Borgarráð 30. júní 2022

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hækkun á Frístundakortinu:

Flokkur fólksins fagnar þessari hækkun en nefnir enn og aftur að breyta þarf reglunum sem eru alltof stífar og ósveigjanlegar. Rýmka þarf reglur frístundakortsins enn frekar enda eru þær almennt alltof stífar. Að afnema skilyrði um að námskeið þurfi að vera átta vikur til að nota frístundakortið er réttlætismál. Löng námskeið eru almennt dýrari en stutt. Þó hækka eigi nú styrkinn um 25 þúsund þá er hann enn of lágur til að dekka dýrari námskeið og geta efnaminni foreldrar ekki greitt það sem upp á vantar. Í mörgum tilfellum liggur því frístundastyrkurinn ónotaður. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkur á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. júní 2022 á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar 1, 3 og 5 við Bræðraborgarstíg:

Flokkur fólksins vonar að uppbygging Bræðraborgarstígs 1, 3 og 5 gangi vel og verði unnin í góðu samráði við eigendur og umhverfi.

 

Bókun Flokks fólksins bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. júní 2022, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. júní 2022 á nýju deiliskipulagi fyrir KR-svæðið:

Flestir eru sammála um að þörf sé á uppbyggingu á svæðinu en áhyggjum hefur verið lýst af byggingarmagni sem er fyrirhugað, umferðarmálum, bílastæðamálum og hvernig svæðið er lokað af með byggingum. Einnig hæð húsa, sbr. íbúðarhúsið sem auglýst er við Kaplaskjólsveg/Flyðrugranda sem er sagt verða 3ja-4ra hæða en miðað við teikningar mætti skilja það svo að það verði á hæð við fjölbýlishúsin sem þegar standa við Kaplaskjólsveg og eru það fimm hæða hús. Áhyggjur eru af skuggavarpi á einstaka byggingar. Það verður í það minnsta að vinna þetta í sátt við umhverfið að mati Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi formanns borgarráðs, dags. 24. júní 2022, þar sem lagt er fram til kynningar yfirlit innleiðingar húsnæðisáætlunar Reykjavíkur á fyrsta ársfjórðungi 2022:

Staðan í húsnæðismálum í Reykjavík er grafalvarleg. Verið er að byggja sannarlega en ekki nándar nærri nóg. Markmið hafa ekki náðst nema að hluta til. Einnig mætti skoða í ljósi aðstæðna að breyta samningsmarkmiðum borgarinnar þannig að uppbygging óhagnaðardrifins húsnæðis gangi hraðar. Biðlistar eru enn of langir þótt fækkað hafi eitthvað á þeim. Fólk sem vill fá lóðir og byggja sér hús fá það ekki. Ekki vantar rými. Þéttingarstefnan hefur virkað eins og tappi á heilbrigða húsnæðisuppbyggingarþróun í borginni. Þeir sem vilja byggja þótt innviðir séu ekki til taks eiga að fá að gera það. Það vantar almennt meira af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólgan rokið upp. Verðhækkanir eru m.a. tilkomnar vegna lóðaskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi. Í fjölmörgum skýrslum hefur verið staðfest að mikill húsnæðisskortur er í borginni, á hagkvæmu húsnæði sem og dýrari fasteignum. Vöntun er á alls konar húsnæði.

 

Bókun Flokks fólksins við kosningu varamanns í stjórnun:

Fulltrúi Flokks fólksins undirstrikar mikilvægi þess að sá sem kosinn er í stjórn SORPU og í aðrar stjórnir fyrirtækja sem tengjast borginni og byggðasamlög sem borgin á meirihluta í hafi eitthvað vit á málefnum og starfseminni sem fram fer í viðkomandi fyrirtæki/byggðasamlagi. Best væri og farsælast ef viðkomandi væri með menntun á sviðinu eða langvarandi reynslu. Síðustu ár hjá SORPU hafa verið erfið. Gerð voru röð mistaka bæði framkvæmda- og einnig rekstrarleg mistök sem kostað hafa borgarbúa tugi milljóna. Allt þarf að gera til að slíkt endurtaki sig ekki.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 24. júní 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úrræði fyrir fólk í ósamþykktu húsnæði, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. mars 2022:

Fram koma áhugaverðar upplýsingar í svari sem er að í skýrslu starfshóps á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ASÍ og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins sem vann að kortlagningu á búsetu í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu undir formerkjum átaksins „Örugg búseta fyrir alla“ og var kynnt í apríl síðastliðnum. Þar kemur fram að 1.868 einstaklingar búi í atvinnuhúsnæði og þar af eru nítján börn. Eins kemur fram og það sem áhyggjur eru af er að aðeins helmingur hópsins býr í húsnæði með ásættanlegum brunavörnum en þörf er á að skoða betur um fjórðung húsnæðisins til að yfirfara brunavarnir betur. Um 46% íbúanna búa í Reykjavík. Segir að Barnavernd Reykjavíkur hefur verið tilkynnt um þau mál þar sem börn búa og hefur fulltrúi barnaverndar verið í samskiptum við Slökkviliðið á höfuðborgarsæðinu. Fylgjast á með þróun þessara mála en er það ásættanlegt að aðeins verði fylgst með og jafnvel látið þar við sitja? Slys gera ekki boð á undan sér.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skóla – og frístundasviðs, dags. 28. júní 2022, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ungbarnapláss og ungbarnaleikskóla, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 21. janúar 2021:

Flokkur fólksins tók eftir því að aðeins um 9% þeirra barna sem fengið höfðu pláss á hinum nýju ungbarnadeildum borgarinnar teljast í raun „ung börn“ en um helmingur var mun eldri. Eru ungbarnadeildir ekki ungbarnadeildir heldur bara notaðar eftir hentugleika þ.m.t fyrir mun eldri börn?

 

Bókun Flokks fólksins við lið 18 við fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. júní 2022:

Flokkur fólksins lagði fram málsmeðferðartillögu um að fresta tillögu verkfræðistofunnar EFLU f.h. Reykjavíkurborgar og Kópavogs að nýju deiliskipulagi Arnarnesvegar 3. áfanga. Tillagan um frestun var felld af meirihlutanum. Náttúruvinir Reykjavíkur og Vinir Vatnsendahvarfs hafa ítrekað reynt að ná í oddvita Framsóknarflokksins, en án árangurs, til að ræða við hann um kosningaloforð flokksins að fengið verði nýtt umhverfismat. Mikilvægt er að oddvitinn og verðandi borgarstjóri kynni sér þetta mál í þaula, enda hér um framkvæmd að ræða sem mun umbylta dýrmætu landi og hafa áhrif á ekki aðeins nærliggjandi íbúa, heldur einnig gróður og dýraríki. Engin svör hafa fengist við ítrekuðum póstum. Nú kemur fram í nýjum samstarfssáttmála að til standi að „klára skipulag fyrir Arnarnesveg“ og vilja Náttúruvinir Reykjavíkur og Vinir Vatnsendahvarfs fá að vita hvað það felur í sér. Umhverfismat fyrir þessa framkvæmd er frá 2003, en vegna glufu í lögum um umhverfismat hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að ekki þurfi að gera nýtt umhverfismat því „byrjað hafi verið á veginum“ árið 2004.

 

Bókun Flokks fólksins 3 lið fundargerð velferðarráðs frá 22. júlí:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar við velferðartækni til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti. Flestar þeirra lausna sem hér um ræðir eru án efa nú þegar til í einhverri mynd, t.d. hjá öðrum sveitarfélögum, ríki og erlendis og þarf því varla að eyða miklum tíma í uppgötvunarfasa og prófanir, umfram það sem þarf til aðlögunartæknilausna og annarra nýjunga í lagaumhverfi á Íslandi. Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull og mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi.

