Borgarráð 15. nóvember 2018

Einn liður á fundum borgarráðs heitir Embættisafgreiðslur skrifstofu borgarstjórnar. Á fundi 15. nóvember var 6 tillögum Flokkur Fólksins vísað áfram til viðeigandi sviða og stjórna til umsagnar og afgreiðslu
Tillaga um viðhald á gerði við Flétturima, vísa til umhverfis og heilbrigðisráðs
Tillaga um birtingu upplýsinga um ráð og nefndir, vísað til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara
Tillaga um reglulega fundi með þingmönnum, vísað til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara
Tillaga um að Félagsbústaðir setji sér þjónustustefnu, send til stjórnar Félagsbústaða
Tillaga um að Félagsbústaðir setji sér siðareglur um samskipti, sent til stjórnar Félagsbústaða
Tillaga um könnun á afdrifum á ábendingum í lýðræðisgátt, sent til umhverfis- og heilbrigðisráðs
Á síðasta fundi borgarráðs voru kynnt drög að skýrslu og tillögum stýrihóps um endurskipulagningu og framtíðarskipan fyrir hverfisráð.
 
Flokkur Folksins lagði fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins saknar þess að hverfisráðin heiti ekki áfram hverfisráð nái þessar tillögur fram að ganga. Borgarhlutaráð er orð sem er langt og óþjált. Einnig er það mat borgarfulltrúa að tvö hverfisráð ætti að vera í stærstu hverfunum eins og efra- og neðra-Breiðholti. Stýrihópurinn leggur til að tveir kjörnir fulltrúar verði í hverju ráði. Þetta finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins vera óraunhæft ef tekið er mið af álagi á þá flokka sem hafa einungis einn borgarfulltrúa og einn varaborgarfulltrúa. Það er mjög mikilvægt að í hverfisráðið geti seti aðrir en borgarfulltrúar og er þá verið að meina að þarna ætti að geta átt sæti fólk sem er á listum allra flokka ef vel ætti að vera. Tryggja má tengsl hverfisráðsins við borgarfulltrúa með öðrum hætti. Tekið er undir það að það eigi að vera krafa um að viðkomandi hafi tengsl við hverfið. Flytji hverfisráðsfulltrúi úr viðkomandi hverfi eða hafi ekki lengur nein tengsl við það getur hann ekki lengur átt sæti í viðkomandi hverfi. Hvað varðar slembival, eins lýðræðislegt og það er þá finnst Flokki fólksins mest um vert að þeir sem sitji í ráðunum hafi fyrst og fremst brennandi áhuga á verkefni ráðanna.

ÍTR – Tjaldsvæðið í Laugardal – rekstur – kynning er  varðandi rekstur tjaldstæða í Laugardal.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins fagnar því að tjaldstæðið verði opið í allan vetur. Þetta mál virðist lent í bili og það sem út af stendur verður vonandi leyst næstu daga. Eftir bíður að finna varanlegt úrræði í þessu sambandi. Í sambandi við þetta mál vill borgarfulltrúi Flokks fólksins nefna mikilvægi þess að þegar mál hafa verið á borðum allra, minni- og meirihlutans, starfsmanna og embættismanna, að upplýsingar um framgang og þróun mála berist á milli með reglulegum hætti. Ef ekki er um að ræða samráð og reglulega upplýsingagjöf kallar það á mikla vinnu hjá öllum. Borgarbúar/skjólstæðingar okkar verða að geta treyst á að minni- og meirihlutinn sem og starfsmenn og embættismenn borgarinnar hafi samráð og vinni saman að hagsmunum þeirra.

Breytingar á reglum skóla- og frístundasviðs um leikskólaþjónustu – til afgreiðslu

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst margt vera gott í þessum drögum að nýjum reglum enda verið að breyta kannski einstaka þáttum sem eru barn síns tíma. Borgarfulltrúi vill ítreka mikilvægi þess að séð sé til þess í framtíðinni að foreldrar fái pláss fyrir barn sitt innan hverfis síns. Fyrir sum börn getur það verið mjög erfitt að skipta um leikskóla á leikskólatímabilinu og jafnvel getur það haft einhverjar afleiðingar er varða tengsl og tengslamyndun fyrir þau allra viðkvæmustu.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins er varðar félags- og menningarlega einangrun innflytjenda í Fellahverfi

Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 30. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varðandi félags- og menningarlega einangrun innflytjenda í Fellahverfi, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. ágúst

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Ekki er því að neita að ýmislegt hefur greinilega verið reynt að gera til að sporna við félagslegri einangrun í Fellahverfi. Í svörum skólaráðs finnst borgarfulltrúa vanta upplýsingar um hvernig gengið hefur með þessar aðgerðir. Hafa verið gerðar einhverjar kannanir á árangri t.d. með einhverjum mælingum? Fram kemur að af þeim 30% sem ekki sækja félagsmiðstöðina reglulega er ríflega helmingur af erlendum uppruna. Hvað er verið að gera til að ná til þessa hóps? Flokkur fólksins vill minna á þetta er að verða alvarlegt vandamál. Í Fellahverfi hefur fólk af erlendum uppruna lokast af og við þessu þarf að bregðast af fullum þunga og alvöru.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um allan mögulegan lögfræðikostnað Félagsbústaða síðastliðinn 5 ár

Lagt fram svar Félagsbústaða, dags. 12. nóvember 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um allan mögulegan lögfræðikostnað Félagsbústaða á síðustu fimm árum, sbr. 77. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. október 2018.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þetta er mikill lögfræðikostnaður sem hér um ræðir. Dæmi eru um að fólk hafi kvartað yfir því að „lögfræðingum hafi verið sigað“ á það af Félagsbústöðum þegar verið er að kvarta t.d. yfir myglu eða öðrum málum sem það telur sig ekki hafa fengið svör við eða sanngjarna afgreiðslu á. Eftirtektarvert er að hluti af þessum kostnaði fer í ráðgjöf. Af hverju þurfa Félagsbústaðir að leita sér lögfræðiráðgjafar? Stjórnarformaðurinn er lögfræðingur sem dæmi. Það skýtur því skökku við að verið sé að leita lögfræðings utan fyrirtækisins til að fá slíka ráðgjöf. Lögfræðikostnaður er einnig í útburðarmálum. Útburður á fólki hjá Félagsbústöðum sem er fyrirtæki í eigu borgarinnar er afar dapur svo vægt sé tekið til orða. Hér er um að ræða fólk sem hefur engin bjargráð og ættu Félagsbústaðir frekar að leita leiða til að leysa vanda fólk en að kosta lögfræðinga í mál af þessu tagi. Flokkur fólksins mun óska eftir sundurliðun á þessari tölu.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að lækka gjald fyrir skólamáltíðir um þriðjung, sbr. 14. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 4. september 2018.

Tillagan er felld.
Umsögn Skóla- og frístundarráðs

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fram kemur í svari frá skólaráðinu að miða við þessa lækkun um þriðjung þá er áætlun um kostnað 361 m.kr. Flokkur fólksins spyr hvort borgarmeirihlutinn sjái virkilega ofsjónum yfir þessum pening til að metta maga barna í skólum borgarinnar. Flokki fólksins finnst sem ekki sé mikið verið að skoða þessi mál sem dæmi að finna leiðir til hagræðingar til að skapa þá það fjármagn sem þarf til, til að geta lækkað skólamáltíðir. Einnig kemur fram að það liggja ekki fyrir upplýsingar um hvers vegna börn eru ekki í mat og þykir það sérkennilegt. Með því að hafa sem dæmi skráninguna góða er hægt að spara og hagræða. Í svari frá sviðsstjóra skólaráðs má jafnframt greina að það skorti upplýsingar um fjölmargt er tengist skólamötuneytum. Ekki er vitað til þess að Reykjavíkurborg hafi stefnu í þessum málum. Með því að hafa ekki fríar skólamáltíðir og geta ekki heldur tekið ákvörðun um að lækka gjald skólamáltíða er verið að mismuna börnum í Reykjavík að mati Flokks fólksins. Við vitum að það hafa ekki allir foreldrar ráð á að leyfa barni sínu að vera í mat í skólanum. Með því að gæta ekki að jafnræði er verið að brjóta ákvæði í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það hlýtur að vera vilji okkar allra að ekkert barn sé svangt í skólanum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á að nú þegar er fordæmi fyrir lækkun skólamáltíðar í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja.

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun meðal íbúa úthverfa.

Tillagan felld

Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 21. október 2018. 

