Borgarráð 22. apríl 2022

Bókun Flokks fólksins við framlagningu ársreiknings A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. apríl 2022, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 22. apríl 2022, greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 7. apríl 2022, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, ódags., sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl sl.

Ársreikningur 2021. Tap er á A-hluta. Áfram er tap á rekstri A-hluta og ef ekki væri bókfærður „hagnaður“ af félagslegu húsnæði og álafleiðum væri tap á samstæðunni allri í heild. Staðan hefur aldrei verið svona slæm. Það er 24 milljarða skuldaaukning á síðasta ári. Þetta er sett á reikning COVID en allir vita að það er meira þarna að baki og staða borgarinnar var ekki góð fyrir COVID.
Um reikningsskilaaðferð Félagsbústaða, það eru margir sem bíða eftir að sjá hvað kemur út úr bréfaskriftum ESA við ráðuneytið. Það að það skuli vera bréfaskriftir yfir höfuð um þetta mál er eitt og sér athyglisvert. Ef horft er á A-hlutann þá er veltufé frá rekstri í sögulegu lágmarki, er nú 368 milljónir, en var 5 milljarðar og þar áður 12,4. Búið er að taka mikið af lánum og áframhaldandi lántökur bíða. Afborganir langtímaskulda og leiguskulda eru nú samtals 3,8 milljarðar en var 2,8 milljarðar. Það er búið að ráðstafa tæpum fjórum milljörðum af veltufé sem aðeins telur 368 milljónir rúmar. Það er lítið sem ekkert að koma úr rekstri til að styrkja handbært fé og því þarf sennilega að taka enn meira lán.
Þessi ársreikningur staðfestir að fjármálastjórn er ekki ábyrg. Tekið er undir að starfsfólk hafi sýnt mikla seiglu og elju við oft mjög erfiðar aðstæður árið 2021 og 2020. Þeim eru færðar bestu þakkir af Flokki fólksins. Ekki er hægt að sætta sig við þessa gríðarlegu skuldasöfnun, en skuldir samstæðu voru komnar í 407 milljarða um síðustu áramót. Samkvæmt þessu hækkuðu skuldirnar um 24 milljarða á síðasta ári. Tvo milljarða á mánuði. Þetta gerist þrátt fyrir að tekjur hafi hækkað um heila 44 milljarða!

 

Bókun Flokks fólksins við 3. lið fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 4. apríl 2022:

Farið er yfir  frístundastarf í Breiðholti. Tekið er undir að mikilvægt er að frístundastarf sé bæði faglegt og fjölbreytt. Mikil uppbygging á sér stað í Breiðholti og því ekki úr vegi að fara yfir þessi mál. Það sem vantar er að ekkert er að finna í  þessum texta um ráðstöfun á húsnæðinu í Austurbergi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp af hverju ekkert er minnst á að í skoðun er ráðstöfun á Austurberginu og áhuga Leiknis til að fá húsið til að geta boðið upp á fjölbreyttara úrval íþrótta. Þarna virðist gert ráð fyrir að ÍR verði áfram í Austurbergi þrátt fyrir að þeir séu að fá nýja húsið í Mjóddinni.

 

Bókun Flokks fólksins við 2. og 3 lið fundargerðar Strætó:

Áfall er að Strætó hefur þurft að draga úr þjónustu. Á meðan ómældir fjármunir fara í borgarlínu getur borgin ekki haldið úti lágmarks almenningsþjónustu í bs.-fyrirtæki sem það er stærsti eigandi að. Tekjur fyrstu þriggja mánaða ársins eru undir áætlun og fyrir utan almennar hækkanir verðbólgu og aðfanga, hækkar olíuverð um 38%. Þarna kemur í bakið sú staðreynd að stjórnin hefur frekar kosið að kaupa vagna sem brenna innfluttu jarðefnaeldsneyti frekar en að nota metan, sem safnað er hjá SORPU. Það á varla að koma á óvart að margir vagnar eru gamlir og það er einnig einkennilegt að hafa ekki vagna sem geta annað akstri á annatímum. Að kaupa verktaka til þess er varla ódýrt. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um úrlausnir á eineltismálum hjá fyrirtækinu en ekki fengið svör. Háar fjárhæðir hafa farið í að ráða fagfólk til að reyna að leysa eineltismál og önnur samskiptamál hjá Strætó sem ekki hefur skilað árangri eftir því sem heyrst hefur. Beðið hefur verið um upplýsingar um þá fjárhæð sem farið hefur í að greiða utanaðkomandi fagfólki vegna þessara mála. Til hverra hafa greiðslur farið og hverjar eru upphæðirnar? Einnig hefur verið óskað eftir upplýsingum  um lögfræðikostnað Strætó bs. sem tengist málum af þessu tagi.