Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 22. nóvember 2023 sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 22. nóvember 2023 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Fossvogsbrúar:
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að málinu verði frestað.
Frestunartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks. Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Fossvogsbrúar er samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir því að breytingu á deiliskipulagi Fossvogsbrúar yrði frestað um að minnsta kosti viku og var sú tillaga felld. Óskað var frestunar því ekki hefur gefist nægur tími fyrir þá sem fengu svör við ábendingum sínum að rýna svörin með sérfræðingum og fá um þau málefnalega umfjöllun. Ef athugasemdir eiga ekki að fá málefnalega umfjöllun er hér um algert sýndarsamráð að ræða. Hið nýja deiliskipulag við Fossvogsbrúna var auglýst í ágúst 2023 og opnað var þá fyrir athugasemdir. Þegar þarna var komið við sögu var hönnun brúarinnar langt komin. Eðlilegt hefði verið að fresta málinu og gefa þeim sem vilja rýna athugasemdir og svör meiri tíma. Hér er um galla í hönnun að ræða. Hönnun er kynnt þannig að sólin færi að skína á vesturhlið brúarinnar milli kl. 13:00 og 14:00. Þá myndast skuggar frá handriðum inn á brúna. Göngusvæði austan megin króast af og skerðist þá útsýnisupplifun þeirra sem yfir brúna ganga. Í stuttu máli kallar allt á að gönguleiðin verði vestanmegin brúarinnar og hjólaleiðin austanmegin. Svörin sem bárust voru þess utan hálfgerðir útúrsnúningar, s.s. að búið sé að ákveða þetta, eða „athugasemdin kemur of seint“. Ekki er tekið á aðalatriðum í svörum. Fossvogsbrúin er rándýrt mannvirki og það er miður að halda eigi áfram og byggja mannvirki af þessari stærðargráðu með galla sem þennan.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan viðauka við samkomulag Reykjavíkurborgar og Römpum upp Ísland, dags. 27. nóvember 2023.
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum viðauka við samkomulag Reykjavíkurborgar og Römpum upp Ísland og þakkar sérstaklega frumkvöðli þessa verkefnis fyrir allt sem hann hefur gert í þágu þeirra sem njóta góðs af römpum. Verkefnið er ómetanlegt og hefði sennilega ella aldrei orðið að veruleika nema fyrir tilstilli þessa einkaframtaks sem hefur lyft grettistaki í að auka og auðvelda aðgengi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki hjálagðan samning við Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís) um áframhaldandi stuðning Reykjavíkurborgar við Nýsköpunarsjóð námsmanna fyrir árin 2024-2026:
Reykjavíkurborg lækkar nú árlegt framlag sitt til Rannís úr 30 milljónum í 15 milljónir. Því til viðbótar er kveðið á um að framlag borgarinnar sé sérstaklega ætlað verkefnum sem tengjast borginni á einhvern hátt. Hér er um að ræða hagræðingartillögu meirihlutans við gerð fjárhagsáætlunar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skynsamleg hagræðing enda skerðir hún á engan hátt þjónustu við borgarbúa.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 27. nóvember 2023, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um menningar- og samfélagshús á Ártúnshöfða eru send borgarráði til kynningar:
Því er fagnað að reisa eigi menningar- og samfélagshús á Ártúnshöfða enda þótt spyrja megi hvort þetta sé besta tímasetningin í ljósi viðkvæms fjárhags borgarinnar. Nú er lagt fram erindisbréf starfshóps um menningar- og samfélagshús Ártúnshöfða sem er skipaður fimm fulltrúum frá sviðum borgarinnar. Fram kemur í erindisbréfinu að starfshópurinn leiti ráðgjafar utan kerfis hjá aðilum með sérþekkingu á viðfangsefninu eftir því sem við á. Ætla mætti að þeir starfsmenn borgarinnar sem eru skipaðir í hópinn væru það vegna sérþekkingar sinnar svo ekki þurfi að kaupa sérþekkingu utan hans. Því ber þó að fagna að starfsmaður hópsins er starfsmaður borgarinnar en ekki aðkeyptur ráðgjafi, verkfræðingur eða arkitekt eins og stundum hefur verið raunin. Minnt er á að fara skal vel með fjármagn borgarinnar. Aðkeypt ráðgjafar- og verkefnavinna er rándýr enda iðulega keypt af verkfræðinga- eða arkitektastofum. Reykjavíkurborg er stærsti vinnustaður landsins þar sem fjöldi sérfræðinga starfa.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki að gengið verði til samstarfs við Samhjálp sem lið í vetraráætlun um opnun neyðarskýla, með vísan í hjálagða tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 15. nóvember 2023.