 

Bókun Flokks fólksins við yfirliti  embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál:

Mikilli vinnu og fjármagni hefur verið veitt í skipulagningu á uppbyggingu í Skerjafirði sl. ár. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað um að þetta er ótímabær vinna vegna óvissu um framtíðarstaðsetningu flugvallarins. Nú eru ekki aðeins komin skil í málið heldur afgerandi niðurstaða því innviðaráðuneytið telur með öllu óásættanlegt að Reykjavíkurborg ráðist í framkvæmdir í Skerjafirði án þess að fullkannað sé hvort og þá með hvaða hætti sé búið að tryggja að ný byggð hafi ekki neikvæð áhrif á rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri. Fresta á áformum um úthlutun lóða og byggingarréttar og ekki hefja framkvæmdir á umræddu svæði þar til niðurstaða flugfræðilegrar rannsóknar liggur fyrir eins og segir í bréfi frá ráðuneytinu dags. 16. júní. Ljóst er að síðasti meirihluti fór á undan sér í þessu máli þrátt fyrir ítrekuð varnarorð og tillögu um að fresta verkefninu.  Flokkur fólksins óttast að ef miklar tafir verða á framkvæmdum muni sú vinna sem lögð hefur verið í hönnun og skipulag hins nýja Skerjafjarðar ekki verða nothæf þegar grænt ljós kemur á framkvæmdir sem óvíst er hvenær verður. Því er velt upp hvað öll undirbúningsvinna við uppbyggingu nýrrar byggðar í Skerjafirði og innviða hefur kostað til þessa.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf velferðarsviðs, dags. 27. júní 2022, þar sem óskað er eftir að fjármagn sem kveðið er á um í reglugerð nr. 1455/2021 og kemur í hlut Reykjavíkurborgar vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 verði skipt á milli velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs:

Það fjármagn sem hér um ræðir fer ekki í beina þjónustu við fólk heldur að samhæfa starfsmenn og deildir, skrifstofur og kerfi. Eins og staðan er í dag er þjónustukerfi borgarinnar þegar kemur að þessari tegund þjónustu einn frumskógur og má segja að sú vinstri viti ekki hvað sú hægri gerir. Það er sérstakt að þurfa að verja svo miklu fjármagni í að sortera, flokka og skipuleggja þjónustuna svo hver og einn viti hvað hann á að gera og svo ekki sé verið að gera það sama á mörgum stöðum. Vissulega og vonandi skilar það sér síðan til þjónustuþega.

 

Ný mál Flokks fólksins

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu borgarráð samþykki að fela velferðarráði að endurskoða reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, í því skyni að hækka tekju- og eignamörk vegna húsnæðisstuðnings um að minnsta kosti 3% í samræmi við nýuppfærðar leiðbeiningar félags og vinnumarkaðsráðuneytisins.:

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela velferðarráði að endurskoða reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning, í því skyni að hækka tekju- og eignamörk vegna húsnæðisstuðnings um að minnsta kosti 3% í samræmi við nýuppfærðar leiðbeiningar félags og vinnumarkaðsráðuneytisins. Jafnframt verði velferðarráði falið að endurskoða reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, með það að markmiði að hækka fjárhæðir samkvæmt þeim reglum um að minnsta kosti 3% til samræmis við nýlegar breytingar á lögum um almannatryggingar. Enn fremur verði velferðarráði falið að meta með hliðsjón af nýjustu upplýsingum og fylgjast áfram með því hvort hækka þurfi umræddar fjárhæðir enn meira. MSS22060233

Greinargerð

Með lögum nr. 27/2022 um mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu sem Alþingi samþykkti 25. maí 2022, voru gerðar breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, þannig að bætur samkvæmt þeim lögum og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, myndu hækka um 3% frá 1. júní 2022. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið gaf jafnframt út uppfærð tekju- og eignaviðmið í leiðbeiningum ráðherra til sveitarfélaga um um framkvæmd sérstakt húsnæðisstuðning til leigjenda, sem voru birt á vef Stjórnarráðsins 23. júní 2022. Lagt er til að velferðarráði verði falið að endurskoða reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og fjárhagsaðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, til að tryggja að fjárhæðir greiðslna samkvæmt þeim reglum hækki að minnsta kosti jafn mikið eða um 3% frá og með 1. júní 2022 og er vonast til að sú hækkun geti komið til framkvæmda sem allra fyrst. Tilefnið er augljóslega ört hækkandi verðbólga sem mælist nú 8,8% og hefur ekki mælst hærri í meira en áratug. Enn fremur er gert ráð fyrir því að velferðarráð leggi mat á það hvort hækka þurfi umræddar fjárhæðir meira en 3% og fylgjast áfram með þróun mála til að geta brugðist fljótt við ef hún kallar á enn meiri hækkun.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að breyta skilyrðum frístundakorts svo fleiri geti nýtt það:

Lagt er til að skilyrði fyrir veitingu styrks frístundakortsins til styrkþega verði breytt þannig að: 1. Í stað þess að hið skipulega starf verði að nái yfir átta vikur sé viðmiðið tvær vikur og getur styrkur þá einnig nýst fyrir sumarnámskeiðin. 2. Fjölga þarf möguleikum til að nýta styrkinn. Útvíkka mætti starfsemi sem telst styrkhæf og bæta við ýmsum námskeiðum s.s. teikninámskeiðum eða námskeiðum í sköpun og list. Slík námskeið þótt stutt séu ættu hiklaust að vera í hópi þeirra sem teljast styrkhæf starfsemi. MSS22060234

Greinargerð

Ef horft er til nýtingar frístundastyrksins þá er einni alltaf sama vandamálið. Hverfi 111 er alltaf með minni nýtingu en önnur gróin hverfi og munar miklu. Svona hefur það verið í mörg ár.
Áður hefur Flokkur fólksins hvatt til þess að þetta verði kannað sérstaklega og eitthvað gert til að bæta úr.  Flokkur fólksins mun leggja fram tillögu að nýju um að farið verði í átak til að hífa upp nýtingu í hverfi 111 en þar býr fátækasta fólk borgarinnar m.a. flestir innflytjendur.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að farið verði í sérstakt átak til að bæta nýtingu frístundastyrksins í hverfi 111 og einnig í hverfi 116 en þar er nýting einnig lág eða 50% hjá strákum

Lagt er til að borgarráð samþykki að farið verði í sérstakt átak, maður á mann átak, til að bæta nýtingu frístundastyrksins í hverfi 111 og einnig í hverfi 116 en þar er nýting einnig lág eða 50% hjá strákum. Nýting styrksins í hverfi 111 er 59% en 97% í hverfi 103 samkvæmt síðustu tölum. Í hverfi 111 býr fátækasta fólkið í borginni og þar búa flestir innflytjendur. Bæði hverfi eru gömul og gróin hverfi. Flokkur fólksins leggur til að skólasamfélagið komi hér inn í samvinnu við skóla- og frístundasvið, ÍTR og foreldra. Misgóð nýting frístundastyrks eftir hverfum er gamalt vandamál sem ekki hefur verið tekið á. Einhverjar ástæður liggja hér að baki sem þarf að rannsaka, finna þarf rótina og leysa vandann en umfram allt setjast niður með hverju og einu barni og hvetja það til að finna tómstund við hæfi eða íþrótt til að stunda. Því fleiri möguleikar á vali og sveigjanleiki í tímalengd námskeiða því meiri líkur á að krakkar finni notagildi í styrknum. Eins og reglur eru núna eru krafan um átta vikna námskeið til að nota styrkinn íþyngjandi. Færa þarf viðmiðið niður í tvær vikur til að hægt sé að nota styrkinn á sumarnámskeið. Það eru ekki öll börn sem vilja eða geta bundið sig í átta vikna námskeið sem eru auk þess dýrari en styttri námskeið. Efnaminni foreldrar hafa ekki alltaf ráð á að greiða mismuninn. MSS22060235

Greinargerð

Frístundakortið er sérstaklega ætlað til að auka jöfnuð og fjölbreytileika tómstundastarfs en hefur aldrei verið fullnýtt. Á COVID tíma var það eðli málsins samkvæmt ekki fullnýtt. Tilgangur þess, eins og segir í 2. gr. í reglum um frístundakort, er að öll börn, 6-18 ára, í Reykjavík geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Það verður að breyta reglum og skilyrðum kortsins/styrksins ef hann á að nýtast sem jöfnunartæki. Þær þarf að rýmka enn meira, þannig að hægt sé að nota styrkinn á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar, stutt sem löng.