Þar sem svarið er ekki í takt við tillöguna þá var tillaga endurorðuð og lögð fram að nýju.

Tillaga Flokks fólksins um að kanna stöðu list- og verknámskennslu í grunnskólum Reykjavíkur.

Lagt er til að borgarráð samþykki að fara þess á leit við skóla- og frístundaráð að gerð verði úttekt á list- og verknámskennslu við grunnskóla borgarinnar. Skoða þarf hvort nemendur fái þá kennslu í skapandi greinum miðað við viðmiðunarstundaskrá Aðalnámskrár grunnskóla. Það virðist sem list- og verknámskennsla sé æri misjöfn eftir skólum og spurning hvort ríki jafnræði hjá nemendum innan alls skólakerfis borgarinnar. Það er á valdi skólastjóra hvers grunnskóla að ákveða hversu mörgum stundum er úthlutað til þessara greina. (sjá grein 8.5 í AG 2016). List- og verknámsgreinar eru fjárfrekari en hefðbundið bóknám sem líklega hafi áhrif á skiptingu á námsgreinum innan skólanna. Jafnframt er brýnt að innleiða nám í nýsköpun í sem flestum námsgreinum.

Greinargerð:
Það er ljóst að skapandi hugsun er öllum einstaklingum nauðsynleg og að stunda nám í skapandi greinum gefur þeim og skólastarfinu mikið gildi. Listgreinar eru ekki einvörðungu fyrir þá sem búa yfir listrænum hæfileikum, heldur fyrir alla nemendur svo þeir læri að tileinka sér skapandi hugsun og verkfærni sama hvaða faggrein þau mun velja sér þegar að starfsnámi kemur.
Flokkur fólksins leggur mikla áherslu á að öllum börnum líði vel í skólanum. Það þýðir að skólanámið þarf að bjóða upp á fjölbreytni. Að fá tækifæri til nýsköpunar er börnum afar mikilvægt og vill Flokkur fólksins að nýsköpun verð efld á báðu skólastigum borgarinnar, þ.e. leik- og grunnskóla og í sem flestum námsgreinum á þessum skólastigum. En fyrst er að kanna stöðu þessara greina í grunnskólum. Þjóðfélagið kallar um þessar mundir ákaft á nýsköpun, en til þess að framtíðarþegnar borgarinnar geti ástundað slíka iðju er nauðsynlegt að þau læri og skilji út á hvað nýsköpun gengur og tileinki sér þau vinnubrögð á yngri árum svo þau verði hæfari þegar þátttaka í atvinnulífinu hefst hjá þeim.

Tillaga Flokks fólksins um að eldri borgarar komi með sín eigin matarílát í mötuneyti borgarinnar

Lagt er til að borgin hlutist til um að fólk fái að koma með sín eigin matarílát í mötuneyti eldri borgara. Þar með verði vikið frá því að eldri borgurum sem vilja taka með sér mat úr mötuneytum á vegum borgarinnar, sé gert skylt að kaupa einnota umbúðir, bakka undir mat sem þeir taka með sér heim.
Þessir bakkar eru óumhverfisvænir einnota bakkar eða dósir, eftir því hvort bitamatur er tekinn eða súpur, grautar.

Greinargerð
Eldri borgarar komu með sín eigin matarílát áður en þessi tilskipun tók gildi og gátu þannig sparað kaup á einnota vöru (bökkum) sem Reykjavíkurborg vill eftir því sem sagt er daga úr notkun á.

Margir eldri borgarar eru andsnúnir óumhverfisvænum umbúðum eins og aðrir þjóðfélagsþegnar. Þegar Flokkur fólksins spurði út í þetta í einu af mötuneytum eldri borgara hjá Reykjavíkurborg, var svarið „að þetta væri gert til að koma í veg fyrir svo nefnt „krosssmit“. Þetta eru ekki sannfærandi rök því litlar líkur eru á krosssmiti ef starfsmaður mötuneytis skammtar í matarílátið.

Lögð fram fyrirspurn  Flokks fólksins er varðar krossmit:

Eldri borgurum sem sækja sér mat í mötuneyti borgarinnar er gert skylt að kaupa einnota umbúðir undir mat sem þeir taka með sér heim. Þetta hugnast mörgum illa og óska eftir að koma með eigin matarílát. Þegar Flokkur fólksins spurði út í þetta í einu af mötuneytum eldri borgara hjá Reykjavíkurborg, var svarið „að þetta væri gert til að koma í veg fyrir svo nefnt „krosssmit“. Óskað er eftir að fá upplýsingar um hvað rök séu fyrir þessum reglum þegar starfsmaður mötuneytis skammtar í matarílátin?