Nú er spáð hörkugaddi og mögulega harður vetur genginn í garð. Hópur fólks er heimilislaus og treystir á að fá inni í neyðarskýlum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum samningi og almennt góðu samstarfi borgarinnar við Samhjálp sem bjargað hefur lífi fjölda manns í orðsins fyllstu merkingu. Hér er því miður aðeins verið að tala um athvarf sem er opið yfir daginn. Það dugar skammt ef notendur þjónustunnar fá ekki næturskjól. Þær krónur og aurar sem Reykjavíkurborg setur í þennan málaflokk eru aðeins smápeningar ef borið er saman við annað sem borgin stússast í og óþarfa sem eytt er í. Það verður að tryggja framtíð neyðarskýla sem opin eru á nóttunni og sjá til þess að næg pláss séu til svo engum verði úthýst, ekki heldur þeim sem ekki eiga lögheimili í Reykjavík. Það er ekki notendum að kenna ef vandræðagangur er í samningum borgarinnar við önnur sveitarfélög með endurgreiðslur fyrir gistinætur. Hér er um líf og dauða að ræða.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 27. nóvember 2023, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárhagsáætlun 2024, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. nóvember 2023
Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um hvort það teldist eðlilegt og rétt að greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárfestingaáætlun fyrir árið 2024 sé skrifuð áður en fjárfestingaáætlun borgarinnar liggur fyrir. Lagt er fram svar í borgarráði 30. nóvember sem segir að búið sé að uppfæra greinargerðina til samræmis við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sviðsins. Fulltrúi Flokks fólksins er alveg hissa á þessu máli og hefur aldrei séð svona áður á fimm árum sínum í borgarstjórn. Rangar, úreltar forsendur eru lagðar til grundvallar fjárhagsáætlun. Lagðar voru rangar upplýsingar fyrir kjörna fulltrúa í upphafi. Greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs hefði aldrei átt að fara inn í skjalið í upphafi eins og hún var unnin. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvað komi til að svona vinnubrögð eru viðhöfð og hver beri ábyrgð á yfirstjórn vinnunnar við undirbúning fjárhagsáætlunar.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 23. nóvember 2023.
Undir þessum lið um gjaldskyldu bílastæða er birt útskrift úr fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 28. júní 2023 um hækkun á bílastæðagjöldum og bókaði fulltrúi Flokks fólksins um málið. Hækka á gjald fyrir bílastæði Reykjavíkurborgar umtalsvert og þrengja reglurnar samhliða hækkun. Þess utan bætast við sunnudagar. Að gjaldskylda verði á gjaldsvæðum P1 og P2 milli klukkan tíu á morgnana og níu á kvöldin á sunnudögum. Þessar breytingar hafa mikinn fælingarmátt fyrir þá sem koma akandi í bæinn og er nú nóg samt. Þess utan hefur hækkun á gjöldum áhrif á verðbólgudrauginn. Þetta er róttækt og stríðir gegn skynsemi þegar horft er á hversu almenningssamgöngur eru slakar hvað varðar tíðni og fleira. Þetta kemur verst niður á þeim sem minnst hafa milli handanna og fyrir aðra hefur þetta ekki síður fælingarmátt. Fulltrúi Flokks fólksins hefði haldið að hagaðilar myndu mótmæla þessu. Miðbærinn er orðið eingöngu fyrir erlenda ferðamenn og er það mjög miður. Það má auk þess nefna að gjaldskrárhækkanir hjá borginni eru viðamiklar og fara að sjálfsögðu beint út í verðlagið og auka verðbólgu.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 29. september 2023. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar:
