Borgarráð 29. nóvember 2018

Tillaga Flokks fólksins um að borgarstjóri hætti að ferðast með einkabílstjóra

Bókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins vill bæta hag eldri borgara, öryrkja og barnafjölskyldna. Tillögum sem lúta að aukinni þjónustu við börn og aðstoð við hina verst settu kalla á aukin útgjöld sviðanna. Finna þarf fé í þessi verkefni og ein leiðin til að gera það er að hagræða og spara. Hin leiðin er að deila fjármagni út með öðrum hætti en gert er. Þá er átt við að meira fé fari í verkefni sem snúa beint að þjónustu við börn og að aðstoða þá sem eru verst settir og minna í „önnur“ verkefni  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leitar logandi ljósi að fé sem hann telur að verið sé að verja í óþarfa. Margt smátt gerir eitt stórt. Með því að skera niður stóra og smáa kostnaðarliði án þess að það bitni á þjónustu eða skemmi gleði og kátínu væri t.d. hægt að safna peningum til að gefa börnum foreldra sem mælast undir viðmiði velferðarsviðs borgarinnar gjaldfrjáls frístundarheimili. Hér er verið að skrapa saman fé til að rökstyðja tillögur sem lúta t.d. að bættum aðstæðum fátæks fólks. Þetta kann að vera óvinsælt hjá borgarstjóra og þykja mesta vesen en ef svo er verður það bara svo að vera.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að vatns- og fráveitugjald miðist ekki við stærð eignar

Bókun Flokks fólksins:
Ekki er dregið í efa að stjórn fráveitna „semji“ gjaldskrá en hvort sú gjaldskrá taki gildi án staðfestingar borgarstjórnar er spurning. Ekki verður séð í lögunum að borginni sé veitt heimild til að útvista ábyrgð sinni gagnvart notendum fráveitna. Borgarstjórn ber að taka afstöðu sem ábyrgðaraðili gjaldtökunnar, þótt veitustofnun annist reksturinn skv. heimildir í lögum: Í 5. mgr. 15. gr.:

„ Í stað þess að miða við fasteignamat, sbr. 3. mgr., er heimilt að miða fráveitugjald við fast gjald á hverja fasteign fyrir sig, auk álags vegna annars eða hvors tveggja af eftirfarandi, en þó aldrei hærra en segir í 1. málsl. 3. mgr.:

  1. rúmmáls allra mannvirkja á fasteign eða
  2. flatarmáls allra mannvirkja á fasteign og/eða notkunar samkvæmt mæli. Álagning skv. a- og b-lið skal þó aldrei vera hærri en segir í 1. málsl. 3. mgr.] 1)

Borgarstjórn, en ekki rekstraraðili fráveitna  getur farið  fram á við ráðherra, að gerð yrði breyting á b. lið 5. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, að í stað  heimild til gjalds samkvæmt mæli, kæmi heimild til gjalds samkvæmt íbúafjölda íbúðar.

Einnig er hér vísað til þess sem segir í 7. mgr. sömu laga að:

„Heimilt er að lækka eða fella niður gjöld samkvæmt þessum lögum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt reglum sem sveitarstjórn setur.“

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um könnun meðal íbúa úthverfa
Tillagan felld

Bókun vegna íbúakönnunar í úthverfum:

Í svari frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara við þessari tillögu er innihald hennar ekki beinlínis ávarpað heldur frekar er reifað hvað búið er að kanna og hvað stendur til að kanna og fæst af því snýr beint að tillögunni.  Allt mjög áhugavert. En það sem borgarfulltrúi Flokks fólksins er að leita eftir er hversu oft og í hvaða tilgangi íbúar úthverfa heimsækja miðborgina sem ekki sækja þangað vinnu. Þetta er forvitnilegt að kanna vegna þess að vel kann að vera að fólk í úthverfum finnist þeir ekki eiga erindi í miðbæinn  enda sæki þeir mest alla þjónustu innan hverfis eða í verslunarmiðstöðvar eins og Smáralind og Kringluna. Forvitnilegt væri að vita einhverjar tölur í þessu sambandi.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gjaldfrjáls frístundarheimili fyrir börn efnaminni og fátækra foreldra

Tillagan er felld

Bókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins lagði fram tillögu um að börn foreldra undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Hér er um pólitíska ákvörðun að ræða og gerir borgarfulltrúi sér grein fyrir að breyting sem þessi kalli á meiri undirbúning. Við yfirferð umsagnar Skóla- og frístundarsviðs vakna engu að síður spurningar. Þriggja mánaða skuldaskjól er skammgóður vermir fyrir það foreldri sem á ekki fyrir þessu gjaldi eða öðru ef því er að skipta. Ferlið til að sýna fram á  greiðslugetu virkar flókið. Þetta myndi geta verið einfaldara ef Skóla- og frístundarsvið hefði aðgang að upplýsingum um tekjur eða framfærslu forráðamanna barnanna. Hér er verið að tala um fátæka foreldra, fólk sem e.t.v. berst í bökkum kannski vegna þess að allar þeirrar tekjur fara í húsaleigu. Hver er staða þessa fólk þegar það stendur frammi fyrir að gera samkomulag við Momentum?. Vanskil sem e.t.v. hafa hlaðið á sig dráttarvöxtum? Afskriftarnefnd fundar 2 svar á ári og skuldari með börn í þjónustu greiðir öll áfallandi gjöld meðan unnið er í málinu. Hvað ef hann getur ekki greitt þessi gjöld?

