Borgarstjórn 4. september 2018

Bókanir Flokks fólksins lagðar fram á fundi borgarstjórnar 4. september 2018

Dagskrárliður: Lagður fram meirihlutasáttmáli borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Sáttmálinn er falleg orð á blaði, birtir fallegar myndir sem vissulega væri hægt að kvitta undir ef í höfði borgarfulltrúa Flokks fólksins væru ekki aðrar myndir, myndir af örvæntingarfullum andlitum fólks þar með barna sem ýmist búa við húsnæðislegt óöryggi eða líður illa í aðstæðum sínum, sem dæmi skólaaðstæðum. Í sáttmálanum er hinn raunverulegi vandi borgarinnar ekki ávarpaður nema lauslega. Nefna má einnig biðlistavandann og mannekluvandann. Á biðlista í leikskóla eru 128 börn og enn á eftir að ráða í 60 stöðugildi leikskóla og 22 afleysingarstörf. Börn bíða einnig eftir sálfræðiþjónustu. Á biðlista eftir félagslegu húsnæði eru um 1000 manns og börnin eru rúmlega 400. Enn eru eldri borgarar vistaðir á LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum og/eða manneklu í heimaþjónustu. Í sáttmálanum hefði meirihlutinn átt að viðurkenna að ekki hefur verið tekið á þessum þáttum með skeleggum hætti og lofa að forgangsraða í þágu fólksins og barnanna. Það er sárt að sjá sem dæmi að borgin ákvað að endurnýja bragga fyrir 415 milljónir í stað þess að fjármagna í þágu þeirra sem minna mega sín og barnanna í borginni. Nýlega hefur borgin fellt tillögu Flokks fólksins um að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Fyrir 400 milljónir hefði mátt metta marga munna. Nú er sagt að taka eigi til hendinni í húsnæðismálum en engu að síður er ekki fyrirsjáanlegt að takist að koma heimilislausum í öruggt skjól fyrir veturinn. Staðan í þessum málum er ekki góð.

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað borgarinnar af veislum og öðrum viðburðum tengdum borginni

Hver er kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum hátíðarviðburðum tengdum borginni?  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leikur forvitni á að vita heildarútgjöld borgarinnar vegna viðburða af þessu tagi og nægir að upplýsa um árið 2017 og það sem af er 2018

Dagskrárliður: Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið, ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir ofangreindum dagskrálið:
Göngugötur eru vissulega skemmtilegar og lífga upp á mannlífið en að gera allan Laugaveg að göngugötu eins og komið hefur fram hjá borgarfulltrúa meirihlutans að gæti staðið til er kannski fullbratt að mati Flokks fólksins þar sem ekki liggur fyrir skýr afstaða borgarbúa hvað þá hugmynd varðar. Borgarfulltrúi vill vera alveg viss um að það að gera allan Laugaveginn að göngugötu, samræmist óskum, vilja og væntingum borgarbúa, kaupmanna við Laugaveg og annarra hagsmunaðila áður en slík aðgerð kemur til greina.

Dagskrárliður: Umræða undir þessum lið, tillögu Miðflokksins um óháða úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur.

Bókun borgarfulltrúa Flokks fólksins undir þessum lið varðar afmarkaðan þátt umræðunnar og er eftirfarandi:
Borgarfulltrúinn biður borgarstjóra að setja endapunkt á þetta mál sem hér hefur verið reifað í þremur skeytum frá framkvæmdastjóra KVH til oddvita minnihlutans, hafi sá endurpunktur ekki þá þegar verið settur. Með þessari beiðni vonar borgarfulltrúi Flokks fólksins að ekki muni berast fleiri skeyti frá kjarafélaginu til oddvita minnihlutans um að meint eineltisrannsókn sé mögulega enn í gangi eða talin vera enn í gangi. Á þetta mál þarf að binda endahnút og vill borgarfulltrúinn treysta borgarstjóra til að binda þann hnút. Til að skýra nánar ofangreint er vísað í bréf framkvæmdarstjóra KVH en þar kemur fram að „enn sé verið að reyna að knýja fjármálastjórann til þátttöku í svonefndri eineltisrannsókn, þrátt fyrir ótvíræða niðurstöðu dómsmálsins, sem Reykjavíkurborg tapaði og ákvað að áfrýja ekki.“ Lögmaður fjármálastjóra hefur sett fram andmæli gegn þessari „áframhaldandi aðför og skorað á Reykjavíkurborg að fella stjórnsýslumál þetta niður eins og fram kemur í bréfi lögmannsins sem einnig var sent oddvitum minnihlutans.“ Þessu máli þarf að ljúka og biður borgarfulltrúi Flokks fólksins borgarstjóra að ganga í það verk svo yfir allan vafa sé hafið.