Tillaga Flokks fólksins er varðar  Vatns/fráveitugjald, sem Orkuveita Reykjavíkur innheimtir.

Lagt er til að gerð verði breyting á hvernig vatns/ og fráveitugjald er reikna á íbúðir og önnur mannvirki sem tengd eru fráveitukerfi borgarinnar. Þetta gjald er innheimt mánaðarlega, í sama gjalddagafjölda á ári og fasteignagjöld.
Í stað þess að reikna gjaldið út samkvæmt fermetrafjöld eignar skal reikna það út frá áætlaðri notkun á vatni eða frárennslislögum. Slík mæling gæti t. d. frekar miðast við fjölda skráðra heimilismanna í hverri íbúð, því notkun fer eftir fjölda notenda en ekki eftir stærð íbúðar.

Greinargerð.
Það er mjög ósanngjarnt að reikna þetta gjald út frá fermetrafjölda eignar vegna þess að það segir ekkert til um magnnotkun á vatni eða frárennslislögnum. Að gjaldstofn þessi skuli vera fermetragjald íbúðastærðar (ásamt bílskúr ef við á), kemur afar óhentugt út fyrir eldra fólk. Margt eldra fólk situr eitt eftir í stórri íbúð, eða húsi, sem áður var heimili hjónanna og barna þeirra. Þegar árin færast yfir fljúga börnin úr hreiðrinu. Í besta falli eru þá foreldrarnir eftir í íbúðinni. Tvær eldri persónur sem yfirleitt eru farnar að hafa hægar um sig og hafa frekar litla vatns- eða frárennslisnotkun miðað við yngra fólk. Eldamennska og þvottur í minni kantinum þar sem matarboðum fækkar og oftar pantaður matur sem eldaður er annars staðar.
Þess utan er innheimtan á sérstöku reikningseyðublaði, sem spurning er hvort uppfyllir lagaskilyrði og reglur Ríkisskattstjóra um tekjuskráningu á sölureikningum. Ástæða þess er sú að á innheimtuskjali er hvorki að sjá tilgreindan einingafjölda eða einingaverð. Á reikningsformið er áritaður reitur fyrir einingaverð en enginn dálkur er fyrir fjölda keyptra eininga þó eining sé miðuð við fermetra. Einungis er tilgreint nafn gjaldsstofns og gjaldfærð upphæð hvers gjaldsstofns.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa að fenginn verði óháður aðili til að gera könnun meðal íbúa úthverfa.

Flokkur fólksins leggur til að fenginn verði óháður aðili til að gera könnun meðal íbúa úthverfa. Óskað er eftir að spurt verði um hversu oft íbúar úthverfa Reykjavíkur komi niður í miðbæ og í hvaða tilgangi. Hér er verið að vísa til þeirra sem búa í útverfum og vinna ekki í miðbænum. Verið er að leita eftir hvort og þá hversu títt fólk í úthverfum kemur í miðbæinn t.d. til að leita sér skemmtunar/nýta veitingastaði, fara á söfn eða annað.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar lækkun gjalds fyrir skólamáltíðir um helming

Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir og einnig um að lækka skólamáltíðir um þriðjung en báðar hafa verið felldar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill enn gera tilraun til að fá borgarmeirihlutann til að ná sönsum í þessu efni og leggur nú til helmingslækkun. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að aðgerð kostar en vel má hagræða í mötuneytum skólanna sem dæmi og fæst þar fjármagn. Svo er þetta alltaf spurning um forgangsröðun og borgin á að setja börnin í forgang.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar sundurliðun lögfræðikostnaðar Félagsbústaða

Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á þeim 111 m.kr. sem Félagsbústaðir hafa eytt í lögfræðikostnað. Hvað af þessari upphæð fór í lögfræðiráðgjöf og hvað í útburðarmál o.s.frv. Óskað er einnig eftir að fá upplýsingar um þau lögfræðifyrirtæki sem hér um ræðir og hvað hvert fyrirtæki fékk í krónum.