Tillaga um að Skóla- og frístundarsvið hafi aðgang að upplýsingum um tekjur forráðamanna til að geta afgreitt undaþágur frá gjaldi á frístundarheimilum

Lagt er til að borgarráð samþykki að  Skóla- og frístundarsvið hafi aðgang að upplýsingum um tekjur- eða framfærslu forráðamanna þeirra barna sem sækja frístundaheimili og afgreiði málefni þeirra innan sviðsins. Þetta kallar á endurskoðun á verklagsreglum og ferlinu öllu. Með þessari breytingu yrði væntanlega létt á  ferlinu, það gert skilvirkara fyrir notendur þess. Þessi tillaga er lögð fram í tengslum við umsögn Skóla og frístundarsviðs við tillögu Flokks fólksins að börn foreldra sem eru undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjálsfrístundaheimili fyrir börn sín.

Fyrirspurn varðandi hvort eitthvert barn hafi þurft að hætta á frístundarheimili

Borgarfulltrú Flokks fólksins villa spyrja hvor eitthvert barn eða börn hafi þurft að hætta á frístundarheimili vegna þess að foreldrar hafa ekki efni á að greiða gjaldið. Vísað er í umsögn Skóla- og frístundarráðs til að styðja þessa fyrirspurn en umsögnin er með tillögu Flokks fólksins um að börn foreldra sem eru undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundarheimili fyrir börn sín. Það þriggja mánaða skjól sem foreldrum er boðið upp á  er skammgóður vermir fyrir það foreldri sem getur ekki borgað þetta gjald eða annað s.s. gjald skólamáltíða.  Ferill greiðslumats virðist auk þess flókið

Tillaga um að borgarstjóri leggi af pappírsjólakortasendingar

Lagt er til að skrifstofa borgarstjóra leggi af að senda pappírsjólakort þessi jól og fylgi þannig í fótspor annarra skrifstofa og sviða Reykjavíkurborgar og þar með skrifstofu borgarstjórnar meðtalinni. Þær hafa nú allar, eftir því sem næst er komist, komið sér upp þeirri venju að senda rafræn jólakort í tölvupósti. Með þessari tillögu er borgarfulltrúi Flokks fólksins að leita eftir hvar megi spara fé sem varið er í óþarfa svo nota megi það í önnur þarfari verkefni.

Tillagan felld

Bókun Flokks fólksins:

Borgarstjóri hefur nú þegar sent sín jólakort í ár jafnvel þótt öll svið og deildir hafi lagt slíkt af. Fram hefur komið óformlega að kostnaður er um hálfa milljón í allt. Vel kann að vera að hér þyki mörgum að ekki sé verið að bruðla alvarlega með skattfé borgarbúa og eflaust mun jólakortið ylja mörgum um hjartarætur. Það er mat Flokks fólksins að góður bragur hefði engu að síður verið að því að borgarstjóri tæki aðrar starfsstöðvar borgarinnar sér til fyrirmyndar. En fyrst svo var ekki er það von borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarstjóri hafi valið jólakort til styrktar góðgerðar- og/eða hjálparsamtaka.

Fyrirspurn um kostnað við jólakortasendingar borgarstjóra

Óskað er eftir upplýsingum um hver kostnaður var við pappírsjólakortasendingar skrifstofu borgarstjóra um síðustu jól.

Fyrirspurn er varða jólaskreytingar og kostnað við þær eftir hverfum

Nokkrir borgarbúar hafa farið þess á leit við borgarfulltrúa Flokks fólksins að hann legði fram eftirfarandi fyrirspurnir. Það er hér með gert:
Óskað er eftir upplýsingum um sundurliðaðan heildarkostnað við jólaskreytingar Reykjavíkurborgar fyrir jólin 2017. Jafnframt er óskað eftir sundurliðun á kostnaði eftir hverfum. Meðfylgjandi er yfirlit yfir jólaskreytingar frá því í vor en á því er hins vegar enginn verðmiði.

https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/svar_jolaskreytingar.pdf

Tillaga Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að fyrirkomulagi samstarfs um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Skýrsla NOR lögð fram sem er greining á ferðaþjónustunni og tillögur

Margar gagnlegar ábendingar koma fram í niðurstöðum greiningar og tillögunum sem á þeim eru byggðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veltir samt fyrir sér hversu mikið samráð var haft við notendur við gerð þessarar greiningar. Fulltrúar hagsmunaaðila lögðu fram minnisblað með sínum áherslum. Ekki er alveg ljóst hvort og hvernig áherslur þeirra koma fram í skýrslu NOR eða hvort minnisblað þeirra sé meðal gagna sem unnið var úr? Þegar á heildina er litið virðist ekki vera mikið í skýrslunni sem kemur beint frá hagsmunaaðilum og notendum. Enda þótt margt sé nú betra í þjónustu hjá Strætó þýðir ekki endilega að hagsmunaaðilar séu fyllilega ánægðir með fyrirkomulag akstursþjónustunnar. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á mikilvægi notendasamráðs hér sem ávallt og að notendur komi að málinu frá öllum hliðum og það frá byrjun. Ráðfæra hefði átt sig við notendur og hefur skýrslan ekki verið lögð fyrir fulltrúa notenda til að fá viðbrögð?