Niðurstöður þessarar könnunar eru eins og þær fyrri, einkabíllinn er hástökkvari í öllum spurningum og meira en búist hefði mátt við því talið var að hjólin væru að koma sterkar inn. Notkun strætó minnkar. Þeir sem búa langt frá vinnu og almennt í efri byggðum í Breiðholti, Árbæ, Grafarvogi og Kjalarnesi eru eðlilega að nota bílinn í yfirgnæfandi meirihluta. Vel kann að vera að fleiri gætu mögulega verið að nota almenningssamgöngur væru þær að mæta þörfum fleira fólks hvað varðar tíðni, aðgengi, leiðakerfi og bætta þjónustulund. Þeir sem eru efnaminni samkvæmt þessari könnun eru minnst að nota hjól og hlaupahjól. Það vekur upp spurningar. Gott er að sjá að börn eru að ganga heilmikið í skólann í sumum hverfum en minna í öðrum. Hjólanotkun barna er einnig mismunandi eftir hverfum. Nú í skammdeginu fara börn vissulega síður hjólandi í skólann. Áhyggjur eru af lýsingu í sumum hverfum og hefur verið lögð fram fyrirspurn í því sambandi. Sé lýsingu ábótavant ógnar það verulega öryggi barna, gangandi og hjólandi. Í kringum skóla og á öllum leiðum að skóla, hvort heldur er frá bílastæði, gönguleið eða hjólastígum, þarf lýsing að vera jöfn, heildstæð og kröftug en ekki blindandi.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að fela spretthópi vegna hávaða í miðborginni að funda og skoða hávaðamálin í heild sinni með það að markmiði að finna lausnir:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela spretthópi vegna hávaða í miðborginni að funda og skoða hávaðamálin í heild sinni með það að markmiði að finna lausnir. Nauðsynlegt er að framhald verði á endurskoðun á skemmtanamálum í miðbænum vegna aukins hávaðavanda m.a. frá götuhátölurum. Nefndar hafa verið leiðir eins og að skoða hvort stytta eigi opnunartíma eða hvort færa eigi þennan hluta skemmtanalífsins út fyrir hjarta Reykjavíkur. Það liggur fyrir að munur er á hávaða um helgar eftir að Kofi Tómasar frænda gerði breytingar. Enn berst samt mikill hávaði á næturnar og fram á morgun frá planinu bak við Krónuna við Hallveigarstíg og vandamál er með hávaða og skrílslæti frá Danska barnum/Prikinu og Bankastræti þar sem opnunartímar eru langir. Þetta eru upplýsingar frá nágrönnum ofangreindra staða. Einnig er nú aftur kominn hávaði frá götuhátölurum t.d. í tengslum við skautasvellið sem er umfram leyfileg mörk. MSS22090038
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að fela Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að setja upp hljóðmæla við Ingólfstorg í ljósi þeirrar miklu umræðu sem fram hefur farið í tengslum við hljóðmengun miðborgar Reykjavíkur.:
Lagt er til að borgarráð samþykki að fela Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að setja upp hljóðmæla við Ingólfstorg í ljósi þeirrar miklu umræðu sem fram hefur farið í tengslum við hljóðmengun miðborgar Reykjavíkur. Ingólfssvell er handan við hornið, þar sem jólatónlist er leikin utandyra 10 til 12 tíma daglega í heilan mánuð. Tónlist sem fer yfir viðmiðunarmörk Heilbrigðiseftirlitsins (55 dB), brýtur ákvæði lögreglusamþykktar Reykjavíkur og reglugerð um hávaða. Heilbrigðiseftirlitið verður að sjá til þess að styrkur og bassastilling verði í algjöru lágmarki. Íbúar þurfa að geta hringt í starfsmann Reykjavíkurborgar þegar hávaðinn fer úr böndunum, sem er afar mikilvægt og hefur reynst vel á síðustu árum Ingólfssvells. MSS23110171
Vísað til meðferðar heilbrigðisnefndar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort það teljist eðlilegt og rétt að greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárfestingaráætlun fyrir árið 2024 sé skrifuð á undan fjárfestingaráætlun borgarinnar er óskað frekari upplýsingar:
Í framhaldi af svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hvort það teljist eðlilegt og rétt að greinargerð þjónustu- og nýsköpunarsviðs með fjárfestingaráætlun fyrir árið 2024 sé skrifuð á undan fjárfestingaráætlun borgarinnar er óskað frekari upplýsingar. Í framlögðu svari kemur fram að greinargerðin hafi verið uppfærð og byggi nú á réttum upplýsingum. Óskað er upplýsinga um hverjar uppfærslurnar voru, nákvæmlega hvað breyttist frá fyrri greinargerð til seinni. Af hverju var lögð fram greinargerð sem byggði á gömlum og úreltum upplýsingum? Þurfa kjörnir fulltrúar að vera á varðbergi fyrir því að gögn séu byggð á úreltum upplýsingum? Hver ber ábyrgð á þessu? Eiga endurskoðendur ekki að ganga úr skugga um að upplýsingar sem fjárhagsáætlun er byggð á séu nýjar?