Borgarráð 5. maí 2022

Bókun Flokks fólksins við bréfi skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á tillögu að deiliskipulagi fyrir Rauðhóla:

Búið er að skemma flesta Rauðhóla. Heilu hólunum var mokað í burtu á sínum tíma, grafið í aðra og þeir skemmdir og nú stendur eftir alls konar form af „hólum“, allir skemmdir af mannanna völdum. Skemmdir vegna efnistöku eru skerandi og ættu að minna alla á að ganga vel um náttúruna. Helsta markmiðið ætti að vera núna að þeim hólum sem ekki hefur þegar verið spillt verði algjörlega látnir óáreittir. Þess vegna er gott að beina fólki ekki akkúrat að þeim hólum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2022, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 27. apríl 2022 á breytingu á deiliskipulagi Safamýrar-Álftamýrar vegna lóðarinnar nr. 2 við Starmýri:

Hér er lagt til að gera breytingu á deiliskipulagi sem myndi veita heimild til þess að bæta við fjórðu hæð ofan á helming þakflatar þriggja hæða fjölbýlishúss sem nú er í byggingu. Upphaflegum teikningum var mótmælt og nú á enn að bæta við byggingarmagni. Þessu hefur verið harðlega mótmælt og vill fulltrúi Flokks fólksins að hlustað sé á íbúa. Athugasemdir lúta m.a. að skorti á samráði. Áhyggjur eru af skuggavarpi og bílastæðamálum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 2. maí 2022, þar sem lögð er fram til kynningar ársfjórðungsskýrsla græna plansins fyrir október til desember 2021, ásamt ársskýrslu fyrir árið 2021:

Fram kemur í grænu skýrslunni að farið var í fjárfestingaátak í stafrænni umbreytingu. Því miður er ekki hægt að segja að unnið hafi verið að stafrænni umbreytingu með skýrum markmiðum og með hagkvæmni að leiðarljósi. Segja má að þessi vegferð hafi einkennst af göslaragangi og lausung. Það er sárt að horfa upp á vinnubrögð af þessu tagi fyrir flokk eins og Flokk fólksins sem hefur barist fyrir bættri þjónustu við fólk í borginni. Flokkur fólksins er ekki einn um þá gagnrýni á hvernig farið hefur verið með þessa 13 milljarða króna sem eiga eftir að verða mun fleiri þegar fram líða stundir. Samtök iðnaðarins hafa einnig gagnrýnt þetta opinberlega ásamt fleirum sem þekkingu hafa á þessum málum. Stafræn þróun hjá Reykjavíkurborg snerist nefnilega upp í stafræna sóun. Mun hagkvæmara hefði verið að fara að dæmi annarra sveitarfélaga og ganga strax til liðs við Stafrænt Ísland í stað þess að eyða ómældu fjármagni í að finna upp hjólið. Ábyrgðin er að öllu leyti borgarstjóra sem er framkvæmdastjórinn en einnig samstarfsflokka hans. Flokkur fólksins hefur vakið athygli innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á þessu alvarlega máli og hefur hún í framhaldi ákveðið að gera úttekt á starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs á næsta ári.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra og borgarritara, dags. 2. maí 2022, þar sem óskað er eftir að úthluta um 4.965 fm lóð og byggingarrétti fyrir allt að 140 íbúðir við Einarsnes 130:

Hér er um að ræða svæði fyrir innan flugvallargirðinguna. Vitnað er í orð ráðherra samgöngumála sem segir að ekkert sé verið að fara að byggja í Skerjafirði þar sem flugvöllurinn er ekki á leiðinni þaðan. Enginn annar sambærilegur eða betri staður hefur fundist fyrir flugvöllinn. Er hér einhver misskilningur í gangi? Orð ráðherra og orð borgarstjóra fara ekki saman. Er verið að fara að byggja í Skerjafirði eða ekki?

 

Bókun Flokks fólksins við Þjóðarhöll í innanhúsíþróttum í Laugardal er færð í trúnaðarbók borgarráðs:

Ljóst er að þjóðarhöll á best heima í Laugardal og þarf öll þjóðin að koma að þessu stóra og mikilvæga verkefni.

Bókun Flokks fólksins við bréfi um minnisblað mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 2. maí 2022, um niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar 2022:

Eftir því er tekið að svarhlutfall er lágt á skóla og frístundasviði, umhverfis og skipulagssviði og velferðarsviði. Hverju skyldi það sæta? Fræðsla, þjálfun og upplýsingaflæði koma verst út. 4.9% er áreitni hjá samstarfsfólki og tæplega 4% er einelti hjá samstarfsfólki. Hvað þýða þessar tölur og hvernig á að bregðast við?

 

Bókun Flokks fólksins vð 3. lið fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 25. apríl 2022.

