Borgarráð 5. júlí 2018

Tillaga um gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn efnaminni foreldra lögð fram í borgarráði 5. júlí

Lagt er til að frístundaheimili fyrir börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjáls.

Greinargerð:
Í þeim tilgangi að styðja enn betur við efnaminni fjölskyldur er lagt til að foreldrar sem eru undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Sumar fjölskyldur eru enn að glíma við fjárhagserfiðleika vegna afleiðinga hrunsins og sjá ekki fyrir sér að geta rétt úr kútnum næstu árin ef nokkurn tíman. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250.000 kr. á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef húsnæðiskostnaður er einnig innifalinn í þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum. Það er skylda
okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Börnum sem er mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Með þessari tillögu er verið að freista þess að tryggja að börn efnaminni foreldra missi hvorki pláss á frístundaheimilum né verði svikin um tækifæri til að sækja frístundaheimili vegna bágra félags- og fjárhagslegra stöðu foreldra.
Vísað til Skóla- og frístundarráðs

Tillaga um göngubrýr í stað gönguljósa lögð fram í Skipulags- og samgönguráði 27. júní

Lagt er til að í stað tveggja gönguljósa, annað á móts við Klambratún og hitt á móts við 365 miðla verði lagðar göngubrýr. Þessi ljós valda umferðarteppum á þessum leiðum meiri hluta dags.

Greinargerð:
Með göngubrúm er flæði umferðar milli umferðarljósa óhindrað. Fólksumferð yfir götuna er mikil og í hvert sinn sem ýtt er á gönguljósahnpp stöðvast umferðin dágóðan tíma.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað vegna bílstjóra borgarstjóra

Hver er árlegur kostnaður þess að borgarstjóri haldi úti einkabílstjóra?

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna bílstjóra