Borgarráð 13. júlí 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um eldgos á Reykjanesskaga.

Í borgarráði var umræða um eldgosið á Reykjanesskaga sem er það þriðja  á jafnmörgum árum á svæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ýmsu í sambandi við þetta gos en mest þó af því að einstaka foreldrar eru að fara með ung börn sín að gosinu, jafnvel ungabörn. Ferðin er tyrfin og oft er mengun mikil, og jafnvel við hættumörk  sem gæti skaðað öndunarfæri barna sem enn eru að þroskast. Vissulega er það þannig að borgarráð hefur ekkert um þessi mál að segja heldur er þetta í höndum lögreglustjóra Suðurnesja. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður tjá sig um þessar áhyggjur í bókun. Einnig er það afar leiðinlegt að lesa um neikvæða framkomu sumra gagnvart sjálfboðaliðum og öðrum sem standa vaktina á svæðinu þótt langflestir séu til fyrirmyndar og sýni skilning, alúð og kurteisi. Flokkur fólksins vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem bjóða fram krafta sína við þessar aðstæður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 10. júlí 2023, að rammaúthlutun Reykjavíkurborgar 2024:

Í framlögðum gögnum kemur fram að reyna eigi að ná hagræðingu með því að ná fram lækkun launaútgjalda í hlutfalli af tekjum, sameiningu starfa, aðhald í ráðningum og að „nýta stafræna umbreytingu til aukinnar skilvirkni og hagræðingar í rekstri.“ Þetta hljómar skynsamlega en hefur ekki verið í raun. Fram til þessa hefur þjónustu- og nýsköpunarsvið sem dæmi með sitt stafræna sérfræðingaráð þanist út, nánast í línulegu samhengi við versnandi efnahagsstöðu borgarinnar. Bæst hafa við 11 ný stöðugildi á stuttum tíma. Tilbúnar afurðir sem sannarlega myndu skila hagræðingu eru í miklu ósamræmi við það gríðar mikla fjármagn sem veitt hefur verið til sviðsins undanfarin ár. Í dag þarf samt ennþá að skrá barn inn í nýjan leikskóla skriflega með því að fylla út 4-6 A4 blöð. Þetta er orðið einsdæmi ef horft er til annarra sveitarfélaga. Sú rammaúthlutun sem hér er lögð fram sýnir að sannarlega verða viðbætur í þágu skóla og velferðar en á þeim sviðum hefur mikið mætt. Þrátt fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn hefur ekki náðst að hjálpa öllum þeim börnum sem glíma við vanda í skólakerfinu. Nú bíða 2.511 börn á biðlista. Finna þarf leiðir til að taka á þessu rótgróna vandamáli. Börnum í vanda verður að hjálpa.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 11. júlí 2023, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar hækkunum vegna launa ungmenna í vinnuskólanum en þau höfðu ekki fylgt kjara- og almennum verðbótum. Flokkur fólksins skilur einnig að fjölga þurfi stöðugildum hjá Barnavernd Reykjavíkur. Nú er staðan þannig að foreldrar í auknum mæli sjá sig nauðbeygð til að tilkynna sig og barn sitt sjálf til Barnaverndar. Tilfelli um að foreldrar tilkynni sjálfa sig voru árið 2017 279 en árið 2022 eru tilkynningarnar 337. Ástæðuna má án efa rekja til þess að nú bíða 2.511 börn á biðlista skólaþjónustunnar. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun fljótt. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests og athuga hvort ástæða sé til þess að það fari í svokallaða könnun. Foreldrar sem eiga börn á biðlista skólanna og fá þar ekki þjónustu eru ráðalausir. Um er að ræða mál sem mörg hver voru áður unnin á vettvangi skólanna, t.d. hjá skólasálfræðingi. Taka má dæmi um skólaforðunarvandamál en árið 2019 voru tilkynningar um skólaforðun til Barnaverndar 67, árið 2021 voru þau 46 en árið 2022 eru málin um 70.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júní 2023, þar sem óskað er eftir heimild borgarráðs fyrir því að auglýsa eftir rekstraraðila að biðstöð strætófarþega við Þönglabakka 4:

Það hversu erfitt það hefur reynst að fá rekstraraðila til að reka biðstöð farþega segir heilmikið um hversu erfitt verkefni þetta er. Fulltrúi Flokks fólksins telur að best væri því komið að borgin reki biðstöðina sjálf. Hér er um tegund þjónustu sem best er að veita innan frá ef svo má orða. Hafa skal í huga að engin býður í verkefni nema til að hagnast á því og hér er um þjónustu að ræða sem varla mun gefa nokkurn hagnað og mögulega þarf að borga með ef þjónustan á að vera viðunandi hvað þá fullnægjandi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð veiti heimild til að ganga frá kaupum á einni færanlegri kennslustofu auk salernis fyrir Hagaskóla:

Flokkur fólksins fagnar því að loksins á að ganga frá kaupum á færanlegri kennslustofu auk salernis fyrir Hagaskóla. Stofan var pöntuð í kjölfar mikilla viðhaldsframkvæmda sem nauðsynlegt var að ráðast í. Árum saman hafa skólayfirvöld kvartað vegna ástandsins, skólinn löngu sprungin og mygla og raki víða í eldri byggingum. Hagaskóli eins og Fossvogsskóli hefur verið í langan tíma heilsuspillandi húsnæði en yfirvöld hunsuðu það. Verið er að súpa seyðið af áralangri vanrækslu á viðhaldi skólabygginga í borginni. Viðhaldsskuld borgarinnar er orðin stór og komið er að skuldadögum. Um Hagaskóla er óhætt að segja að þar hefur staðan verið sérlega slæm. Blessunarlega er hreyfing á málinu og vonandi eru veikindi vegna heilsuspillandi húsnæðis úr sögunni.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar til framfærslu:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögu um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Tillögurnar fela í sér að viðmiðunarmörk grunnfjárhæða hækka um 5% og er gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi frá og með 1. júlí 2023. Enda þótt kostnaðarmatið byggi á forsendum sem óvissa ríkir um sjá allir að þessi 5% hækkun nær skammt í þeirri verðbólgutíð sem nú ríkir. Sá hópur sem er á fjárhagsaðstoð er fátækasti hópurinn í Reykjavík og stór hluti hans er á leigumarkaði sem rífur til sín stærsta hlutann af ráðstöfunartekjum fólks á fjárhagsaðstoð þrátt fyrir sérstakan húsnæðisstuðning sem sumir kunna að njóta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. júlí 2023, þar sem óskað er eftir að velferðarsvið samþykki breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning.

 

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari hækkun á húsnæðisstuðningi: Hver króna skiptir máli fyrir þennan hóp enda stór hluti hans á leigumarkaði sem um þessar mundir er helsjúkur. Því er fagnað að nú þurfa umsækjendur ekki að endurnýja umsókn á 12 mánaða fresti. Reykjavíkurborg verður að koma inn í þá vinnu að hemja leiguverð á meðan framboð af húsnæði nær ekki eftirspurn. Þetta kerfi er flókið en nú hefur sú breyting verið gerð að greiðslur sérstaks húsnæðisstuðnings takmarkast við að húsnæðiskostnaður leigjenda að teknu tilliti til samanlagðra húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings sé að lágmarki 50.000 en áður var það 40.000. Þetta þýðir að ákveðinn hópur notenda muni fá lægri greiðslur vegna hækkunar á lágmarki húsnæðiskostnaðar. Með lausn á einum vanda skapast því e.t.v. nýr vandi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, dags. 29. júní 2023, um að innri endurskoðun kanni tildrög atviks í íbúaráði Laugardals:

Tekið er undir það sem kemur fram í greinargerð tillögunnar að ætla má að umrætt tilvik hafi ekki verið einangrað tilvik „enda ólíklegt að starfsmenn hafi vísvitandi ætlað að villa um fyrir þessu tiltekna íbúaráði og að atvikið endurspegli skilning mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu á samþykktum íbúaráðanna eða viðteknar venjur innan skrifstofunnar sem kunna að vera meðvitaðar eða ómeðvitaðar“. Fyrir vikið gátu fundarmenn ekki innt hlutverk sitt af hendi með réttum hætti sem þýðir jafnframt að íbúaráðið starfaði ekki með réttum hætti. Fulltrúi Flokks fólksins er afar feginn að upp komst hvernig í pottinn er búið undir niðri og eygir von að róttæk jarðvegsskipti eigi sér stað en það sem þarna birtist ljóslifandi á sér eitthvað upphaf, einhverjar rætur. Stjórnendur eru ábyrgir enda þótt hver og einn einstaklingur sé vissulega ábyrgur fyrir sinni eigin hegðun og framkomu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. júní 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um matarsóun í mötuneytum Ráðhúss og Höfðatorgs, sbr. 58. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. maí 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um matarsóun í mötuneytum Ráðhússins og Borgartúni. Hvernig er skipulagi og skilvirkni háttað í innkaupum og hvernig tekst til að nýta afganga en á sama tíma að bjóða upp á hollan og girnilegan mat? Hversu miklu er hent t.d. birgðum sem hafa verið keyptar en ekki náðst að nýta?  Svar er lagt fram á fundi borgarráðs 13.7. 2023 og finnst fulltrúa Flokks fólksins það kannski ekki alveg trúverðugt. Í svarinu er sagt að: „Afgangur sem ekki hefur tekist að nýta, eins og hvatt er til í útboðsskilmálum, er seldur áfram til bænda sem nýta matarafganga í fóður. Með því er nýting aðfanga hámörkuð, og magn lífræns úrgangs lágmarkað, eins og frekast er kostur“. Nú er það svo að almennt er ekki heimilt að nota afganga úr mötuneytum sem fóður fyrir búfé. Ef það er tilfellið í mötuneytum borgarinnar þarfnast það frekari skoðunar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 26. júní 2023: 

Sú opinberun sem átti sér stað á íbúafundi í Laugardal fyrir skemmstu sem ekki verður rakið nánar hér var áfall. Fulltrúi Flokks fólksins er þó ánægður með að þessi opinberunin varð því ella hefði engin vitað á hversu veikum mórölskum grunni íbúaráðin starfa. Skipta þarf um jarðveg svo mikið er víst. Af hógværð og lítillæti verður mannréttinda- og lýðræðisskrifstofan sem þarna ber ábyrgð að gjörbreyta ekki aðeins móralnum, heldur einnig þeim forsendum sem íbúaráðin eiga að vinna eftir. Fara þarf að bera virðingu fyrir þeirri miklu vinnu sem fulltrúar leggja á sig í ráðunum t.d. þeir sem eru í forsvari fyrir foreldra og skóla. Svara á fyrirspurnum frá íbúaráðinu hratt og örugglega. Ef boðuð er umræða með fagfólki á dagskrárliðurinn að standa í stað þess að slá hann af með stuttum fyrirvara. Vettvangurinn á ekki að vera eitthvað sýndarsamráð heldur alvöru samráð.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir skóla- og frístundaráðs frá 12. og 26. júní 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 26.-28. lið fundargerðarinnar frá 27. júní:

Liður 26; Spurt var um hvort gerð hafi verið viðhorfskönnun um upplifun og reynslu foreldra á verkefninu Betri Borg fyrir börn. Í svari segir að verkefnið sé nýtt og því ekki tímabært að ætla að fá svör frá foreldrum. Stór hluti svarsins eru lýsingar frá þjónustu- og nýsköpunarsviði á ýmsum rafrænum lausnum sem búið er að bíða eftir lengi. Nefnt er sem dæmi stafrænt utanumhald skólaþjónustu sem er ennþá í þróunarfasa. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá viðbrögð foreldra á hvort þeim finnist Betri borg fyrir börn vera að hjálpa t.d. þeim 2500 börnum sem bíða eftir fagaðstoð. Upplifun fulltrúa Flokks fólksins er þegar kemur að því að fá eigi viðbrögð frá foreldrum þá sé farið sem köttur í kringum heitan graut.

Liður 27; Fyrirspurn um viðbrögð borgarinnar við úrskurði um að veita eigi systkinaafslátt vegna skólamáltíða þótt systkinin eigi ekki sama lögheimili. Segir í svari að Reykjavíkurborg muni gera breytingar í samræmi við úrskurðinn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að greiða þurfi foreldrum sem sviknir voru um þennan afslátt afturvirkt.