Tillaga Miðflokksins. Farið verði tafarlaust í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir þessum lið:
Borgarstjórn er treyst til að sýsla með útsvar borgarbúa og dreifa þeim til samfélagsins með sanngjörnum hætti. Það á að vera siðferðisleg skylda okkar að fara vel með fjármuni borgarbúa og gæta þess í hvívetna að hverri krónu sé ráðstafað fyrst og fremst í beina þágu borgarbúa t.d. með því að auka og betrumbæta þjónustu við borgarbúa. Áleitnar spurningar hafa leitað á borgarfulltrúa Flokks fólksins er varðar hvort nægjanlega sé gætt að sparnaði í borginni. Fyrst má nefna aðkeypta þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga sem borgarfulltrúi telur að fagfólk borgarinnar eigi að geta sinnt öllu jöfnu með einfaldara og skilvirkara skipulagi. Borgarfulltrúi vill  spyrja um kostnað við ferðir erlendis og er hér ekki verið að tala um hótel- og flugkostnað heldur dagpeningakostnað sem oft er umfram það sem þörf reynist. Mörg fyrirtæki eru komin með svokölluð viðskiptakort sem á eru ákveðið eðlilegt hámark. Annar kostnaður sem kanna þarf er árlegur kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum viðburðum tengdum borginni. Stærsti liðurinn sem vekur þó athygli er hár rekstrarkostnaður skrifstofu borgarstjóra. Velta þarf við hverjum steini með það að markmiði að nýta peninga borgarbúa sem allra best í þeirra þágu. Þjónustu á aldrei að skerða, þjónusta á heldur ekki að vera viðunandi heldur fullnægjandi.

Tillaga Flokks fólksins um að lækka gjald fyrir skólamáltíðir um þriðjung

Það er mikilvægt að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir.
Frestað

Greinargerð

Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að aðgerð af þessu tagi mun lækka tekjur skóla- og frístundasviðs um meira en 1 milljarð kr. á ári sem er vissulega stór biti af öllum tekjum sviðsins. Í stað þess að fara í sparnaðaraðgerðir innan sviðsins er það ábyrgð borgarinnar að forgangsraða í fjárreiðum borgarinnar og í þessari tillögu er Flokkur fólksins að leggja til að borgin forgangsraði fjármunum í þágu barnanna.
Frestað

Aðrar tillögur sem lagðar eru fyrir borgarstjórnarfund 4. september:

Tillaga Flokks fólksins um að breyta inntökuskilyrðum í Klettaskóla

Tillaga Flokks fólksins um að gerð verði könnun á þörf fyrir fleiri sérskólaúrræði

Tillaga Flokks fólksins um að sett verði á laggirnar nýtt sérskólaúrræði í Reykjavík

Öllum þremur vísað á Skóla- og frístundarsviðs

Tillaga Flokks fólksins um könnun á þjónustu Félagsbústaða

Tillaga Flokks fólksins um að fenginn verði óháður aðili til að meta viðhaldsþörf hjá Félagsbústöðum.

Báðum vísað til stjórnar Félagsbústaða

Sjá nánar greinargerðir með þessum tillögum neðar en þær hafa áður verið á dagskrá borgarráðs en ekki komist til umræðu.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins og borgarfulltrúi Miðflokksins hafna því alfarið að vísa tillögum um mat á viðhaldsþörf Félagsbústaða og könnun á þjónustu Félagsbústaða til stjórnar Félagsbústaða. Hér er um að ræða ótrúlega ákvörðun borgarmeirihlutans, það er að setja það í hendur fyrirtækisins sjálfs að rannsaka fjölmargar alvarlegar ávirðingar og kvartanir sem borist hafa á hendur þess. Það ætti að vera flestum ljóst að ekki gengur að ætla fyrirtæki að rannsaka sjálft sig, rannasaka hvort alvarlegar ávirðingar á hendur þess eigi við rök að styðjast. Verið er að leggja til að fá óháðan aðila til að meta viðhaldsþörf í kvörtunarmálum og gera könnun á viðmóti meðal annars vegna kvartana um dónaskap, fordóma, hunsunar svo fátt eitt sé nefnt. Að ætla fyrirtækinu að rannsaka þetta sjálft er fordæmalaust. Er reiknað með að niðurstöður slíkrar rannsóknar verði trúverðugar? Þessi ákvörðun meirihlutans er vond ákvörðun og mun gera fátt annað en valda áframhaldandi vonbrigðum og reiði þeirra sem telja sig þolendur í þessum málum.