Kynning á uppbyggingu verslunar, þjónustu og íbúðahúsnæðis við Jarpstjörn, Skyggnisbraut og Rökkvatjörn. Eftir 15 ár er loksins verið að leggja drög að verslun í hverfinu sem átti að verða sjálfbært en nú fimmtán árum seinna er engin matvöruverslun hvað þá bakarí. Hér er ekki annað hægt en að fagna mjög. Tekið er einnig undir bókun sem birt er undir 4. lið sem er um breytingu á deiliskipulagi fyrir Reynisvatnsás: Íbúasamtökin í Úlfarsárdal hafna tillögu á breytingu á skilmálum deiliskipulagsins „Reynisvatnsás, íbúðarhverfi, deiliskipulag“. Þessi breytingalýsing að leyfa skorsteina og loftnet upp fyrir tilgreinda hámarkshæð er of opin. Þarna er verið að opna fyrir að stórir steyptir skorsteinar og gervihnattadiskar geti skyggt á útsýni á flottum útsýnislóðum. Hefðbundið loftnet og 30-40 cm þykkt reykrör myndi teljast innan marka. Eitthvað stærra en það þyrfti að fara í grenndarkynningu.

 

Bókun Flokks fólksins við 3. lið fundargerðar íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 27. apríl 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins styður bókun íbúaráðs Miðborgar Hlíða að fulltrúi íbúaráðsins og fulltrúi íbúasamtaka verði hluti af samráðshópi um umferð stærri ökutækja í miðborginni. Mál af þessu tagi er best unnið i góðu samráði við íbúana og hagaðila á svæðinu.

 

Bókun Flokks fólksins við 13. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 4. maí 2022.

Eina leiðin til að borga sig inn í strætó núna, svona að mestu, er að eiga farsíma og vera búin að koma sér upp Klapp-appinu til að geta keypt sér inneign. Nauðsynlegt er að hafa rafrænt auðkenni til að geta farið inn á „mínar síður“ og endurnýjað inneignina. Það eiga ekki alveg allir farsíma og sumir, t.d. hælisleitendur sem nota strætó mikið, hafa ekki einu sinni kennitölu. Enn aðrir geta ekki, t.d. vegna fötlunar sinnar, notað rafræn skilríki og geta þ.a.l. ekki notað „mínar síður“. Reynt hefur verið að finna lausnir á þessu og á eftir að koma í ljós hvort þær gagnast. Versta er ef „kerfi“ sem þetta á eftir að hindra fólk í að nota strætó. Það er ekki gott ef viðkvæmir hópar og þeir sem hafa stólað mest á strætó treysti sér ekki til að nota strætó vegna nýja greiðslukerfisins Klapp. Fólk hefur kvartað sáran yfir þessu kerfi og að ekki sé boðið upp á fleiri greiðslumöguleika en tíu miða kort. Stjórnendur Strætó verða að setja sig betur í spor þeirra sem ferðast með vögnum fyrirtækisins áður en ákveðið er að kaupa „kerfi“ sem þetta. Sníða þarf þjónustuna að veruleika þjónustuþega og skilja engan út undan.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar öldungaráðs frá 25. apríl 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar við velferðartækni til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti. Flestar þeirra lausna sem hér um ræðir eru án efa nú þegar til í einhverri mynd t.d. hjá öðrum sveitarfélögum og þarf því ekki að finna upp hjólið að nýju. Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull. Velferðartækni á að sameinast rafrænni þjónustumiðstöð en eftir því sem heyrist þá er nú hægt að sækja um fjárhagsaðstoð þar og áfrýja málum og panta tíma hjá ráðgjafa. Velferðartækni mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar öldungarráðs frá 25. apríl 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar við velferðartækni til að auka þjónustu við eldri borgara og aðra þjónustuþega í Reykjavík en vill að það sé gert með markvissum og hagkvæmum hætti. Flestar þeirra lausna sem hér um ræðir eru án efa nú þegar til í einhverri mynd t.d. hjá öðrum sveitarfélögum og þarf því ekki að finna upp hjólið að nýju. Stefna velferðarsviðs um velferðartækni er metnaðarfull. Velferðartækni á að sameinast rafrænni þjónustumiðstöð en eftir því sem heyrist þá er nú hægt að sækja um fjárhagsaðstoð þar og áfrýja málum og panta tíma hjá ráðgjafa. Velferðartækni mun án efa stuðla að fjölbreyttri og sveigjanlegri þjónustu sem miðar að einstaklingsmiðuðum þörfum ef allt gengur upp sem skyldi

 

Bókun Flokks fólksins við 1. lið í yfirliti embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál:

Svarbréf Reykjavíkurborgar, dags. 7. apríl 2022, og svarbréf innviðaráðuneytisins, dags. 29. apríl 2022, við upplýsingabeiðni ESA vegna reikningsskila Félagsbústaða hf. og Reykjavíkurborgar. Það eru margir sem bíða eftir að sjá hvað kemur endanlega út úr bréfaskriftum ESA við ráðuneytið. Það að það skuli vera bréfaskriftir yfir höfuð um þetta mál finnst fulltrúa Flokks fólksins vera eitt og sér athyglisvert. Það að ESA sé með þetta til skoðunar er merki þess að alla vega var talið að eitthvað væri skoðunarvert. Endurmeta ætti reikningsskilaaðferðir. Rekstur borgarinnar breytist ekki, þetta er talnaleikfimi. Búinn er til leikur til að reyna að láta þetta líta betur út.