Liður 28: Í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um skóla sem hafa fengið fræðslu frá Samtökunum ´78 kemur fram að allir skólar hafi þegið fræðslu, mismikla, utan eins skóla sem ekki er tilgreindur.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 14. lið fundargerðarinnar: 

Fossvogsbrú er mikið mannvirki, um 300 metra löng og tengir saman Kársnes og Nauthólsvík. Um hana eiga ekki að fara bílar. Fulltrúi Flokks fólksins óttast umferðarteppur og tafir þegar ný byggð verður risin í Skerjafirði. Aðgengi inn og út úr hverfi þarf að vera gott ef þetta á að virka. Kostnaður hefur hækkað mikið og mun halda áfram að hækka þar sem ekki er spáð jafnvægi í efnahagsmálum fyrr en eftir 2-5 ár. Ýmis afþreying er á svæðinu s.s. sjósund og siglingar sem standa þarf vörð um. Áhrif brúarframkvæmdanna á flugvallaröryggi á meðan á þeim stendur er e.t.v. ekki alveg ljóst. En mikil eftirsjá er eftir fjörum sem verða fylltar en landfyllingar sjást í gögnum málsins. Allt of langt hefur verið gengið með eyðingu fjara í borgarlandinu.

 

Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að draga skuli af afli úr aðkeyptri ráðgjöf til borgarinnar og nýta þess í stað mannauð borgarinnar betur:

Lagt er til að borgarráð samþykki að draga af afli úr aðkeyptri ráðgjöf til borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bókað um þá gríðarlegu fjármuni sem fara í aðkeypta ráðgjöf af ýmsu tagi þrátt fyrir ríkan mannauð í starfsmannahópi borgarinnar. Nýlegar bárust fréttir um að Reykjavíkurborg hafi greitt 34 milljónir króna til félags í eigu fyrrverandi fjármálastjóra borgarinnar fyrir sérfræðiþjónustu frá árinu 2021 en viðkomandi fjármálastjóri lét af störfum sem fjármálastjóri borgarinnar fyrir aldurs sakir árið 2019. Félagið fékk greiddar tæplega 11,5 milljónir króna árið 2021 og tæplega 5,1 milljón á fyrsta fjórðungi þessa árs, að því er fram kemur á upplýsingavef um fjármál borgarinnar, sjá m.a. umfjöllun í Viðskipablaði Morgunblaðsins MSS23070050

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um kostnað til verkfræði- og arkitektafyrirtækja margsinnis. Tugir milljóna eru greiddar árlega í ráðgjöf hérlendis og erlendis. Dæmi eru um að ráðnir séu  hámenntaðir verkfræðingar- verktakar,  til þess eins að skrá fundargerðir fyrir sviðin og svo mætti lengi telja. Fulltrúi Flokks fólksins spurðist fyrir um ráðgjafarfyrirtækið KPMG  í kjölfar skýrslu fyrirtækisins um Borgarskjalasafn en í henni var lagt til að Safnið yrði lagt niður. Skýrslan kostaði ekki aðeins mikið heldur var hún talin af fleirum en borgarfulltrúa Flokks fólksins vera full af dylgjum og rangfærslum í garð borgarskjalavarðar.

Af yfirliti yfir viðskipti við KPMG að dæma sem afhent var fulltrúa Flokks fólksins fyrir skemmstu er nokkuð ljóst að aðkeypt þjónusta frá þessu fyrirtæki er komin úr böndunum. Á síðasta ári fékk fyrirtækið 41,5 milljón fyrir greiningarskýrslur/verkefni án þess að skýringar liggi fyrir um nauðsyn þeirra. Frá 2018 hefur KPMG fengið um 100 milljónir frá Reykjavíkurborg fyrir skýrslur. Hér er um eitt fyrirtæki að ræða af mun fleirum og má í því sambandi nefna Eflu. Þjónustu- og nýsköpunarsvið er nú sennilega hástökkvari í þessum efnum en sviðið hefur verið áskrifandi af innlendri og erlendri ráðgjöf í áraraðir. Fulltrúa Flokks fólksins er ofboðið og í þessu sambandi fyrst og fremst vegna bruðls. Flokkur fólksins hefur lagt til að hætt verði að skipta við KPMG og fleiri sambærileg fyrirtæki og látið verði reyna á útboð eða farið í verðkönnun, sé talið nauðsynlegt að kaupa vinnu af þessu tagi. Umfram allt er mikilvægt ekki síst vegna slakrar afkomu borgarinnar fjárhagslega að draga úr aðkeyptri rándýrri ráðgjöf með öllum ráðum.