geti ekki lesið sér að gagni við lok grunnskóla. Væri ekki hægt að nýta þessa miklu fjármuni betur í þágu nemenda?

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Flokks fólksins um sérkennslu:

Sérkennslu skal veita börnum þegar greining á sérkennsluþörf liggur fyrir. Samkvæmt svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn er kostnaður vegna sérkennslu á leikskólastigi kr. 1.436.708 þús. árið 2017, (+ kostn. skv. lið 1 í svari). Í svari er gefinn upp kostnaður beggja skólastiga, leik- og grunnskóla, vegna sérkennslu 2017 samtals kr. 3.616.349 þús. Kostnaður vegna grunnskóla 2018 er kr. 2.370.485 þús., en þá er ekki talinn með kostnaður vegna kennslu á sjúkrahúsum og í sérdeildum. Ætla má því kostnað vegna sérkennslu beggja skólastiga alls um 4,5 milljarða árið 2018. Hafa skal í huga að um 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu. Er það ásættanlegur árangur að 30% drengja og 12% stúlkna geti ekki lesið sér að gagni við lok grunnskólans? (Skv. tölum frá ráðuneyti). Spurningin er hvort sú sérkennsla eins og hún er sett upp í dag sé að nýtast börnum með fullnægjandi hætti? Spurt er: Liggja ávallt fyrir greiningar á sérkennsluþörf og vel grundaðar kennsluáætlanir áður en barn fer í sérkennslu?

Lagt fram erindi Félagsbústaða hf., dags. 10. október 2018, þar sem óskað er eftir því að borgarstjórn veiti Lánasjóði sveitarfélaga veð í útsvarstekjum Reykjavíkurborgar til tryggingar á ábyrgð á lántöku

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

Taka þarf á vanda Félagsbústaða heildstætt. Ekki þýðir að vera sífellt með einhverja plástra. Fyrirtækið er í þrot hvað varðar fleiri hluti. Það á langt í land með að bæta ímynd sína í augum borgarbúa og leigjenda. Leigan hefur verið hækkuð og er að sliga marga leigjendur, fólk sem er fátækt og nær ekki endum saman. Aftur vill Flokkur fólksins benda á að vel má skoða að færa fyrirtækið aftur undir A-hluta borgarinnar undir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og reyna með því að ná utan um reksturinn sem og annað sem laga þarf. Sú tillaga að veita Félagsbústöðum ábyrgð borgarsjóðs á lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga er svo sem skiljanleg í ljósi þess öngstrætis sem fyrirtækið er í núna en er varla framtíðarlausn heldur frekar tímabundin redding. Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 10. október 2018, við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. október 2018.

Lögð fram að nýju tillaga Flokks fólksins um þjónustu mötuneyta, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. september 2018.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins fagnar því að borginni þykir það verðugt markmið að skilgreina gæði og þjónustumarkmið mötuneyta með það fyrir augun að auka gæðin. Ekki er betur séð en að í þessu svari sé jákvæður tónn. Það rekstrarform sem kemur best út fyrir alla aðila hlýtur að vera það heppilegasta fyrir öll mötuneyti borgarinnar og mætti innleiða alls staðar ef því er að skipta. Það er mikilvægt að borgin leiti allra leiða til að hagræða í rekstri mötuneyta og auka gæði á sama tíma. Sterkar vísbendingar eru um að það að bjóða þessi verkefni út sé hagstæðara en það fyrirkomulag sem nú ríkir víðast í mötuneytum í Reykjavík. Ef borgin vill auka hagkvæmni er varðar mötuneyti þarf að skoða matarsóun og hafa skýra stefnu til að sporna við henni. Flokkur fólksins vill minna á fyrirspurnir í tengslum við mötuneyti og matarsóun sem eru ósvaraðar t.d. um hversu margir af þeim sem greiða fyrir mat nýta sér að jafnaði þjónustuna á hverjum degi. Matarsóun er kostnaðarsöm og meðal fyrirspurna Flokks fólksins var hversu miklum mat er hent í mötuneytum borgarinnar og hvort til sé stefna hjá borginni eða leiðir til að nýta matarafganga.

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins í máli, dómi E-3132/2017 :

Sá embættismaður sem dæmdur var fyrir ólöglega áminningu á hendur fjármálastjóra Ráðhússins og setti af stað eineltisrannsókn í samvinnu við borgarritara, heldur starfi sínu eins og ekkert hafi í skorist. Hún er enn yfirmaður hans og hefur skipunarvald yfir honum en hann hafði fullan sigur í dómsmálinu og eineltisrannsóknin hefur nú verið felld niður af hálfu borgarinnar. Hér er ekki hægt að láta staðar numið og stjórnarandstaðan í borgarstjórn krefst þess að þessi málalok af hálfu borgarinnar eigi að hafa afleiðingar fyrir hina dæmdu. Það er meiriháttar ámælisvert að borgarstjóri og borgarritari sem samkvæmt skipuriti borgarinnar bera ábyrgð á hinni dæmdu láti eins og ekkert hafi í skorist.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins leggur til eftirfarandi málalok til lúkningar málinu: Að skrifstofustjórinn verði flutt í starf sem ekki felur í sér mannaforráð.

Tillagan er felld með fjórum með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins ásamt borgarráðsfulltrúum Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Þetta mál hefði aldrei þurft að ganga svona langt. Óhætt er að segja að það hafi verið sérlega illa tekið á málum eða alls ekki. Vel hefði mátt grípa strax inn í, hlusta á þann sem áminntur var og reyna allt til að ná sáttum svo ekki þyrfti að koma til dómsmáls. Þetta er áfellisdómur fyrir þann hluta stjórnsýslu borgarinnar sem annast þessi mál sem kostað hefur gríðarlega vanlíðan og tjón auk þess margra milljóna kostnaður er lagður á borgarbúa. Þrátt fyrir afgerandi dómsuppkvaðningu er síðan látið sem ekkert sé. Ekki hefur verið rætt við fjármálastjórann eitt orð um iðrun eða afsökunarbeiðni. Það hlýtur að vera ljóst að þegar svo alvarlegur dómur fellur þurfa að vera einhverjar afleiðingar og er það þess vegna sem þrír flokkar stjórnarandstöðunnar leggja til að skrifstofustjórinn verði færður til í starfi þar sem hann hefur engin mannaforráð til að tryggja að svona endurtaki sig ekki.ksins.